Viðskiptamogginn bauð framkvæmdastjórum hagsmunasamtaka í atvinnulífinu að horfa fram á næsta ár og svara þessari spurningu: Hvað geta stjórnvöld gert á nýju ári til þess að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja sem tilheyra þínum samtökum?

Samtök verslunar og þjónustu: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri
„Á undanförnum árum hefur meginmarkmið okkar hjá SVÞ verið að gera rekstrarumhverfi íslenskrar verslunar eins líkt rekstrarumhverfi verslunar annars staðar á Norðurlöndum og kostur er. Með afnámi almennra vörugjalda og afnámi flestra tolla höfum við nálgast þetta markmið mjög. Það er hins vegar enn margt sem skekkir þessa mynd og nægir þar að nefna þá ofurtolla sem enn eru lagðir á algengar tegundir innfluttra landbúnaðarvara og það háa vaxtastig sem fyrirtæki og almenningur býr við. Þá verður íslenska krónan seint talin stöðugur gjaldmiðill og vegna legu landsins mun flutningskostnaður alltaf hafa meiri áhrif á verð vöru hér á landi en í samanburðarlöndunum. Stjórnvöld hafa mismunandi mikla möguleika til að hafa áhrif á þessa þætti. Stóra áskorunin við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagslífinu er hins vegar tvímælalaust sú, að leita leiða til að koma í veg fyrir frekari styrkingu krónunnar. Við Íslendingar vitum það allra þjóða best að slíkt leiðir til harðrar lendingar fyrr eða síðar. Þó ekki sé hægt að bera þær aðstæður sem nú eru saman við aðstæðurnar fyrir hrun, er ljóst að frekari styrking á gengi krónunnar er ógnun við stöðugleika í efnahagslífinu. Ljóst er að hækkandi raungengi getur leitt til erfiðleika í efnahagsmálum og því er mikilvægtað vinna á móti þenslunni til að koma í veg fyrir of snarpa og djúpa niðursveiflu í kjölfarið.“

Greinin í heild sinni.     Úr  viðskiptablaði Moggans 29.12.2016