Hvað er viðskiptasérleyfi

Viðskiptasérleyfi (Franchising)
Viðskiptasérleyfi (Franchising) felur í sér leigu á viðskiptahugmynd. Áætlað er að um 100 aðilar á Íslandi séu með rekstur sem byggir á viðskiptasérleyfi. Æ oftar má lesa í fjölmiðlum um ný fyrirtæki sem eru stofnsett á þessum grunni. Möguleikarnir eru margir. Þegar eitt fyrirtæki leigir öðru fyrirtæki réttinn á að nota fyrirtækjanafn sitt er um að ræða langtíma samstarf tveggja jafnrétthárra aðila. Samstarfinu er lýst í samningi sem báðir aðilar undirrita. Mikilvægt er fyrir viðskiptasérleyfistaka að yfirfara samninginn gaumgæfilega. Einnig er ráðlegt að láta lögmann eða sérhæfðan ráðgjafa yfirfara samninginn með rannsakandi augum.

Viðskiptasérleyfi má nota í næstum hvaða geira atvinnulífsins sem er þar sem um er að ræða sölu á vörum og/eða þjónustu. Orðið viðskiptasérleyfi er hagfræðilegt hugtak.

Viðskiptasérleyfisgjafi þarf að hafa skráða sérþekkingu sína í handbók. Þar þarf að koma fram lýsing á viðskiptahugmynd, söluaðferð, innréttingum, einkennismerki, hugsanlegum einkennisfatnaði og öllu öðru sem skiptir máli. Sérleyfistakinn þarf að geta fengið tæmandi upplýsingar um viðskiptahugmyndina í handbókinni. Handbókin er því ,,biblía" fyrirtækisins.

Þegar gengið hefur verið frá leigusamningi getur sérleyfistakinn hafið starfsemina fyrir alvöru. Áhættan sem fylgir því að reka eigin starfsemi hverfur ekki frekar en hjá þeim sem reka fyrirtæki undir öðrum formerkjum. En áhættan verður vissulega minni vegna þess að fyrirtækið starfar í umhverfi sem hefur verið reynt með góðum árangri annarsstaðar. Sérleyfistakinn getur notfært sér alla þá reynslu sem sérleyfisgjafinn hefur og fær ráðgjöf og aðstoð jöfnum höndum.

Sérleyfistakinn greiðir sérleyfisgjafanum venjulega eina fasta upphæð í byrjun fyrir leyfið. Síðar er greitt notendagjald reglulega, svokallað leyfisgjald sem er oftast hlutfallsleg greiðsla og byggir á veltu fyrirtækisins.

Þú getur skoðað gátlista FUV þar sem farið er yfir öll helstu atriði samnings um viðskiptasérleyfis með því að velja Gátlisti vegna samninga.

Hlutverk Félags um viðskiptasérleyfi FUV
Hlutverk Félags um viðskiptasérleyfi FUV er að standa vörð um hagsmuni þeirra sem stunda rekstur með viðskiptasérleyfi og aðstoða við stofnun nýrra viðskiptasérleyfa.