Stjórn SSSK var þannig skipuð á starfsárinu:
Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður
Þórdís Jóna Sigurðardóttir, varaformaður
Meðstjórnendur voru:
Jón Örn Valsson
Sigríður Stephensen
Gísli Guðmundsson.
Varamenn voru:
Berglind Grétarsdóttir
Alma Guðmundsdóttir
Tæpt verður á því helsta í starfsemi samtakanna hér á eftir:
Kjaramál
Samningar leik– og grunnskólakennara voru lausir en samningar ekki náðst.
Samskipti við opinbera aðila
Hagsmunagæsla fyrir SSSK snýr mikið að samskiptum og samvinnu við ríki og sveitarfélög. Komu mörg álitamál til umfjöllunar á starfsárinu.
Unnið hefur verið að því allt starfsárið að ná fram skýringum á forsendum hagstofutölu, forsendu útreikninga á framlagi til grunnskólanna. Fundur í menntamálaráðuneytinu ásamt erindi til ráðherra um rýni á forsendu hefur ekki skilað árangri enn.
Samráðsnefnd leik– og grunnskóla
SSSK eiga einn aðalfulltrúa og einn til vara í samráðsnefnd leik– og grunnskóla á vegum mennta– og menningarmálaráðuneytis. Hlutverk nefndarinnar er að vera umræðu– og samstarfsvettvangur aðila um ýmis fagleg málefni leikskóla og grunnskóla. Fyrirkomulag fundanna er yfirleitt þannig að ráðherra menntamála situr fundinn að hluta og síðan taka fulltrúar umræðu um þau fjölbreyttu mál sem eru til kynningar og umræðu í nefndinni hverju sinni.
Alþjóðlegt samstarf
SSSK eru aðili að The European Council of National Associations of Independent Schools, ECNAIS, www.ecnais.org. Haldnar eru tvær ráðstefnur á vegum samtakanna ár hvert, vor og haust. Eru þessar ráðstefnur mjög vel sóttar af fulltrúum sjálfstæðra skóla víðsvegar að úr heiminum og er mikill stuðningur af þessu samstarfi. Formaður ásamt fulltrúa stjórnar sóttu árlega ráðstefnu í Madrid á haustmaánuðum þar sem viðfangsefnið var tækni í skólastarfi.
Félagsstarf SSSK
Öflugt félagsstarf er einkennandi í starfi samtakanna þar sem stefnt er að því að upplýsa, fræða og skemmta félagsmönnum bæði á leik– og grunnskólastigi.
Aðalfundur SSSK 2019
Aðalfundur SSSK var haldinn 2. maí sl. í Húsi atvinnulífsins. Sara Dögg Svanhildardóttir frá Arnarskóla var endurkjörin formaður og varaformaður var kjörin Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar ehf. Í lok fundar ávarpaði Ólafur Stefánsson handboltakempa með meiru aðalfundargesti.
Dagur skólastjórans er fastur viðburður í starfi samtakanna og var að þessu sinni fagnað í lok október. Að venju var blandað saman leik og starfi og Ísaksskóli heimsóttur.
Félagsfundir. Á hverju starfsári er fundað með fulltrúum frá Skóla– og frístundasviði Reykjavíkurborgar þar sem rekstrartengd mál eru tekin fyrir.
Félagsfundur vegna kjaramála Kristín Þóra frá kjarasviði SA var gestur á vel sóttum félagsfundi og fór yfir samningaferlið og aðkomu SA að samningsgerð fyrir SSSK.
Ráðstefna SSSK 2019. SSSK blésu til sinnar árlegu ráðstefnu 1. mars sl. undir yfirskriftinni „Líður öllum vel?“. Ráðstefnan var haldin í Hörpunni með þátttöku ríflega 200 manns. Erlendur gestur ráðstefnunnar var Sören Tonnesen skrifstofustjóri samtaka sjálfstæðra skóla í Danmörku.