Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Frá Tollstjóra: Öryggisvottun fyrir viðurkennda rekstraraðila

Tollstjóri hefur sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

Öruggur hlekkur í aðfangakeðjunni

Tollstjóri hefur sett á laggirnar öryggisvottunina „viðurkenndir rekstraraðilar“ (AEO vottun). AEO er alþjóðleg gæðavottun sem felur í sér að fyrirtæki er talið vera öruggur hlekkur í aðfangakeðjunni, hefur tileinkað sér ábyrga tollmeðferð og uppfyllir kröfur um alþjóðlega vöruflutninga.

Markmiðið Tollstjóra með innleiðingu á AEO öryggisvottun er að tryggja samkeppnishæfni íslensks inn- og útflutnings og stuðla þannig að bættu markaðsaðgengi íslenskra útflutningsgreina og greiða fyrir lögmætum viðskiptum þvert á landamæri. Innleiðing á AEO-kerfinu mun bæta greiningu milli áhættulítilla og áhættusamra vörusendinga og bæta þjónustustig við þá sem stunda lögmæt viðskipti.

Fyrirtæki sem eru með starfsemi hér á landi og eru hluti af alþjóðlegu aðfangakeðjunni geta sótt um vottunina. Ávinningurinn felst í hraðari tollafgreiðslu, tímasparnaði, minni tilkostnaði og auknum fyrirsjáanleika í alþjóðlegum vöruflutningum.

AEO vottunin hefur jafnframt í för með sér nánara samstarf Tollstjóra við atvinnulífið og aukið öryggi alþjóðlegu aðfangakeðjunnar m.a. með nánu samstarfi og tengslaneti tollyfirvalda í heiminum. Tollstjóri hefur hafið undirbúning að gerð gagnkvæms viðurkenningarsamnings við önnur ríki, sem mun óhjákvæmilega auka traust erlendra tollyfirvalda á íslenskum fyrirtækjum sem hlotið hafa AEO vottun.

Tollstjóri hefur nú formlega tekið AEO kerfið í notkun og var Miklatorg hf. fyrsta fyrirtækið til að hljóta AEO vottun hér landi. Áhugasöm fyrirtæki geta sótt um vottunina á vef Tollstjóra  www.tollur.is/aeo

Exit mobile version