Samþykktir SVÞ

I. kafli. Um nafn, heimili, varnarþing og tilgang
1. gr.
Nafn félagsins er SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu, skammstafað SVÞ. Heimili þess, varnarþing og skrifstofa er í Reykjavík.

2. gr.
Tilgangur SVÞ er að:
1. Vera málsvari atvinnurekenda á sviði verslunar og þjónustu.
2. Vinna að almennum og sameiginlegum hagsmunamálum aðildarfyrirtækja.
3. Stuðla að framförum í verslun og þjónustu, bættum starfsskilyrðum, aukinni arðsemi og samkeppnishæfni.
4. Þjónusta aðildarfyrirtæki á sviði kjaramála í samstarfi við Samtök atvinnulífsins (SA).

II. kafli. Aðild að samtökunum
3. gr.
Aðild að SVÞ geta átt félög, sjálfseignarstofnanir og einstaklingar sem starfa við atvinnurekstur á sviði verslunar, smásölu, heildsölu, umboðssölu, innflutnings, útflutnings, vörudreifingar, flutninga, og annarrar þjónustu. Jafnframt geta verslunarkeðjur og samstæður átt aðild að samtökunum. Þar sem rætt er um aðildarfyrirtæki í samþykktum þessum er átt við félög, sjálfseignarstofnanir og einstaklinga í atvinnurekstri.

Fyrirtæki hafa val um það hvort þau gerast aðilar að einhverju sérgreinafélagi eða hagsmunahópi sem starfar innan samtakanna eftir því sem samþykktir þeirra leyfa. Aðild að sérgreinafélagi eða hópi felur jafnframt í sér beina aðild að SVÞ.

4. gr.
SVÞ á aðild að Samtökum atvinnulífsins. Samtök atvinnulífsins annast gerð kjarasamninga fyrir hönd aðildarfyrirtækja SVÞ, annarra en þeirra sem takmarkað hafa aðild sína við þjónustudeild Samtaka atvinnulífsins. Innganga í SVÞ felur jafnframt í sér beina aðild að Samtökum atvinnulífsins með þeim réttindum og skyldum sem kveðið er á um í samþykktum þeirra.

5. gr.
Umsókn um beina aðild að SVÞ skal send stjórn samtakanna. Inntökubeiðni telst samþykkt ef meirihluti stjórnar er henni samþykkur.Leiti fyrirtæki inngöngu í eitthvert sérgreinafélag SVÞ fer um afgreiðslu inntökubeiðni eftir samþykktum þess félags. Synjun um aðild má skjóta til almenns félagsfundar, en þá þarf 2/3 hluta atkvæða til að hún fáist samþykkt. Inntökubeiðni skulu fylgja upplýsingar um stjórn, stjórnendur, starfssvið, launagreiðslur og veltu.

Samtökunum er heimilt að afla upplýsinga um heildarlaunagreiðslur aðildarfyrirtækja svo og annarra þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru vegna starfsemi samtakanna. Farið skal með öll gögn sem trúnaðarmál.

III. kafli. Skipulag samtakanna
6. gr.
Öll aðildarfyrirtæki SVÞ eiga beina aðild að samtökunum sem og Samtökum atvinnulífsins. Þá geta þau jafnframt átt aðild að sérgreinafélögum sem starfa innan SVÞ eftir því sem samþykktir þeirra leyfa.

SVÞ rekur skrifstofu sem fer með almenn og sameiginleg hagsmunamál aðildarfyrirtækja og annast sérþjónustu við aðildarfélög í samræmi við samkomulag þar um.

Aðildarfyrirtæki sem sérstaklega vilja vinna að sameiginlegum hagsmunum geta innan vébanda SVÞ komið á fót félagi eða starfsgreinahópi og skal skrifstofa samtakanna veita slíkum hópum aðstöðu og almenna þjónustu. Stjórn SVÞ getur sett á fót fagnefndir sem skulu fjalla um hagsmunamál á einstökum sviðum.

Fagnefndir og starfsgreinahópar skulu vera stjórn samtakanna til ráðgjafar um málefni sem undir þá heyra.

