Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Fráfarandi formaður SVÞ notar orð verkalýðsforingja til að gagnrýna aðgerðir núverandi forystu

Margrét Sanders, fráfarandi formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, vitnaði í orð Jóns Baldvinssonar, forseta Alþýðusambandsins frá 1938 í gagnrýni sinni á aðgerðir núverandi verkalýðsforystu. Í ræðu Jóns sagði: „Eðli verkalýðshreyfingarinnar er ekki skyndiupphlaup, hávaðafundir og ævintýri heldur markvisst, sleitulaust strit fyrir málefnunum sjálfum. Íslenzkt fólk er frábitið hugsunarhætti kommúnismans og hann sigrar aldrei hér á landi fyrir atbeina Íslendinga. Það er hið hættulegasta ævintýri fyrir íslenzka alþýðu að taka sér merki mannanna frá Moskvu í hönd og ganga með það út í baráttuna. Undir því merki mun hún bíða ósigur og falla.“

Margrét bætti svo við að þetta væru „merkileg orð í ljósi herskárrar nálgunar þessarar aðila sem berja bumbur með slagorðum úr kommúnískri fortíð.” Sagði hún orðræðu verkalýðsforystunnar ekki endurspegla þau batnandi lífskjör sem þorri þjóðarinnar hefði notið undanfarin ár né taka mið af stöðu efnahagsmála eða atvinnulífsins í dag. Jafnframt efaðist hún um að almenningur væri fylgjandi því að „vinnustöðvanir og ósjálfbærar launahækkanir” snéru góðærinu í hallæri.

Í störfum sínum innan SVÞ og SA hefur Margrét lagt mikla áherslu á breytingu á tilhögun vinnutíma og talað fyrir auknum sveigjanleika. Hún gerði slíkt einnig í ræðu sinni og um leið og hún fagnaði áherslu SA í þessum málum í yfirstandandi kjaraviðræðum hvatti Margrét til breyttrar skilgreiningar á dagvinnutímabilinu til að draga úr innbygðum hvata til yfirvinnu, auka sveigjanleika og nútímavæðast, enda hefðu ákvæði kjarasamninga um vinnutíma ekki breyst frá tímum síðari heimstyrjaldar hér á landi á meðan hún hefði breyst m.a. á öllum hinum Norðurlöndunum. Lagði hún áherslu á að þetta væri jafnframt mikið jafnréttismál og myndi stuðla að fjölskylduvænni vinnumenningu.

Gerði Margrét að umræðuefni þær gríðarlegu breytingar sem atvinnulífið og samfélagið allt standa nú þegar frammi fyrir á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar, enda var yfirskrift ráðstefnunnar „Keyrum framtíðina í gang!” Sagði hún Íslendinga þurfa að vakna ef við ætlum ekki að heltast úr lestinni í alþjóðlegri samkeppni.

Menntun innan verslunar og þjónustu hefur ekki verið sem skyldi, og hefur stjórn SVÞ lagt mikla áherslu á að breytingar verði þar á. Þetta er verið að gera m.a. með tilkomu nýrrar brautar til stúdentsprófs hjá Verzlunarskóla Íslands í samstarfi við VR.

Eitt helsta baráttumál Margrétar í formannstíð hennar var afnám vörugjalda og tolla og fagnaði hún því að almenn vörugjöld væru nú liðin tíð. Sýnt hefur verið að þetta hefur skilað sér til neytenda, eins og staðfest hefur verið í skýrslu Hagfræðistofnunar Íslands frá því í september. Margrét lagði þó áherslu á að baráttunni fyrir frjálsum viðskiptum væri ekki lokið, því minnka beri tollvernd búvara enda sé íslenskur landbúnaður vel í stakk búinn ti lað keppa við innfluttan „á grundvelli sérstöðu, nálægðar, gæða og heilnæmis”.

