Í umsögn til Samkeppniseftirlitsins gera SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu athugasemdir við framkomna beiðni Markaðsráð kindakjöts um undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga vegna boðaðs samstarfs fyrirtækja í útflutningi á kindakjöti. SVÞ telja að í framkominni undanþágubeiðni hafi ekki verið sýnt fram á að skilyrði slíkrar undanþágu séu uppfyllt.

Markaðsráð kindakjöts hefur sent beiðni á Samkeppniseftirlitið þar sem óskað er eftir undanþágu frá bannákvæðum samkeppnislega vegna samstarfs hagsmunaaðila hvað varðar markaðssetningu á kindakjöti erlendis. Telur ráðið nauðsynlegt til að koma á laggirnar samstarfi aðila og sameiginlegu markaðsátaki til að takast á við erfiðleika í útflutningi á kindakjöti sem stafi m.a. af mikilli styrkingu krónunnar og aðrar neikvæðar breytingar vegna gengisþróunar ásamt því að aðgengi að ýmsum mörkuðum hafi lokast eða er skert.

Í umsögn sinni benda SVÞ á að tilvísaðir erfiðleikar sem blasa við markaðssetningu kindakjöts eru á margan hátt sambærilegir þeim starfsskilyrðum sem aðrar útflutningsgreinar hér á landi fást við og hafa haft áhrif á starfsemi þeirra. Nú þegar hefur hið opinbera hlaupið undir bagga með framleiðendum kindakjöts þar sem segir að íslenska ríkið hafi þegar lagt til 100 milljónir króna í sérstöku markaðsátaki vegna óhagstæðra aðstæðna á evrópskum kjötmörkuðum og hækkunar krónunnar.

Þá ítreka SVÞ að undanþáguheimild samkeppnislaga grundvallast á því að öll skilyrði slíkrar heimildar séu uppfyllt að fullu en ekki að hluta og verða þeir sem óska undanþágu á grundvelli umræddrar undanþáguheimildar að sýna fram á að umrædd skilyrði séu uppfyllt. Í umsögninni benda SVÞ að ekki eru uppfyllt skilyrði samkeppnislaga um að neytendur njóti góðs af slíku samstarfi, þ.e. að stuðla að enn frekari skort á tilteknum pörtum kindakjöts en að óbreyttu er vöntun á innanlandsmarkaði eftir tilteknum pörtum, s.s. hryggjum, sem hefur haft í för með sér hækkun á verðsskrám afurðarstöðva og felur í sér hækkun á verði til neytenda.

Er það mat SVÞ að Markaðsráð kindakjöts hafi ekki í fyrirliggjandi beiðni tekist að sýna fram á að öll skilyrði samkeppnislaga fyrir undanþágu frá ákvæðum laganna séu uppfyllt. Telja SVÞ að ekki hafi verið sýnt fram á þá hagræðingu og hagsmuni sem umbeðin undanþága muni hafa í för með sér gagnvart neytendum og veita þeim sanngjarna hlutdeild í þeim ávinningi sem að boðuðu samstarfi hlýst.

Umsögn SVÞ um undanþágubeiðni Markaðsráðs kindakjöts