Rannsóknasetur verslunarinnar hefur birt samantekt fyrir septembermánuð sem sýnir að mikil veltuaukning var í smásöluverslun í síðasta mánuði og greinileg merki um kaupmáttaraukningu frá sama mánuði í fyrra. Í sumum vöruflokkum jókst veltan um fjórðung frá því í fyrra, má þar nefna húsgögn, byggingavöru og snjallsíma. Matur og drykkur var heldur ekki skorinn við nögl því velta dagvöruverslana var 9,1% meiri en í september í fyrra og velta áfengisverslana var 30% meiri en í sama mánuði í fyrra.
Við samanburð á veltu áfengis milli ára þarf að hafa í huga kerfisbreytingar sem urðu um síðustu áramót á virðisaukaskatti og áfengisgjaldi sem skekkir samanburð þegar horft er að vöxt án virðisaukaskatts. Engu að síður jókst sala áfengis í september, í lítrum talið, um 15,7% á milli ára.
Kippur varð í fataverslun í september, sem var 8,3% meiri en í september í fyrra. Að magni til jókst sala á fötum 14,8%. Magnaukningin orsakast af því að verð á fötum var 5,7% lægra en í samanburðarmánuðinum í fyrra. Þetta skýrist væntanlega aðallega af afnámi tolla á föt um síðustu áramót.

Þó vöxtur í sölu raftækja sé ekki eins afgerandi og í öðrum flokkum, í samanburði söluna í sama mánuði í fyrra skýrist það af mikilli sölu í fyrra. Þó var velta í sölu á snjallsímum 28,7% meiri en í fyrra. Mikill uppgangur er enn í húsgagnaverslun sem sést á því að veltan var fjórðungi meiri en í september í fyrra. Velta sérverslana sem selja rúm jókst um 65% á milli ára og sala skrifstofuhúsgagna um 36%. Þá njóta byggingavöruverslanir góðs af uppsveiflu í húsbyggingum þar sem salan jókst um 23,6%.

Kortavelta Íslendinga í september nam 73,9 milljörðum eða 5,5% meira en í sama mánuði 2015 samkvæmt tölum Seðlabankans. Af þeirri fjárhæð greiddu Íslendingar 10,3 milljarða erlendis en 63,6 milljarða hér á landi. Erlend kortavelta hérlendis nam í september 21,7 milljörðum og standa erlendir ferðamenn því að baki ríflega fjórðungi kortaveltu hérlendis þó komið sé fram í september. Nánar verður rýnt í kortaveltu erlendra ferðamanna þegar Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlegar tölur sínar á næstu dögum.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 9,1% á breytilegu verðlagi í september miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 8,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í september um 7,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 0,2% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í ágúst 0,2% lægra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 30% á breytilegu verðlagi í september miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 29,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í ágúst um 19% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,5% hærra í september síðastliðnum og 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.

Fataverslun jókst um 8,3% í september miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 14,8% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 5,7% lægra í september síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar jókst um 16,4% í september á breytilegu verðlagi og jókst um 13,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 13,9% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í september um 2,3% frá september í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 25,5% meiri í september en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 22,7% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 64,7% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 35,7% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 2,3% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í ágúst um 23,6% í september á breytilegu verðlagi og jókst um 23,4% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,2% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.

Velta í sölu á tölvum jókst í september um 2,6% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 28,7%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 0,2% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 1,4% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.