Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Gögnum safnað um matarsóun á Íslandi

Umhverfisstofnun (UST) hefur fengið styrk frá Hagstofu Evrópusambandsins til að mæla matarsóun á Íslandi. Áætlað er að gagnaöflun ljúki í maí og í framhaldinu hefst úrvinnsla gagnanna. Í rannsókninnni er verið að mæla alla virðiskeðjuna frá framleiðslu til heildsala, birgja og verslana auk heimila og stóreldhúsa.

Samkvæmt frétt á vef UST sýna ný gögn um matarsóun í Evrópu að hver Evrópubúi hendir að meðaltali um 173 kg af mat á ári sem er mun meira en áætlað var. Samanlagt er um 88 milljónum tonna af mat hent árlega að andvirði um 143 milljarða evra. Þetta þýðir að um 20% af þeim mat sem er framleiddur innan Evrópu endar í ruslinu. Stærstu úrgangshafarnir eru heimilin sem sóa um 47 milljónum tonna af mat á ári hverju. Þessi gögn voru unnin sem hluti af FUSIONS verkefninu (Food Use for Social Innovation by Optimizing Waste Prevention Strategies) sem er samstarfsverkefni styrkt af Evrópusambandi með það að markmiði að sporna gegn matarsóun. Nánar á vef UST.

Í mars sl. boðaði kynnti umhverfisráðuneytið stefnu um úrgangsforvarnir 2016 – 2027. Fyrstu tvö ár stefnunnar verður áhersla lögð á úrgangsforvarnir gegn matarsóun. Stefnuna má lesa hér.

Á sama tíma var opnuð vefgáttin www.matarsoun.is sem er eitt af þeim verkefnum sem falla undir þessa stefnu um úrgangsforvarnir. Tilgangur vefgáttarinnar er að fræða almenning um matarsóun og þar með ýta undir vitundarvakningu um matarsóun. Fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Landvernd, Kvenfélagasambandi Íslands, Matvælastofnun, Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Samtökum iðnaðarins, Vakandi – samtök gegn matarsóun, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Bændasamtökum Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga mynda samstarfshóp um vefsíðuna.

Exit mobile version