Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Erlend kortavelta 232 milljarðar 2016

Í frétt frá Rannsóknasetri verslunarinnar segir að í desember hafi erlend greiðslukortavelta numið 14,9 milljörðum króna samanborið við 9,4 milljarða í desember 2015. Um er að ræða ríflega 58% aukningu frá sama mánuði árið áður. Allt árið 2016 greiddu erlendir ferðamenn 232 milljarða hérlendis með kortum sínum, meira en helmingi meira en árið 2015 þegar greiðslukortaveltan var 154,4 milljarðar. Nærri lætur að erlend greiðslukortavelta hafi verið fjórðungur heildarveltu greiðslukorta hérlendis árið 2016 en öll velta greiðslukorta á Íslandi á árinu 2016 nam 1.006 milljörðum. Af þeirri upphæð var velta innlendra korta 773 milljarðar og velta erlendra korta 232 milljarðar eins og áður sagði.

Líkt og undanfarna mánuði var vöxtur í öllum útgjaldaliðum á milli ára. Mest jókst greiðslukortavelta farþegaflutninga með flugi í desember, um 155,5% frá desember 2015 en velta flokksins nam 3,3 milljörðum í desember síðastliðnum. Hluti greiðslukortaveltu flokksins er tilkominn vegna starfsemi innlendra flugfélaga á erlendri grundu. Sem dæmi um mikinn vöxt í kortaveltu flugfélaga var nam greiðslukortavelta flokksins um 700 milljónum í desember 2014 samanborið við 3,3 milljarða í desember síðastliðnum og hefur því fjórfaldast á tveimur árum.

Greiðslukortavelta gististaða jókst í desember um 61,3% frá fyrra ári og greiddu erlendir ferðamenn 2,6 milljarða fyrir gistingu í mánuðinum samanborið við 1,6 milljarð í desember árið 2015. Kortavelta í flokknum ýmis ferðaþjónusta, sem meðal annars inniheldur starfsemi ferðaskrifstofa og ýmsar skipulagðar ferðir ferðaþjónustufyrirtækja nam 2,2 milljörðum í desember síðastliðnum og jókst um 46,4% frá sama mánuði árið áður.

Um 1,5 milljarðar fóru um posa veitingastaða í desember eða 49,5% meira en í desember í 2015. Þá jókst velta bílaleiga um 69,1% frá desember í fyrra en greiðslukortavelta bílaleiga nam 794 milljónum í desember síðastliðnum samanborið við 469 milljarða í sama mánuði árið áður.

Greiðslukortavelta í verslun nam tveimur milljörðum í desember og jókst um 25% frá fyrra ári. Líkt og undanfarna mánuði var vöxturinn mestur í flokkum óvaranlegrar neysluvöru líkt og dagvöru 50,5% og tollfrjálsri verslun 52,8% en minni í fataverslun, 13,1% og annarri verslun 1,2%.

Í desember komu 124.780 ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 76% fleiri en í sama mánuði í fyrra. Alls komu 1.767.726 ferðamenn um Leifsstöð á árinu, 40% fleiri en árið 2015.

Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með  greiðslukorti sínu fyrir 119 þús. kr. í desember, eða um 6% meira en í nóvember. Það er um 3,6% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra.

  • Facebook
  • Twitter
  • Gmail
  • LinkedIn

Ferðamenn frá Sviss greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í desember eða 313 þús. kr. á hvern ferðamann. Norðmenn eru í öðru sæti með 256 þús. kr. á hvern ferðamann. Bandaríkjamenn og Danir koma þar næst með 187 þús. kr. á mann.

Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.

Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.

Exit mobile version