Margrét lagði einnig áherslu á að SVÞ muni halda áfram að berjast fyrir aukinni úthýsingu verkefna hins opinbera, svo sem í póstþjónustu, endurskoðun, í mennta- og heilbrigðiskerfinu. Sagði hún núverandi heilbrigðisráðherra vinna markvisst að því að „rýra hlutverk mikilvægra samtaka eins og Krabbameinsfélagsins og SÁA.” Lagði hún áherslu á að blöndun einkareksturs við hið opinbera væri hagkvæmt, stuðlaði að fjölbreytni í vali og yki gæði almennt og nefndi aukna fjölbreytni í háskólanámi með tilkomu Háskólans í Reykjavík sem dæmi.

Margrét þakkaði að lokum stjórn og starfsfólk SVÞ fyrir gott samstarf og bauð nýjan formann, Jón Ólaf Halldórsson, forstjóra Olís velkominn til starfa.

 

Sjá má upptöku af ræðu Margrétar hér:

Og hér má lesa ræðuna í heild sinni:

Ráðherra, ágætu ráðstefnugestir!

Það er komið að kveðjustund fyrir mig eftir fimm ár sem formaður Samtaka verslunar og þjónustu. Ég er þó engan veginn með hugann við þau persónulegu tímamót. Samtök okkar standa frammi fyrir svo mörgum spennandi og krefjandi viðfangsefnum sem halda huganum föstum við það sem framundan er.

Keyrum framtíðina í gang! er yfirskrift þessarar opnu ráðstefnu og valið á fyrirlesurum er engin tilviljun. Í vikunni heyrði ég haft eftir prófessor við Háskóla íslands að hann kenndi nemendum sínum hiklaust að framundan væru meiri breytingar en nokkru sinni áður í mannkynssögunni. Er það ekki nokkuð stórt upp í sig tekið? Líklega ekki, ef nokkuð er að marka það sem maður sér og heyrir í þeim framtíðarpælingum sem í gangi eru.

Það er sama hvort við lesum nýútkomna skýrslu starfshóps á vegum forsætisráðherra um fjórðu iðnbyltinguna eða fylgjumst með fyrirlestrum Greg Williams, aðalritstjóra WIRED, sem hér talar á eftir: Grundvallarbreytingar eru meiri og hraðari en áður. Viðskipta- og samskiptahættir okkar eru að breytast frá grunni. Við þurfum að vakna ef við ætlum ekki að heltast úr lestinni.

Við í stjórn SVÞ höfum verið mjög upptekin af því að eðli verslunar og þjónustu muni taka miklum breytingum. Þess vegna þurfum við að vera á tánum. Þeir sem ekki fanga vind breytinganna í seglin geta setið eftir sem strandaglópar þegar haldið verður á ný mið.

Verslun hefur þróast í einhverskonar sambland af upplifun og persónulegri þjónustu, í ráðgjöf um að finna vöru á Netinu — afhending vörunnar verður meir og meir beint til neytenda eftir öðrum leiðum en yfir búðarborðið. Skipulag netverslunar mun þróast hratt og verður hugsanlega í samstarfi fyrirtækja fremur en á vegum einstakra verslana. Netverslun er enn fyrst og fremst kostnaður í verslun á Íslandi. En við megum ekki verða of sein að tileinka okkur nýjungar á þessu sviði. Við megum ekki verða það sein á okkur að þessi nýja tegund verslunar flytjist meira og minna úr landi.

Verslun og þjónusta er ein helsta atvinnugrein landsins og innan hennar vinnur mikill fjöldi fólks alla sína starfsævi. Það hefur verið mér og mörgum öðrum mikið umhugsunarefni að okkar atvinnugrein hefur ekki skilgreint sig með akademísku námi, sérstöku stafsnámi og námsbrautum sem henni tengjast. Í stjórn SVÞ höfum við lengi gert okkur grein fyrir að úr þessu þarf að bæta. Menntunarþörfin í greininni er mjög mikil. Við þurfum að öðlast innsýn, þekkingu og færni til þess að takast á við nýja verkaskiptingu milli véla og manna. Við þurfum að mæta kröfum um nýsköpun, sjálfbærni, minnkandi kolefnisspor, meðferð upplýsinga í tryggðakerfum og nauðsynlega persónuvernd. Við þurfum að opna möguleika fyrir ungt fólk til þess að kynnast því að verslun og þjónusta er heillandi framtíðarvettvangur. Ekki bara debet og kredit – heldur suðupottur nýrra hugmynda, sköpunar, hönnunar og upplifana.

