Icewear Magasín í Austurstræti hlýtur í ár Njarðarskjöldinn, hvatningarverðlaun til ferðamannaverslana í Reykjavík. Verðlaunin voru afhent 21. janúar sl. við hátíðlega athöfn í Hvalasýningunni við Fiskislóð.
Að viðurkenningunni standa SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, Félag atvinnurekenda, Reykjavíkurborg, Miðborgin okkar, Kaupmannasamtök Íslands, Global Blue á Íslandi og Tax Free Worldwide Ísland.
Njarðarskjöldurinn var nú veittur í tuttugasta sinn en markmð verðlaunanna er að hvetja til bættrar og aukinnar verslunarþjónustu við ferðamenn í Reykjavík.
Við tilnefningu ferðamannaverslunar ársins er leitast við að verðlauna þá verslun sem hefur náð hvað bestum söluárangri til erlendra ferðamanna milli ára. Horft er til markaðs- og kynningarmála, svo sem auglýsinga, vefs og útlits almennt. Aðrir þættir eru einnig skoðaðir sérstaklega svo sem þjónustulund, opnunartími, merkingar um endurgreiðslu virðisauka, lýsing, tungumálakunnátta starfsfólks og þekking á söluvörunum.