SVÞ hefur sent inn umsögn sem styður þingsályktunartillögu um þriðja orkupakkann sem nú er til meðferðar á Alþingi. Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands styðja einnig tillöguna.

Samtökin leggja í þessu sambandi sérstaka áherslu á mikilvægi EES-samningsins fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag. Mikilvægi samningsins verða seint ofmetin enda er öllum ljós sú mikla og jákvæða breyting sem orðið hefur á samfélaginu öllu þann aldarfjórðung sem EES-samningurinn hefur verið í gildi. Samningurinn veitir, sem kunnugt er, Íslendingum aðgang að þeim 500–600 milljón manna markaði sem er innri markaður ESB- og EFTA-ríkjanna. Það skiptir afar miklu að þessu farsæla samstarfi verði ekki teflt í tvísýnu. Sú umræða sem farið hefur fram í þjóðfélaginu að undanförnu um það mál sem hér er til umfjöllunar, er með þeim hætti að full ástæða er til að staldra við og vekja athygli á mikilvægi málsins.

SVÞ telja mikilvægt að hafa í huga að orkulöggjöfinni er ætlað að efla samkeppni á því sviði sem löggjöfin nær til. Slíkt styrkir stöðu orkukaupenda, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar, gagnvart þeim sem framleiða og dreifa orku. Eins og á öðrum sviðum þar sem virk samkeppni er til staðar, kemur það öllum kaupendum til góða, hvort sem er í formi betri þjónustu eða lægra verði. Sterkar vísbendingar eru um að samþykkt tillögunnar muni hafa ábata í för með sér.

Þeir annmarkar á innleiðingu þriðja orkupakkans sem teflt hefur verið fram í almennri umræðu að undanförnu eru illa skilgreindir og óljósir að mati samtakanna. Verði ákvörðunartaka um samþykkt tillögunnar byggð á tilvist þeirra er ekki einungis hætt við að meiri hagsmunum verði fórnað fyrir minni heldur einnig að ríkum og skýrum hagsmunum verði fórnað fyrir óljósa, illa skilgreinda og í öllu falli takmarkaða hagsmuni. Þar með yrði skýrum heildarábata fórnað af þarfleysu. Þeir hagsmunir sem Ísland og íslenskt samfélag hefur af því að af innleiðingu verði, eru í öllu tilliti mun ríkari, enda tekur orkupakkinn ekki yfirráð yfir orkuauðlindunum úr höndum íslensku þjóðarinnar.

Smelltu hér til að lesa umsögnina í heild sinni