Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Auglýst eftir tilboðum í kynningarherferð stjórnvalda og atvinnulífsins

Ríkiskaup fyrir hönd atvinnuvega‐ og nýsköpunarráðuneytisins hefur óskað eftir tilboðum í kynningarherferð um að verja störf og auka verðmætasköpun í íslensku samfélagi og stýra birtingu hennar í fjölmiðlum. Skilafrestur er til föstudagsins 26. júní næstkomandi og er fjárheimild til átaksins 90 milljónir kr. með virðisaukaskatti.

Í auglýsingunni fyrir útboðið kemur fram að með kynningarátakinu skuli leggja áherslu á mikilvægi hringrásarinnar og keðjuverkandi áhrifanna sem verða til þegar fólk velur að skipta við innlend fyrirtæki sem stuðlar að því að atvinnustarfsemi helst gangandi, störf almennings eru varin, efnahagslegur stöðugleiki eykst og verðmætasköpun er aukin.

Nánari upplýsingar um útboðið er að finna í útboðskerfi Ríkiskaupa, TendSign.

Að kynningarherferðinni standa ferðamála-, iðnaðar‐ og nýsköpunarráðherra og sjávarútvegs‐ og landbúnaðarráðherra, f.h. ríkissjóðs, Samtök atvinnulífsins (SA), Samtök iðnaðarins (SI), Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ), Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), Samorka og Bændasamtök Íslands.

„Það er mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf snúi bökum saman nú þegar efnahagslífið er að ganga í gegnum miklar þrengingar vegna COVID-19. Með þessu kynningarátaki vilja Samtök atvinnulífsins, sex aðildarfélög SA og Bændasamtökin leggja sitt af mörkum til að hvetja landsmenn til að velja fjölbreyttar vörur og þjónustu af innlendum fyrirtækjum,“ sagði Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins við undirritun samnings um verkefnið milli stjórnvalda og fulltrúa atvinnulífsins í lok apríl.

Exit mobile version