Höldum áfram!  er samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka iðnaðarins en verkefninu er ætlað að vera liður í því að vernda störf og halda hjólum atvinnulífsins gangandi eftir bestu getu á tímum COVID-19. Hugmyndin er að virkja félagsmenn sem allra mest og fá þá til þátttöku í verkefninu.

Verkefnið er unnið eftir lean-aðferðafræðinni og því er farið af stað þó ekki sé allt fullkomið þar sem alltaf má bæta og þróa. Vefurinn www.holdumafram.is hefur verið opnaður en þar eru komnar ýmsar upplýsingar sem gagnast ættu aðildarfyrirtækjum. Sett hefur verið upp Facebook-síða verkefnisins, Facebook.com/holdumaframog verkefnið er einnig á Instagram, Instagram.com/holdumafram, þar sem efni verður deilt sem snýr bæði að almenningi og fyrirtækjum. Þá hefur verið settur upp Facebook hópurinn SAF, SVÞ og SI halda áfram! sem er eingöngu ætlaður félagsmönnum.

Verkefnið snýr meðal annars að því að:

  • Hvetja almenning að versla við íslensk fyrirtæki
  • Setja fram hugmyndir fyrir almenning um hverskonar viðskipti er hægt að eiga á þessum tímum
  • Safna saman tilboðum frá félagsmönnum
  • Flytja fréttir af því sem félagsmenn eru að gera sem kann að vera áhugavert fyrir almenning og getur líka verið hvatning og innblástur fyrir önnur fyrirtæki

Við hvetjum félagsmenn til þátttöku og almenning til að taka áskoruninni og halda áfram viðskiptum eftir því sem fólk getur, til að vernda störf og halda hjólum atvinnulífsins gangandi!