IV. kafli.  Úrsögn og brottvikning
7. gr.
Úrsögn úr SVÞ skal tilkynna skrifstofu samtakanna með skriflegum hætti. Þó er stjórn heimilt að ákveða að úrsögn geti átt sér að stað með staðfestingu sérstakrar tilkynningar á mínum síðum á vefsíðu samtakanna. Hafi stjórn ákveðið að árgjöld skuli innheimt mánaðarlega, sbr. 1. mgr. 10. gr., tekur úrsögnin gildi frá og með fyrsta degi næsta mánaðar eftir að fullir sex mánuðir hafa liðið frá móttöku tilkynningarinnar. Hafi stjórn ákveðið á árgjöld skuli innheimt ársfjórðungslega, sbr. 1. mgr. 10. gr., tekur úrsögnin gildi frá og með fyrsta degi þess ársfjórðungs sem tekur að líða eftir að tveir heilir ársfjórðungar hafa liðið frá móttöku tilkynningarinnar. Þó má hvorki segja sig úr samtökunum né fara úr þeim á meðan vinnudeila sem snertir hlutaðeigandi aðildarfélag eða fyrirtæki stendur yfir.

Tillaga um brottvikningu telst samþykkt ef 2/3 stjórnarmanna greiða henni atkvæði. Ákvörðun um brottvikningu verður skotið til almenns félagsfundar, en þá þarf 2/3 hluta atkvæða til að breyta ákvörðun stjórnar.

Úrsögn eða brottvikning leysir ekki aðila undan greiðslu félagsgjalda eða annarra skuldbindinga sem á honum kunna að hvíla. Með brottför úr samtökunum afsalar viðkomandi sér öllum kröfum til eigna SVÞ.

V. kafli.  Árgjöld
8. gr.
Starfsár SVÞ er á milli aðalfunda en reikningsárið er almanaksárið.

9. gr.
Aðalfundur skal ákveða árgjald til samtakanna. Árgjald reiknast af heildarlaunagreiðslum næstliðins árs án launatengdra gjalda.

Árgjald er sem hér segir, m.v. heilt ár
0,20% af fyrstu 100 millj. króna launagreiðslum
0,18% af næstu 100 millj. króna launagreiðslum
0,16% af launagreiðslum umfram 200 millj.
Lágmarksárgjald er kr. 25.000 og hámarksárgjald kr. 1.600.000.

10. gr.
Árgjöld eru innheimt mánaðarlega eða ársfjórðungs-lega eftir nánari ákvörðun stjórnar.
Áætla skal árgjald á meðan upplýsingar um heildar-launagreiðslur síðastliðins árs liggja ekki fyrir.

Heimilt er stjórn SVÞ að semja við einstök aðildar-félög um innheimtu.

Eindagi er einum mánuði eftir gjalddaga. Dráttar-vextir reiknast frá gjalddaga ef eigi er greitt á eindaga.

VI. kafli.  Atkvæðaskrá
11. gr.
Skrifstofa samtakanna skal við hver áramót útbúa atkvæðaskrá sem gildi tekur 15. febrúar ár hvert og grundvallast á greiddum árgjöldum næstliðins reikningsárs. Svara eitt þúsund krónur í greiddum árgjöldum til eins atkvæðis en greiðslur eldri árgjaldsskulda reiknast ekki til atkvæða.

VII. kafli.  Aðalfundur
12. gr.
Aðalfund samtakanna skal halda fyrir lok marsmánaðar hvert ár og skal til hans boða bréflega með minnst þriggja vikna fyrirvara.  Þó er stjórn heimilt að ákveða að boða aðalfund með rafrænum hætti, t.d. með útsendingu rafræns fundarboðs. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum samtakanna, nema kveðið sé á um annað í samþykktum þessum. Stjórn samtakanna annast undirbúning aðalfundar. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
Rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti hafa stjórnendur aðildarfyrirtækja, aðrir félagsmenn og starfsmenn SVÞ og aðildarfélaganna. Þá hafa gestir stjórnar SVÞ heimild til fundarsetu með málfrelsi.

Formaður SVÞ setur aðalfund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara.

13. gr.
Á dagskrá aðalfundar skulu m.a vera þessi mál:

1. Ræða formanns
2. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár
3. Reikningar samtakanna fyrir liðið reikningsár
4. Lýst kosningu formanns, sbr. þó 1.-2. mgr. 15. gr. varðandi kjörtímabil formanns.
5. Lýst kosningu þriggja meðstjórnenda, sbr. 2. mgr. 15. gr.
6. Kosning löggilts endurskoðanda.
7. Lýst kosningu í fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins.
8. Umræður og atkvæðagreiðsla um önnur mál.

14. gr.
Formaður og meðstjórnendur skulu kosnir með margfeldiskosningu í beinni póstkosningu félagsmanna. Kjörtími formanns og meðstjórnenda er til tveggja ára í senn en um kosningu þessara aðila fer samkvæmt 2. mgr. 15. gr. Atkvæði í kjöri, eftir því sem við á, skulu talin á aðalfundi og úrslit tilkynnt þar. Stjórn samtakanna er heimilt að ákveða að kosning fari fram með rafrænum hætti.

