Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Leiðtogi októbermánaðar finnst mikilvægt að lifa í núinu og finna jafnvægi í hlutunum

Aldís 66°Norður er Leiðtogi Október 2022 SVÞ Samtök verslunar og þjónustu

Leiðtogi október 2022 hjá SVÞ Samtökum verslunar og þjónustu er Aldís Arnardóttir, sviðsstjóri verslanasviðs 66°Norður.

Á sama tíma og við óskuðum Aldísi til hamingju með tilnefninguna fengum við hana til að svar nokkrum spurningum.

Aldís, segðu okkur frá starfinu þínu, hvað einkennir starfið þitt?

Ég hef síðastliðin 11 ár leitt verslanasvið fyrirtækisins. Tekjuhæsta og jafnframt fjölmennasta svið fyrirtækisins. Á Verslanasviði starfa um 100 starfsmenn, á íslandi og erlendis.

Starfið er mjög fjölbreytt og krefst mikilla samskipta, bæði við fólk í mínu teymi og annarra innan og utan fyrirtækisins. Ég og mitt teymi leiðum öll þau mál sem heyra undir verslanarekstur fyrirtækisins sem telur í heildina 13 verslanir, 11 á Íslandi og 2 í Danmörku.

Stefnt er að opnun 14 verslunarinnar á næstu vikum. Það hefur verið mikill vöxtur hjá félaginu síðustu ár og búið að vera ótrúlega skemmtilegt og gefandi að fá að vera hluti af þeirri vegferð sem við erum á. Þessa dagana er ég mikið með hugann við áframhaldandi vöxt fyrirtækisins á erlendri grunndu og þá hvað þurfi að gerast til að við náum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. 

Hvað er skemmtilegast við starfið þitt? 

Ég myndi segja að það sem væri skemmtilegast væri fjölbreytnin sem fylgir starfinu en ásamt því þá er ótrúlega dýrmætt að eiga góða liðsfélaga innan fyrirtækisins sem allir hafa svo mikið fram að færa, með ólíkan bakgrunn og þekkingu.

Sömuleiðis er vinnustaðurinn sjálfur frábær, mikið um að vera og vel hugsað um starfsfólk. Mikið lagt uppúr því að hafa gaman af vinnunni og í vinnunni!

Hvernig viðhelduru ástríðunni fyrir starfinu?

Ég leitast mikið eftir því að afla mér aukinnar þekkingar, takast á við nýjar og spennandi áskoranir ásamt því að setja mér háleit markmið sem heldur manni við efnið og viðheldur ástríðunni fyrir starfinu. 

Hvernig er hinn týpiski vinnudagur? 

Hann er alla jafna mjög fjölbreyttur.

Enginn dagur er eins en ætli ég sé ekki nokkuð mikið á milli hinna ýmsu funda, eða það myndu allavega mínir nánustu samstarfsmenn segja. Ég er orðin nokkuð sjóuð í að halda mörgum boltum á lofti og hef gaman af að hendast úr einu í annað. Annars byrja ég vinnudaginn langoftast á einum kaffibolla, fer yfir dagskrá dagsins og renni yfir tölvupósta.

Að halda teyminu mínu upplýstu og inní málum skiptir mig miklu máli og því fer alltaf ákveðinn tími dagsins í að ræða við hópinn minn, taka stöðuna á verkefnum og fylgja eftir því sem er í gangi. Annars eru stóru verkefnin þessa stundina búðaropnanir erlendis sem tekur ágætis tíma úr dagatalinu þessa dagana.

Hvaða vana myndir þú vilja breyta?

Ég veit ekki hvort það er eitthvað sem ég myndi endilega vilja breyta eins og staðan er núna.

Ég gæti eflaust talið upp ýmislegt eins og að vakna aðeins fyrr, yfir í að drekka minna kaffi og borða minna súkkulaði. En finnst hreinlega mikilvægara að njóta þess eins og staðan er núna, lifa í núinu og finna ákveðið jafnvægi á hlutunum.

Ef þú værir hundur, hvernig hundur værir þú? Hvernig myndir þú lýsa þér? 

