Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Frá félagsfundi um öryggismál

Þriðjudaginn 17. janúar sl. var haldinn félagsfundur á vegum SVÞ um öryggismál þar sem til umfjöllunar voru ýmis álitamál hvað varðar þjófnað úr verslunum. Á fundinum héldu Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri og Rannveig Þórisdóttir, deildarstjóri upplýsinga- og áætlunardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu erindi.

Í erindi sínu fór Sigríður Björk Guðjónsdóttir m.a. yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á innra skipulagi embættisins og helstu áherslur þess í samræmi við t.a.m. löggæsluáætlun. Fram kom í máli hennar að embættið leggur ríka áherslu að sinna skyldum sínum sem þjónustustofnun og fagnaði því öllum tillögum og ábendingum frá fyrirtækjum um hvað megi betur fara í starfsemi þess. Loks taldi Sigríður mikilvægt að láta framkvæma þjónustukönnun hjá fyrirtækjum hvað varðar starfsemi embættisins.

Í erindi sínu fór Rannveig Þórisdóttir yfir ýmsa tölfræði hvað varðar þjófnað úr verslunum og önnur sambærileg brot. Meðal þess sem fram kom í máli hennar þá hefur um 60% tilkynntra mála til embættisins verið lokið með ákærumeðferð eða sátt/sekt. Þá lagði hún sérstaka áherslu á að fjalla um tiltekna tegund fjársvika (e. social engineering) þar sem aðilar eru blekktir til að greiða fyrir vörur eða þjónustu sem ekki er afhent. Þessi tegund brota hefur farið vaxandi undanfarin ár og mikilvægt er að vekja athygli fyrirtækja sem og almenning á þessari hættu.

Í lokin sátu fulltrúar embættisins fyrir svörum og fóru fram jákvæðar umræður um þessi álitamál, hvað embættið hefur gert til að stemma stigu við þjófnaði og hvað mætti betur fara. Af þeim umræðum mátti ráða að margt hafi breyst til batnaðar og þá var ákveðið í lok fundarins að koma á samvinnu fyrirtækja innan SVÞ og embættisins enda ljóst að þekking innan fyrirtækjanna getur nýst við störf embættisins.

Meðfylgjandi er til upplýsingar kynning Rannveigar Þórisdóttur á fundinum.

Exit mobile version