Vika verslunar og þjónustu – Spilum saman

Samtök verslunar og þjónustu ætla, í samvinnu við VR, að blása til sérstakrar „Viku verslunar og þjónustu“  dagana 11. – 17. mars n.k.   
Tilgangurinn er tvíþættur;
  • Vekja athygli á mikilvægi verslunar og þjónustu, atvinnugreinar þar sem um fjórði hver Íslendingur starfar.
  • Hvetja Íslendinga á jákvæðan og ábyrgan hátt til að „spila með“ og taka þátt í að snúa hjólum atvinnulífsins með því að eiga viðskipti við verslunar- og þjónustufyrirtæki.
Þema vikunnar er samspil einstaklinga og atvinnulífsins þ.e.a.s. til þess að fyrirtæki geti verndað og aukið störf þurfa þau á neyslu almennings að halda.   Við erum öll hluti af sömu keðjunni og með samhentu átaki getum við eflt hana og styrkt.

Barmmerkjum og A-stöndum verður dreift til fyrirtækja í næstu viku. Hafið samband við skrifstofu SVÞ ef þið fáið ekki þetta kynningarefni til ykkar, það má þá sækja það á skrifstofu SVÞ, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35. 

 
Öflug markaðsherferð
Til að vekja athygli á átakinu og fá landsmenn til að taka þátt, hefur margskonar auglýsinga- og kynningarefni verið útbúið. Auk þess að birta auglýsingar í stærstu fjölmiðlum landsins verður barmmerkjum og borðstöndum dreift í allar verslanir landsins, sem við hvetjum ykkur til að nota óspart meðan á átakinu stendur.  Allar nánari upplýsingar um kynningarefni er að finna á þessari vefsíðu.

Merkjum allt auglýsingaefni
Flestir stærstu auglýsendur landsins eru félagar í SVÞ og er það markmið okkar að  merki átaksins (lógó) „Spilum saman“ sjáist á öllu auglýsingaefni þeirra í prentmiðlum á tímabilinu.  Nú þegar hafa flestar auglýsingastofur landsins fengið merkið sent til sín, en það má jafnframt nálgast hér á þessari vefsíðu.

Þú átt leik
Þú spilar stórt hlutverk því fljótlegasta leiðin til að kynna „viku verslunar og þjónustu“ meðal starfsmanna aðildarfélaga SVÞ er þegar þú áframsendir þennan tölvupóst á sem flesta starfsmenn innan þíns fyrirtækis og hvetur fólk til að spila með og koma hjólum atvinnulífsins í gang saman.