Það hefur verið ákaflega ánægjulegt að vinna að því innan stjórnar SVÞ og með starfsfólki að koma á námsbraut til stúdentsprófs við Verslunarskóla Íslands í samstarfi við VR. Nemendur munu þar fá tækifæri til þess að leggja stund á starfsnám í samvinnu við ýmis verslunar- og þjónustufyrirtæki. Þá hefur verið unnið að því að meðal annars verslunarfólk, sem öðlast hefur sérþekkingu í störfum sínum, fái raunfærnimat og viðurkenningu á þekkingu sinni til frekara verslunarnáms. Tilraunaverkefni á þessu sviði er nú að fara af stað.

Best hefði verið að planta trjám fyrir tuttugu árum, næst best er að gera það núna.

Frumkvöðullinn Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir fjallar á eftir um það hvernig hún nýtir tæknibyltinguna til að auka „aðgengi að hjálp og aðstoða sérfræðinga að stíga skrefið inn í framtíðina.“

Kæru ráðstefnugestir! Hver tapar mest á því ef verslun og þjónusta flyst úr landi? Það er auðvitað almenningur – en ekki síður ríkissjóður. Þetta varð öllum ljóst að lokum þegar vörugjaldafrumskógurinn var orðinn svo þéttur og úr sér vaxinn að fólk fór í flugvélaförmum í verslunarleiðangra til nágrannalanda. Og þegar tollmúrarnir voru orðnir svo ókleyfir að almenningur tók sér helgarflug yfir þá, til þess að kaupa töskufylli af skóm og fötum í nálægum stórborgum. Þá var kominn tími til að bregðast við.

Almennu vörugjöldin eru nú liðin tíð. Tollar af skóm og fötum voru fyrst afnumdir og nú eru allir – allir tollar aflagðir, nema á tilteknum hluta matvara. Þetta eru hinir stóru áfangar síðustu ára. Verslunin hefur flust heim, stórar verslunarkeðjur hafa haslað sér hér völl og samkeppni aukist í kjölfarið. Allir hafa haft hag af þessum breytingum, almenningur, verslunin og þó einkum og sér í lagi ríkissjóður sem fær nú virðisaukaskattinn sem genginn var honum úr greipum. Það hefur verið gott að vinna að þessum verkefnum með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, sem hér talar á eftir.

Verslunin hefur fyrir sitt leyti skilað afnámi almennra vörugjalda og tolla til neytenda og gott betur. Þessi staðreynd hefur verið staðfest í skýrslu eftir skýrslu og nú síðast svart á hvítu í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá því í september síðastliðnum. Ég er hreykin af því.

Rétt er að halda því til haga að baráttunni fyrir frjálsum viðskiptum er síður en svo lokið. SVÞ hefur staðfastlega haldið því fram að minnka beri tollvernd búvara. Íslenskur landbúnaður hefur alla burði til þess að keppa við innflutning á grundvelli sérstöðu, nálægðar, gæða og heilnæmis.

SVÞ hefur haldið uppi einörðum málflutningi gegn því að hið opinbera teygi sig yfir á þau svið atvinnulífsins sem eiga betur heima hjá einkaaðilum, félögum, samtökum og einstaklingum. Við höfum einnig talað fyrir því að hið opinbera úthýsi meira eða feli almenna markaðnum verkefni sem eru í samkeppnisrekstri. Þar má nefna til dæmis póstþjónustu og endurskoðun. Þetta á líka við um ýmsan rekstur í skóla- og heilbrigðiskerfinu sem vel má fela einkaaðilum og almannasamtökum. Það er mjög brýnt að mótað verði heilbrigt og skynsamlegt umhverfi fyrir úthýsingu af þessu tagi. Við teljum að góð fyrirtæki meðal okkar sjálfstæðu skóla og heilbrigðisfyrirtækja hafi sannað að þau eigi fullt erindi á sínum sérsviðum. Fjölbreytileiki í rekstrarformi skiptir máli.

