Samkeppnisreglur SVÞ

Leiðbeiningar fyrir fundi á vefum SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

Reynsla bæði hér og erlendis sýnir að starfsemi hagsmunasamtaka keppinauta á
samkeppnismarkaði getur leitt til þess að samkeppni á viðkomandi markaði minnkar. Til
marks um slíkt er að í samkeppnislögum er sérstaklega fjallað um ábyrgð og skyldur samtaka
fyrirtækja, stjórnarmanna þeirra, starfsmanna og annarra trúnaðarmanna hvað viðkemur
samkeppnislögum.

I. Inngangur

Hagsmunagæsla samtaka fyrirtækja er í eðli sínu ekki andstæð samkeppnislögum. Óumdeilt er að starfsemi samtaka fyrirtækja getur verið gagnleg og haft jákvæð áhrif á mörkuðum, t.d. þegar slík samtök annast hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum í því skyni að bæta almenn rekstrarskilyrði fyrirtækja. Hins vegar getur samvinna fyrirtækja innan slíkra samtaka verið viðkvæm í samkeppnislegu tilliti. Á þetta ekki síst við ef keppinautar í tiltekinni atvinnugrein hittast reglubundið þar sem hætt er við að á góma beri málefni sem áhrif geta haft á samkeppni þeirra á milli. Getur slíkt skapað skilyrði fyrir samvinnu og gagnkvæmt tillit milli viðkomandi fyrirtækja sem dregið getur úr hvata til samkeppni.

Takmarkanir á þeirri starfsemi sem heimilt er að reka innan hagsmunasamtaka grundvallast fyrst og fremst á þeirri hættu sem kann að skapast á brotum á samkeppnisreglum. SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa ávallt að leiðarljósi að starfsemi samtakanna samræmist lögum í hvívetna. Af þeirri ástæðu ber undantekningarlaust að forðast alla upplýsingamiðlun og aðgerðir sem kunna að orka tvímælis á sviði samkeppnisréttar. Til að vinna að því markmiði og til að tryggja eftir fremsta megni að starfsemi SVÞ sé bæði í löglegum og faglegum farvegi, eru þessar leiðbeiningar um samskipti á vettvangi samtakanna settar fram.

Markmið þessara leiðbeininga er að tryggja að starfsfólk og/eða samstarfsfólk á vegum SVÞ, hvort heldur er í hlutverki sínu sem skipuleggjandi og/eða þátttakandi í fundum, aðgerðum, hópastarfi o.s.frv., með þátttöku fyrirtækja í samkeppnisrekstri, taki ekki þátt í starfsemi eða háttsemi sem mögulega gæti falið í sér brot á samkeppnisreglum. Leiðbeiningarnar eiga jafnframt að hindra að starfsfólk aðildarfyrirtækja sem tekur þátt í fundum á vegum SVÞ taki, meðvitað eða ómeðvitað, þátt í slíkum mögulegum brotum.

Öll aðildarfyrirtæki SVÞ og starfsmenn þeirra, SVÞ og starfsmenn samtakanna og aðrir sem að starfsemi SVÞ koma, skuldbinda sig til að fara eftir leiðbeiningum þessum í hvívetna. Þá skulu þessir aðilar ekki aðhafast neitt það sem kann að orka tvímælis þegar lög og reglur um samkeppni eru annars vegar.

Brot á leiðbeiningum þessum eru á ábyrgð viðkomandi. Mikilvægt er því að kynna sér þær af nákvæmni.

II. Bestu starfshættir

  •  Allir fundir sem SVÞ skipuleggja eða taka þátt í skulu sannarlega hafa lögmætan tilgang.
  • Fyrir fundi skal senda út dagskrá til þátttakenda ef fundinn sitja starfsmenn fyrirtækja sem eru í samkeppni. Fundarmenn skulu ávallt halda sig við fundarefni dagskrár. Halda skal fundargerð fyrir hvern fund.
  • Fulltrúi frá skrifstofu SVÞ skal sitja alla fundi á vegum samtakanna. Eftir atvikum er unnt að fela óháðum lögmanni að sitja slíkan fund á vegum samtakanna.
  • Ef umræður orka með einhverjum hætti tvímælis, með hliðsjón af samkeppnisreglum, ber fulltrúa SVÞ skilyrðislaust og án tafar að stöðva umræðurnar.
  • Leiki vafi á því hvort umræður samræmast samkeppnisreglum skulu fundarmenn hætta þeim, uns ákvörðun um framhald þeirra er tekin af hálfu fulltrúa SVÞ. Við töku slíkrar ákvörðunar skulu samkeppnisreglur, tilgangur þeirra og markmið ávallt njóta vafans.
  • Viðmið um aðild að t.d. ráðum, nefndum og vinnuhópum SVÞ skulu vera gagnsæ og skal gæta jafnræðis. Málefnaleg sjónarmið, líkt og sérþekking og reynsla einstaklinga, skulu ávallt höfð að leiðarljósi þegar að því kemur að velja eða hafna fulltrúum í starfsemi SVÞ.
  • Þessar leiðbeiningar eiga við um alla fundi á vegum SVÞ og einnig samkomur utan hefðbundins vinnutíma og athöfnum af félagslegum toga sem haldnar eru á vegum samtakanna. Sé aðgangur veittur að skrifstofu- og fundaraðstöðu SVÞ vegna starfsemi félaga, annarrar en á vegum samtakanna og án þátttöku starfsfólks þeirra, skal engu að síður farið að leiðbeiningunum.
  • Í ákvæði 12. gr. samkeppnislaga segir að samtökum fyrirtækja sé óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögum. Af þessu leiðir að margvíslegar aðgerðir samtaka fyrirtækja, s.s. tilmæli, ráðleggingar eða upplýsingagjöf, geta fallið undir 12. gr. samkeppnislaga ef þessar aðgerðir hafa það að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni eða henni sé raskað. Öll slík háttsemi er af þeim sökum bönnuð af og innan SVÞ.

