Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Stefnumótun með miðborginni

Í aprílmánuði lagði SVÞ áherslu á að efla samráð við rekstrar- og þjónustuaðila á miðborgarsvæðinu og leituðu samtökin m.a. eftir ábendingum þessara aðila varðandi þau álitamál sem mikilvægt er að taka til skoðunar til að efla starfsemi á umræddu svæði.  Þar er í mörg horn að líta og hagsmunir miklir enda um að ræða fjölbreytta starfsemi aðila á svæði þar sem miklar breytingar hafa orðið m.a. í kjölfar þess mikla fjölda ferðamanna sem sækja borgina heim.

Sem lið í þeirri vinnu voru haldnir tveir fundir í húsakynnum SVÞ í samvinnu við Miðborgina okkar; fyrst stefnumótandi fundur með völdum aðilum og í kjölfarið kynningarfundur á niðurstöðum þess fundar sem var opin öllum rekstrar- og þjónustuaðilum á miðborgarsvæðinu.  Til þess að ná til sem flestra var borin út auglýsing til 600 aðila á svæðinu ásamt því að rafrænt eintak var sent á þessa sömu aðila.

Óhætt er að fullyrða að stefnumótunarfundurinn var vel sóttur og á fundinum gerðu rekstraraðila á miðborgarsvæðinu grein fyrir þeim álitamálum sem stendur fyrir dyrum hjá þessum aðilum og varða almennt rekstrarskilyrði þeirra og ljóst að málefnin eru mörg.  Það var mál manna að slíkur fundur hefði verið löngu tímabær og taka SVÞ heilshugar undir þá ábendingu.

Helstu álitamálin sem brunnu á fundargestum voru skipulagsmál, samskipti við borgaryfirvöld, ímynd og ásjóna miðborgarinnar og fjöldi annarra mála sem snerta rekstrargrundvöll verslunar- og þjónustuaðila innan vébanda Miðborgarinnar okkar.

Þá var eins og fyrr segir haldinn kynningarfundur fyrir verslunar- og þjónustuaðila miðborgarinnar miðvikudaginn 20. apríl sl. þar sem niðurstöður stefnumótunarfundarins voru kynntar fyrir rekstrar- og þjónustuveitendum á miðborgarsvæðinu.  Ljóst var að mikill áhugi er fyrir því að SVÞ og Miðborgin okkar taki höndum saman í hagsmunagæslu enda snertifletirnir margir.

Exit mobile version