Stjórn samtakanna skal minnst átta vikum fyrir aðalfund kjósa þrjá menn til setu í kjörnefnd sem sér um framkvæmd kosninga. Kjörnefnd skal með áskorun til félagsmanna leita eftir tillögum um formann, annað hvert ár, og þrjá meðstjórnendur hvert ár, sbr. 2. mgr. 15. gr., og rennur framboðsfrestur út þremur vikum fyrir upphaf aðalfundar. Kjörnefnd ber að leggja fram tillögur með minnst tveimur vikum fyrir aðalfund og senda út kjörgögn nema sjálfkjörið sé.

Einstök aðildarfyrirtæki fara með atkvæði sín á aðalfundi og fer atkvæðavægi eftir atkvæðaskrá skv. 11. gr., sbr. þó ákvæði 4. mgr.

Heimilt er atkvæðisbærum félagsmanni að fela öðrum að fara með atkvæði sín á aðalfundi enda hafi sá sem við tekur einnig rétt til setu á aðalfundi.

Viðhafa skal skriflega atkvæðagreiðslu komi fram ósk þar um. Rita skal fundargerð um það sem gerist á aðalfundi, þar með fundarsamþykktir.

Aðildarfyrirtæki SVÞ velja fulltrúa í fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins. Kjörnefnd skal með áskorun til félagsmanna leita eftir tillögum um fulltrúa og leggja fram tillögur minnst tveimur vikum fyrir upphaf aðalfundar og senda út kjörgögn nema sjálfkjörið sé.

Við kosningu í fulltrúaráð SA fara einstök aðildarfyrirtæki með atkvæði sín og fer um atkvæðarétt skv. gildandi atkvæðaskrá og samþykktum SA.

VIII. kafli.  Stjórn samtakanna
15. gr.
Stjórn samtakanna er skipuð sjö mönnum, formanni og sex meðstjórnendum, en um kosningu stjórnar fer samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar. Stjórnin fer með æðsta vald í málefnum SVÞ milli aðalfunda.

Stjórnarkjöri skal hagað þannig að oddatöluár skal kjósa formann og þrjá meðstjórnendur en hitt árið þrjá meðstjórnendur. Gangi stjórnarmaður úr stjórn á fyrra ári kjörtímabilsins skal kjósa nýjan stjórnarmann í hans stað á næsta aðalfundi til eins árs.

Kjörgengir eru þeir einir sem sinna daglegum stjórnunarstörfum eða sitja í stjórn hjá félagsaðila. Ef stjórnarmaður forfallast varanlega eða missir kjörgengi á milli aðalfunda tekur sá sæti hans er næstur var að atkvæðafjölda við síðasta stjórnarkjör. Sá aðili skal vera kjörgengur og ganga úr stjórn þegar kjörtímabili þess stjórnarmanns lýkur, sem hann tók sæti fyrir.

Meðstjórnendur skulu ekki sitja samfellt lengur en sex ár í stjórn, en eru kjörgengir síðar eftir að minnsta kosti tveggja ára hlé frá stjórnarsetu og gildir sama um fulltrúa SVÞ sem gegna trúnaðarstörfum fyrir hönd samtakanna. Þrátt fyrir takmörk þessi er meðstjórnandi kjörgengur sem formaður án þess að taka hlé í tvö ár frá stjórnarsetu.

Hafi formaður setið samfellt í sex ár má eigi endurkjósa hann fyrr en minnst tvö ár eru liðin frá því að hann lét af formennsku. Starfsár formanns sem meðstjórnanda eru ekki talin með í þessu samhengi, hvorki er varðar setu í stjórn né heldur önnur trúnaðarstörf.

Formaður SVÞ stýrir fundum stjórnarinnar. Stjórnarfundur er lögmætur ef a.m.k. fjórir stjórnarmenn sækja fund.

Stjórnin skal funda svo oft sem þurfa þykir. Fund skal halda ef minnst tveir stjórnarmenn óska þess. Halda skal fundargerðarbók um það sem gerist á fundum stjórnar.

Framkvæmdastjóri hefur rétt til setu á fundum stjórnar með málfrelsi og tillögurétt.

16. gr.
Stjórn SVÞ getur boðað til almennra félagsfunda. Boða skal til slíkra funda með viku fyrirvara með bréfi eða auglýsingu og annast framkvæmdastjóri boðun. Um meðferð mála á slíkum fundum gilda sömu reglur og um aðalfund eftir því sem við á.