III. Eftirfarandi er óheimilt án allra undantekninga og skilyrða

Bannaðir eru hvers konar samningar, munnlegt eða þegjandi samþykki, og/eða samstilltar aðgerðir sem hafa það að markmiði eða leiða til þess, beint eða óbeint, í raun eða mögulega, að koma í veg fyrir, takmarka eða brengla samkeppni. Þá er öll sú háttsemi bönnuð sem leiða má líkur að, eða túlka mætti á þann hátt að falli undir framangreint.

Í stuttu máli er öll háttsemi, sem miðar að því að takmarka samkeppni eða kann að hafa þau áhrif, bönnuð. Leiðbeiningar þessar kunna að ganga lengra en leiða má af lögum, en með þeim er jafnframt lagt bann við háttsemi sem gæti mögulega fallið undir framangreint bann. Ástæða þess er einkum sú að mörkin milli lögmætrar og ólögmætrar háttsemi samtaka fyrirtækja í skilningi samkeppnislaga eru oftar en ekki óljós.

Það skal haft í huga að samhæfðar aðgerðir um verðlagningu og hvers konar skiptingu markaða, hvort heldur sem er landfræðilega eða á annan hátt, eru jafnan taldar sérstaklega alvarleg og refsiverð lögbrot sem kunna að leiða til mjög hárra sektargreiðslna og jafnvel fangelsisvistar. Er því afar mikilvægt að fara með gát í allri ákvarðanatöku, upplýsingagjöf og annarri starfsemi sem kann með einum eða öðrum hætti að hafa neikvæð áhrif á samkeppni.

Ákvæði samkeppnislaga – 10.gr.:

 „Allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað eru bannaðar.

Bann þetta tekur m.a. til samninga, samþykkta og samstilltra aðgerða sem:

a. áhrif hafa á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör með beinum eða
óbeinum hætti,

b. takmarka eða stýra framleiðslu, mörkuðum, tækniþróun eða fjárfestingu,

c. skipta mörkuðum eða birgðalindum,

d. mismuna viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og veikja
þannig samkeppnisstöðu þeirra,

e. setja sem skilyrði fyrir samningagerð að hinir viðsemjendurnir taki á sig
viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna, hvorki í eðli sínu né
samkvæmt viðskiptavenju.“

 

Samkeppnisreglurnar banna hvers konar samskipti, samninga eða leynilegt samkomulag, samhæfðar aðgerðir á milli fyrirtækja eða gagnkvæma miðlun upplýsinga um:

 

  • Verðlagningu, bæði núgildandi eða síðar meir, þ.m.t. allar tillögur að viðmiðunarverði, verðbreytingar (t.d. upphæðir, prósentuhlutfall eða vísitölu), verðlagningarstefnu, hagnað, afslætti, bónusa, gjöld, fjárframlög, lánaskilmála, leiðbeiningar um verðútreikninga o.s.frv.
  • Markaðsskiptingu og úthlutun viðskipta, t.d um að hvort fyrirtæki um sig fái ákveðið magn viðskipta, að annað stundi viðskipti á tilteknu landsvæði en hitt á öðru, að annað eigi viðskipti við ákveðinn hóp viðskiptavina en hitt við annan, að annar hvor keppinauta fái tiltekin viðskipti en hinn önnur o.s.frv.
    Viðskiptastefnu, veltu og tekjur.
  • Kostnaðaruppbyggingu, þ.m.t. framleiðslu- eða dreifingarkostnað, líkön um kostnaðarútreikninga með „sýnidæmum“, spár um kostnaðarþróun, raunveruleg kostnaðarviðmið og kvóta.
  • Tölur og/eða áætlanir hvað varðar birgja, framleiðslu, lager, sölu, markaðssetningu og söluhvetjandi starfsemi.
  • Öll málefni sem varða birgja eða viðskiptavini, þ.m.t. allar tilraunir til sameiginlegra aðgerða sem geta haft þau áhrif að útiloka birgja eða viðskiptavini frá markaði.
  • Upplýsingar um framtíðaráætlanir sem varða vísindalega/tæknilega þróun og fjárfestingar.
  • Upplýsingar fyrirhugaða markaðssetningu nýrrar vöru eða þjónustu eða aðra fyrirhugaða markaðsfærslu.
  • Upplýsingar um viðskiptatækifæri eða fyrirhugaða nýtingu þeirra.

Heimilt er að ræða með almennum hætti málefni sem ekki eru á nokkurn hátt til þess fallin að draga úr viðskiptalegu sjálfstæði eða sjálfstæðri markaðshegðun. Slík málefni geta m.a. verið staðlar, umhverfisreglur, málefni tengd heilbrigðis- og öryggisþáttum og þróun á löggjöf, regluverki og stjórnmálum. Eftir atvikum getur almenn fræðslustarfsemi fallið hér undir, s.s. fræðslufundir.

Heimilt er að ræða með almennum hætti opinberlega aðgengilegar upplýsingar um þróun á markaði.