Samkvæmt mælingum Rannsóknaseturs verslunarinnar fór velta í smásöluverslun í janúar almennt vaxandi líkt og undanfarna mánuði að undanskilinni fata- og skóverslun, sem dróst nokkuð saman frá janúar í fyrra. Verðlag var lægra í öllum vöruflokkum sem mælingin nær til nema áfengi, sem hækkaði þó aðeins um 0,5% frá janúar í fyrra.
Velta í stærsta vöruflokknum, dagvöruverslun, jókst í janúar um 4,3% í krónum talið frá sama mánuði í fyrra og um 7,5% þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagi ásamt daga- og árstíðabundnum þáttum. Verð á dagvöru var 1,3% lægra en tólf mánuðum áður. Þá jókst sala áfengis um 5% í mánuðinum miðað við janúar í fyrra.
Svo virðist sem frekar dauft hafi verið yfir fataútsölum í janúar af veltutölum að ráða. Veltan dróst saman um 12,1% á breytilegu verðlagi. Hafa verður í huga að fataverslunum fækkaði um áramótin og neytendur virðast ekki hafa fært innkaupin til þeirra verslana sem fyrir eru, alla vega ekki enn sem komið er. Verð á fötum var 2,9% lægra en í sama mánuði í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar.
Mun meiri verðlækkun var á útsölum með raftæki í janúar og meiri vöxtur í sölutölum. Þannig var verð á svokölluðum brúnum raftækjum 14,5% lægra en fyrir ári síðan. Í þeim flokki eru t.d. sjónvörp, hljómflutningstæki o.fl. Stærri heimilistæki, eða svokölluð hvít raftæki, lækkuðu í verði um 9% á milli ára. Velta í hvítum raftækjum jókst um 23,8% að krónutölu og velta í brúnum raftækjum var óbreytt á milli ára.
Velta byggingavöruverslana jókst um 20,2% frá janúar í fyrra. Þar ræður miklu að byggingaframkvæmdir og viðhald húsnæðis er mikið um þessar mundir auk þess sem veðurfar hefur verið einkar hagstætt til byggingaframkvæmda.

Í janúar var greiðslukortavelta heimilanna hér innanlands 9% meiri en í sama mánuði í fyrra. Kreditkortavelta Íslendinga erlendis í janúar var 7,1 milljarður kr. sem er 17,6% hærri upphæð en fyrir ári síðan. Erlendir ferðamenn sem hingað koma hafa vaxandi áhrif á íslenska verslun. Þannig var greiðslukortavelta útlendinga hér á landi 17,4 milljarðar kr. í janúar sem er 49% aukning frá síðasta ári.

Velta í dagvöruverslun jókst um 4,3% á breytilegu verðlagi í janúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 5,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í janúar um 7,5% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 1,3% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í janúar 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 5% á breytilegu verðlagi í janúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,5% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í janúar um 15,8% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,5% hærra í janúar síðastliðnum og 1,2% hærra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 12,1% í janúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 9,5% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 2,9% lægra í janúar síðastliðnum en í sama mánuði árið áður.

Velta skóverslunar minnkaði um 3,2% í janúar á breytilegu verðlagi og minnkaði um 5,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um 1,5% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í janúar um 2,9% frá janúar í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 11,4% meiri í janúar en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 13,9% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 22,4% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn dróst saman um 23,8% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 2,2% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í janúar um 20,2% í janúar á breytilegu verðlagi og jókst um 20,4% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,2% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 1,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í janúar um 15,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 15,9%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, var óbreytt á milli ára á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 23,8% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV.