Mikil ánægja var með sameiginlega ráðstefnu SVÞ og SAF um Alipay og viðskipti við kínverska ferðamenn, sem haldin var 8. nóvember sl.

Xiaoquion Hu, yfirmaður viðskiptaþróunar DACH og CEE, Alipay Europe kynnti Alipay greiðslulausnina. Í máli hennar kom fram að Kínverjar eyða mest allra ferðamanna – tvisvar sinnum meira en næsta þjóð, sem er Bandaríkjamenn. Alipay er mest notaða greiðslulausnin í Kína og er í dag stærsta greiðslulausn í heimi með yfir 870 milljón virka notendur.

Í máli Gunnhildar Vilbergsdóttur, deildarstjóra viðskipta á viðskiptasviði Keflavíkurflugvallar kom fram að þær verslanir á Keflavíkurflugvelli sem tekið hafa upp Alipay eru nú þegar að sjá árangur. Aukning hefur orðið í sölu og starfsfólk tekur eftir ánægju kínverskra ferðamanna með möguleikann á greiðslu með Alipay.

Danielle Neben, markaðsstóri ePassi Iceland (þjónustuaðili Alipay á Íslandi) flutti einnig erindi undir yfirskriftinni „Welcoming Chinese tourists in Iceland, Chinese culture and marketing opportunities”. Í erindinu komu fram ýmis góð ráð varðandi hvernig best er að taka á móti kínverskum ferðamönnum og þjónusta þá.

Viðskiptablaðið birti í síðustu viku viðtal við Xiaoquion Hu og má sjá hluta af því á vef vb.is hér og annan hluta hér. Viðtalið í heild má sjá í blaðinu.

Á myndinni má sjá, frá vinstri til hægri: Xiaoqiong Hu (Alipay), Jóhannes Þór Skúlason (SAF), Jin Zhijian (Sendiherra Kína á Íslandi), Danielle Neben (ePassi), Gunnhildur Vilbergsdóttir (Isavia), Niklas Löfgren (ePassi), Daniela Nittoli (ePassi)