Held ég sé ekki nógu vel að mér um hunda til að átta mig á því hvaða tegund það gæti verið. Ætli ég væri ekki einhver sem hefði gaman að því að vera í kringum fólk, myndi hlaupa um allar trissur ef mér yrði sleppt út og ætti kannski örlítið erfitt með að fylgja fyrirmælum, en að sama skapi með fínasta jafnaðargeð.

Hvað ertu að læra eða bæta við þekkingu hjá þér þessa dagana?

Ég hlusta töluvert á hlaðvörp og hef mjög gaman af því að læra af fólki sem er að vinna að áhugaverðum hlutum eða er að gera það gott í atvinnulífinu. Sömuleiðis læri ég mikið af fólkinu í kringum mig, bæði í vinnunni og utan hennar.

Ég hef t.d. mjög gaman af því að vinna með fólki sem nálgast hlutina á annan hátt en ég. Annað slagið tek ég svo uppá því að hlusta á áhugaverðar bækur sem snúa að leiðtogahæfni eða ákveðnu málefni sem mig langar að styrkja mig í.

Núna síðast hlustaði ég á Measure what matters eftir John Doerr, hef hlustað nokkrum sinnum á hana og því var það fínasta upprifjun. Bókin fjallar um markmiðasetningu eða OKR´s (Objective and Key Results) sem er aðferðafræði sem hefur gagnast okkur í 66°Norður vel í þó nokkurn tíma. 

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

Árið hefur einkennst af búðaropnunum en við opnuðum í sumar glæsilega verslun í nýjum verslunarkjarna á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur.

Samhliða því hefur London átt hug minn og hjarta. Við erum að opna okkar fyrstu verslun í Bretlandi, á Regent Street í London, núna á næstu vikum og því nóg að gera í kringum það. Verkefnið er mikil fjárfesting og hefur átt sér langan aðdraganda.

Það má segja að við séum búin að vera að undirbúa okkur fyrir vöxt erlendis frá því ég kem inní fyrirtækið fyrir 11 árum. Framtíðarsýnin hefur á þeim tíma verið mjög skýr og opnun í London í samræmi við það.

Sjálfbærni er ein af þremur áherslum SVÞ þessi misserin  Hvernig hefur þú tæklað þessa hluti í þínu starfi?

Sjálfbærni er fyrirtækinu mjög mikilvæg og hefur verið hluti af okkur frá stofnun, við framleiðum flíkur sem eiga að endast og ganga á milli kynslóða. Við erum með viðgerðastofu sem gerir við fatnað og erum sömuleiðis með okkar eigin verksmiðjur sem gefur okkur tækifæri til þess að nýta allt umfram efni og framleiða úr því t.d. fylgihluti, töskur ofl.

Fyrirtækið hefur verið Kolefnisjafnað síðan 2019 og sömuleiðis hlaut fyrirtækið alþjóðlega sjálfbærnivottun B Corp™ fyrst íslenskra fyrirtækja fyrr á þessu ári.

Vottunin hljóta þau fyrirtæki sem hafa uppfyllt hæstu kröfur um samfélagslega og umhverfislega frammistöðu í starfsemi sinni á ábyrgan og gagnsæjan hátt.

____________

Um 66°Norður

66°Norður er eitt elsta framleiðslufyrirtæki á Íslandi. Árið 1926 hóf fyrirtækið framleiðslu á sérstökum hlífðarfatnaði fyrir sjómenn og fiskverkunarfólk á norðurslóðum.

Með tímanum þróaðist fyrirtækið yfir í hönnun og framleiðslu á hágæða útivistarfatnaði. Í dag starfa um 400 manns hjá fyrirtækinu og starfar fyrirtækið í fjórum löndum, á Íslandi, í Danmörku, Bretlandi og Lettlandi.

Á Íslandi rekur Sjóklæðagerðin ellefu verslanir undir vörumerkinu 66°Norður og í Kaupmannahöfn eru tvær verslanir þar sem sú fyrsta opnaði í lok árs 2014.

Árið 2019 var opnuð skrifstofa í Lundúnum. Í lok árs 2022 mun fyrirtækið opna nýja verslun 66°Norður í Lundúnum.

66°Norður hefur verið í Samtökum verslunar og þjónustu frá árinu 2014.

Exit mobile version