Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Nýr formaður og fjórir nýir stjórnarmenn hjá SVÞ

Aðalfundur SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu var haldinn í dag á Hilton Nordica. Alls bárust sjö framboð um almenna stjórnarsetu en kosið var um fjögur sæti fyrir kjörtímabilið 2019-2021.

Á fundinum var lýst kjöri fjögurra meðstjórnenda, en þeir eru Anna Katrín Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Íslandspósts, Ari Þórðarson, framkvæmdastjóri Hreint ehf., Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar og Guðrún Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Kokku ehf. Elín Hjálmsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og markaðssviðs Eimskips og Gunnar Egill Sigurðsson framkvæmdastjóri Samkaupa sitja áfram í stjórn.

Á fundinum lét Margrét Sanders af störfum sem formaður SVÞ. Nýr formaður er Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís en Jón Ólafur hefur setið í stjórn SVÞ sl. 2 ár.

„Ég er stoltur og þakklátur það traust sem mér er sýnt af aðildarfyrirtækjum SVÞ.”, segir Jón Ólafur Halldórsson, nýr formaður. „Ég hef undanfarin ár starfað á vettvangi stjórnar SVÞ að málefnum sem snúa að hagsmunum verslunar og þjónustu. Það eru miklar áskoranir framundan í stafrænni verslun og sjálfvirknivæðingu og ég vil gjarnan leggja mitt af mörkum og taka þátt í þeirri vinnu sem er að móta umhverfi verslunar og þjónustu til næstu framtíðar. Samtök verslunar og þjónustu hafa á undanförnum árum barist fyrir mörgum stórum hagsmunamálum fyrir neytendur s.s. afnám vörugjalda og tolla. Ég mun leggja áherslu á að samtökin haldi áfram á þeirri braut að auka frelsi í viðskiptum, draga úr opinberum umsvifum og að þeim verkefnum verði útvistað í auknum mæli til einkafyrirtækja og ekki síst, að berjast gegn félagslegum undirboðum og svarti atvinnustarfsemi”.

Exit mobile version