IX. kafli.  Framkvæmdastjóri 
17. gr.
Stjórn SVÞ ræður framkvæmdastjóra samtakanna og setur honum starfsreglur. Framkvæmdastjóri annast daglega starfsemi samtakanna í samráði við stjórn. Hann ræður starfsfólk til skrifstofunnar, sér um innheimtu félagsgjalda, allt reikningshald og afgreiðslu og undirbúning mála.

X. kafli.  Ársreikningar
18. gr.
Löggiltur endurskoðandi skal annast endurskoðun reikningana SVÞ, en skylt er framkvæmdastjóra að hafa reikningana tilbúna í febrúarlok ár hvert.

Viku fyrir aðalfund skulu endurskoðaðir reikningar liggja fyrir á skrifstofu SVÞ félagsmönnum til kynningar.

XI. kafli  Ýmis ákvæði
19. gr.
Þyki rétt og nauðsynlegt að leggja SVÞ niður, fer um tillögur þar að lútandi eins og um breytingar á samþykktum þessum, sbr. 20. gr. Fundur sá sem samþykkir löglega að leggja SVÞ niður, kveður einnig á um ráðstöfun eigna þeirra og skulda.

20. gr.
Tillögur til breytinga á samþykktum þessum skulu sendar til stjórnar SVÞ, er leggur þær fyrir aðalfund. Tillögurnar skulu hafa borist a.m.k. fjórum vikum fyrir aðalfund, til þess að hægt sé að geta þeirra í fundarboði, enda verða engar breytingar á þeim samþykktar svo lögmætt sé, nema þeirra hafi verið getið.

Til samþykktar breytingar á samþykktum SVÞ þarf 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi.

21. gr.
Mál vegna innheimtu félagsgjalda og vegna ágreinings um framkvæmd laga þessara skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

22. gr.
Samþykktir þessar öðlast gildi á stofnfundi SVÞ- Samtaka verslunar og þjónustu.

Ákvæði til bráðabirgða I

1. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 15. gr. skal stjórn skipuð átta mönnum, formanni og sjö meðstjórnendum, starfsárið 2022/2023 og þar af einum meðstjórnanda samkvæmt tilnefningu stjórnar Bílgreinasambandsins, skammstafað BGS.
2. Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 14. gr. og 2. og 3. mgr. 15. gr. skal meðstjórnandi samkvæmt tilnefningu stjórnar Bílgreinasambandsins skv. 1. mgr. 1. tölul. eiga sæti í stjórn SVÞ starfsárið 2022/2023 án kosningar og þ. á m. jafnframt án aðkomu kjörnefndar, óháð framboðsfresti, óháð tillögugerð kjörnefndar og eftir atvikum óháð útsendingu kjörgagna.
3. Þrátt fyrir ákvæði 5. tölul. 13. gr. skal í kjölfar lýsingar á kosningu þriggja meðstjórnenda, sbr. 2. mgr. 15. gr., á aðalfundi 2022, lýsa tímabundinni setu meðstjórnanda tilnefndum af stjórn BGS í stjórn SVÞ starfsárið 2022/2023.
4. Starfsárið 2022/2023 skal atkvæði formanns SVÞ ráða niðurstöðu atkvæðagreiðslu á stjórnarfundum falli atkvæði innan stjórnar að jöfnu.
5. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 3. gr., 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. skal BGS, sjálfkrafa teljast sérgreinafélag innan SVÞ, sjálfstæður lögaðili með eigin kennitölu og sérstakt rétthæfi. Skulu nýjar samþykktir BGS, samþykktar á aukaaðalfundi BGS hinn 15. febrúar 2022 sjálfkrafa verða samþykktir sérgreinafélagsins BGS innan SVÞ.
6. Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skulu aðildarfyrirtæki BGS sjálfkrafa verða aðildarfyrirtæki SVÞ og Samtaka atvinnulífsins sbr. 4. gr.

7. Við gerð atkvæðaskrár við áramótin 2022/2023 skal hækka hverja krónu greiddra árgjalda aðildarfyrirtækja BGS á árinu 2022 sem nemur hlutfalli þess hluta ársins 2022 sem liðinn var áður en sameining BGS og SVÞ kom til framkvæmda af árinu í heild. 

Samþykkt á stofnfundi SVÞ-Samtaka verslunar og þjónustu 26.maí 1999.
Breytingar voru samþykktar á aðalfundi samtakanna 28. mars 2001, 21. mars 2002, 21 mars 2006, 22 mars 2007 , 21 febrúar 2008, 20. mars 2009, 11. mars 2010, 15. mars 2012, 20. mars 2014, 19. mars 2015, 23. mars 2017, 12.mars 2020 og 17.mars 2022.