Það er einnig áhyggjuefni að ekki er annað að sjá en að núverandi heilbrigðisráðherra vinni markvisst að því að rýra hlutverk mikilvægra samtaka eins og Krabbameinsfélagsins og SÁÁ svo eitthvað sé nefnt. Tilgangurinn virðist vera að láta opinberar heilbrigðisstofnanir ryksuga upp verkefni þeirra. Það kann að vera göfugt markmið að koma á heildstæðri fjármögnun í heilbrigðiskerfinu en það er fullkomlega óþarft að setja samasemmerki milli þess og að ríkisvæða allt heilbrigðiskerfið eins og það leggur sig – einkarekstur er hagkvæmur, stuðlar að fjölbreytni í vali og eykur ekki bara gæði hjá þeim einkareknu heldur einnig hjá stofnunum í ríkisrekstri. Enda höfum við séð þetta sannast, til dæmis þegar fjölbreytni í háskólanámi jókst með tilkomu Háskólans í Reykjavik.

Nú hef ég talað í tíu mínútur án þess að nefna fílinn í stofunni, – þá áskorun sem við stöndum frammi fyrir, en það er yfirstandandi kjaradeila. Það mikilvæga verkefni hefur verið í algjörri blindgötu vegna herskárrar nálgunar hluta verkalýðshreyfingarinnar.

Ég heyrði í gær lesið úr síðustu ræðu Jóns Baldvinssonar sem var forseti Alþýðusambandsins 1916–1938 flutt á Dagsbrúnarfundi árið 1938 en þar segir „Eðli verkalýðshreyfingarinnar er ekki skyndiupphlaup, hávaðafundir og ævintýri heldur markvisst, sleitulaust strit fyrir málefnunum sjálfum. Íslenzkt fólk er frábitið hugsunarhætti kommúnismans og hann sigrar aldrei hér á landi fyrir atbeina Íslendinga. Það er hið hættulegasta ævintýri fyrir íslenzka alþýðu að taka sér merki mannanna frá Moskvu í hönd og ganga með það út í baráttuna. Undir því merki mun hún bíða ósigur og falla.“

Merkileg orð í ljósi herskárrar nálgunar þessarar aðila sem berja bumbur með slagorðum úr kommúnískri fortíð.

Orðræða þessara aðila hefur hreint ekki endurspeglað þá staðreynd að lífskjör þorra Íslendinga hafa batnað fordæmalaust undanfarin ár og tekur ekkert mið af stöðu efnahagsmála eða atvinnulífs yfir höfuð. Samfellt góðæri hefur verið í efnahagsmálum síðan 2011. Frá árinu 2015 hefur kaupmáttur aukist um hvorki meira né minna en 25%! Það er náttúrlega met. Launakostnaður á Íslandi er mjög mikill í samanburði við nágrannalönd okkar. Það geta t.d. forráðamenn erlendra verslunarkeðja sem hér starfa staðfest. Í samanburði milli þjóða eiga Íslendingar mörg met. Eitt metið er sú staðreynd að laun sem hlutfall af vergum þáttatekjum er nú um 63%. Í mörgum þjónustugreinum, t.d. ferðaþjónustu, er hlutfallið mun hærra en það. Ekkert af ríkjunum innan Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu nær þessu launahlutfalli. Þegar svona er í pottinn búið er varla tilefni til þess að gera tugprósenta kröfur um launahækkanir og enn fremur þegar um hægist í efnahagslífinu og verðmætasköpun dregst saman í ýmsum geirum þess.

