Árið 2016 höfðu um 27.000 manns atvinnu af heild- og smásöluverslun samkvæmt vinnumarkaðsgögnum Hagstofunnar. Störfin eru um 14% allra starfa í atvinnulífinu. Á sama tíma er námsferill fólks í verslun og þjónustu oft flókinn, langur og óskýr. Það er lítið sem ekkert framboð af námi fyrir ungt fólk sem vill velja sér starf í verslun og þjónustu. Það vantar upphafið, það vantar grunninn. Nær öll störf eru þjónustustörf. Rúmlega fjórðung af heildarveltu hagkerfisins má rekja til verslunarinnar. Átta prósent af landsframleiðslu Íslands árið 2015 kom frá versluninni og því er þessi geiri einn sá umfangsmesti á Íslandi. Ferðaþjónustan vex hratt og glímir að hluta til við sömu áskoranir. Það eru því mikil tækifæri sem felast í því að í boði verði braut á framhaldsskólastigi sem nýtist í slíku starfi og jafnframt til áframhaldandi náms.

Starfshópur á vegum SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu hefur unnið að undirbúningi slíkrar námsbrautar í samvinnu við Tækniskólann. Stúdentsbraut með áherslu á stafrænar lausnir þar sem lögð verður áhersla á sérhæfingu innan markaðsfræði, rekstarmála, mannlegra samskipta og starfsnáms.  Stefnt er að því að nemendur sem útskrifast af brautinni verði vel í stakk búnir til þess að skapa sín eigin viðskiptatækifæri, hafi góða þekkingu á stafrænum lausnum  ásamt því að fá góðan undirbúning fyrir fjölbreytt ábyrgðarstörf tengdum verslun og þjónustu.  Að auki verður nám á fagháskólastigi í verslun og þjónustu sett á laggirnar um áramótin en námið verður í boði bæði í Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Bifröst. Þetta er fagnaðarefni enda tilheyra tæplega 5.000 íslensk fyrirtæki þessum hópi eða 6,9% allra fyrirtækja í landinu.

Þessir valkostir munu svara mikilli eftirspurn atvinnulífsins á starfskröftum með slíka menntun.

Höfundur: Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntasviðs SVÞ

Greinin til útprentunar.