Frá fundi um sérleyfi

Mikill vöxtur er í viðskiptasérleyfum á Vesturlöndum og aukinn áhugi erlendra fyrirtækja er á að koma á framfæri sérleyfum til Íslands. Þetta kom fram á fundi um viðskiptasérleyfi sem SVÞ hélt 10. nóvember sl. undir heitinu Viðskiptasérleyfi – Markaðstækifæri morgundagsins. Þar var m.a. kynnt vefsíðan www.franchise.is sem SVÞ halda úti og hefur að geyma upplýsingar um fjölda fyrirtækja sem óska eftir að koma á framfæri sérleyfum til Íslands.

Gestur fundarins var Anders Fernlund, lögmaður og formaður Svenska Franchiseföreningen. Hann miðlaði af reynslu sinni við að aðstoða fyrirtæki sem vilja færa út kvíarnar með því að stofna sérleyfi í öðrum löndum. Hann lagði áherslu á vandaða samningagerð í slíkum tilvikum og hvernig koma mætti í veg fyrir að vanefndir af hálfu samningsaðila ylli skaða á starfsemi sérleyfisins.

Goði Sveinsson framkvæmdastjóri Northwear ehf. lýsti á lifandi hátt reynslu sinni af sérleyfum hér á landi. Að fenginni þeirri reynslu sem hann hefði sem sérleyfistaki sagðist hann ekki geta hugsað sér að reka fyrirtæki með öðru sniði.

Einnig hélt Emil B. Karlsson erindi og fór yfir alla mikilvægustu þætti sem sérleyfistakar og sérleyfisgjafar þyrftu að huga að við stofnun og rekstur sérleyfa. Erindi hans byggði á innihaldi nýútkomins rits um viðskiptasérleyfi sem hann er höfundur að.

Hér er hægt að nálgast glærur sem fyrirlesarar notuðu á fundinum.

pdf Glærur Emils B. Karlssonar

pdf Glærur Goða Sveinssonar

pdf Kynning á bandarískum fyrirtækjum sem sækjast eftir því að koma upp sérleyfi hér á landi