Í kjarasamningum, sem ná yfir stærsta hluta vinnumarkaðarins, felast bæði ógnanir og tækifæri. Vinnustöðvanir og ósjálfbærar launahækkanir sem færast upp allan skalann munu snúa góðærinu í sjálfskapað hallæri. Er vilji til þess og fylgi meðal almennings? Auðvitað ekki. En það eru mörg tækifæri í tengslum við kjarasamninga til þess að rétta hlut skýrt afmarkaðra hópa launafólks og jafnvel setja öðrum hópum skorður eins og raunar stjórnvöld hafa þegar gert með lækkun bankastjóralauna í ríkisbönkunum. Einnig er hægt að fara nýjar leiðir sem mæta raunverulegum áherslum og lífsháttum fólks eins og þeir eru í dag. Þar geta stjórnvöld og sveitarfélög komið til skjalanna t.d. með millifærslum til afmarkaðra hópa og aðgerðum í húsnæðismálum. En um leið getur nútímavæðing í vinnutilhögun fært okkur framleiðniaukningu sem launafólk fengi eðlilega hlutdeild í.

Ákvæði kjarasamninga um vinnutíma hafa að stofni til verið óbreytt frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Í 75 ár. Á ég þar við hvernig dagvinna, vinnuvika og yfirvinna er skilgreind. Þessar fornu skilgreiningar valda því að Ísland er algert útgildi meðal þjóða í magni vinnustunda sem greiddar eru sem yfirvinna. Hlutfall yfirvinnugreiðslna í heildarlaunum launafólks er margfalt hærra en annars staðar gerist, t.d. á Norðurlöndum. Kröfur um mikla hækkun dagvinnulauna fela í eðli sínu í sér að hlutur þeirra hækki í heildarlaunum. Annars er einfaldlega krafist mikilla launahækkana almennt. Ég fagna því að Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á breytta skilgreiningu á dagvinnutímabilinu. Um það er nú rætt í alvöru við samningaborðið.

Nú er kominn tími til að nútímavæðast! Viðurkenna þarfir launafólks fyrir sveigjanlegan vinnutíma. Það er ekki náttúrulögmál að greidd sé meiri yfirvinna á Íslandi en í nágrannalöndum okkar.
Hvers vegna ekki að draga úr innbyggðum hvata til yfirvinnu? Það er eðlilegt að hækka dagvinnulaunin gegn því að breyta ákvæðum kjarasamninga um vinnutíma þannig að starfsfólki verði kleift að semja við vinnuveitanda sinn mánaðarlega um vinnutíma sem hentar fjölskylduaðstæðum þess. Aukinn sveigjanleiki skapar möguleika á því að taka frí með börnunum í skólafríinu. Með auknum sveigjanleika getum við unnið af okkur slíka daga. Afnám formlegra, kjarasamningsbundinna kaffitíma fyrir og eftir hádegi, þekkjast ekki meðal annarra þjóða og þarf að nýta til þess að stytta viðveru á vinnustað og heildarvinnutíma. Það er risastórt jafnréttismál.

Ég hef lengi barist fyrir því að við losum launafólk úr viðjum úreltrar vinnutilhögunar. Þess vegna fagna ég því að það miðar í þá átt í kjarasamningunum. Það er líka skynsamlegt að fyrst um sinn geti fólk valið að fylgja gamla tímanum eða nýja tímanum. Það reyndist vel við kristnitökuna að leyfa mönnum að blóta á laun, en ég er sannfærð um að nútímavæðing á þessu sviði er það sem koma skal.

Góðir tilheyrendur!

Ég vil að endingu nota tækifærið til þess að þakka fyrir mig. Áherslurnar í þessari tölu minni hér í dag endurspegla þau mál sem ég hef helst borið fyrir brjósti á þeim fimm árum sem ég hef verið í forystu Samtaka verslunar og þjónustu. Það hefur verið gefandi og spennandi að vinna að þeim málum og fjölmörgum öðrum með ágætu og drífandi starfsfólki samtakanna sem og stjórnarmönnum. Ég vil þakka þeim kærlega fyrir samstarfið, einkum og sér í lagi Andrési Magnússyni framkvæmdastjóra, fyrir dugnað sinn og árvekni.

Við ætlum og verðum að keyra framtíðina í gang og er nýkjörinn formaður rétti maðurinn til þess ásamt stjórn og starfsfólki og óska ég þeim alls hins besta.

Takk fyrir!

Exit mobile version