Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Samkeppni er lykilorðið – frétt ASÍ segir alla söguna

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 21.2.2018

SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu finnst ástæða til að vekja sérstaka athygli á frétt sem birtist á heimasíðu Alþýðusambands Íslands fyrir helgi. Í fréttinni er vísað í gögn frá Hagstofunni yfir vísitölu neysluverðs og hvernig verðlag á matvörum hefur þróast á undangengnum tveimur árum. Þar kom m.a. fram að verð á matvöru hafi í heild sinni lækkað um 0,7% á síðustu tveimur árum. ASÍ undirstrikaði hins vegar að á meðan að matarverð lækkaði í heild sinni hækkuðu mjólkurvörur um 7,4%.

Samkvæmt þessum gögnum hefur verðþróun á matvörumarkaði verið með þeim hætti að verð á innfluttum matvörum og verð á innlendum matvörum sem búa við samkeppni, hefur lækkað á þessu tímabili. Verð á þeim innlendu vörum sem ekki búa við neina samkeppni hefur hins vegar hækkað umtalsvert á þessu tímabili og sker verðþróun á mjólkurvörum sig algerlega úr í þessu sambandi.

Þó að SVÞ og ASÍ hafi í gegn um tíðina oft tekist á um verðlag á matvöru hér á landi og hvernig það hefur þróast frá einum tíma til annars, bregður nú svo við að SVÞ getur tekið undir allt sem kemur fram í þessari frétt.

Frétt ASÍ segir svo miklu meira en það sem fréttin fjallar beinlínis um. Það er þá sögu, sem aldrei verður of oft sögð, hversu miklu máli það skiptir að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Virk samkeppni leiðir til aukinnar skilvirkni fyrirtækja sem skilar sér í lægra verði og betri gæðum fyrir neytendur. Frétt ASÍ lýsir því vel þeirri stöðu sem enn er hér á landi og mikilvægi þess að úr verði bætt.

SVÞ vilja því enn og aftur hvetja stjórnvöld til dáða í þessum efnum. Það er í þeirra höndum og aðeins þeirra að tryggja að samkeppni fái þrifist á öllum sviðum atvinnulífsins.

Fréttatilkynning 21.2.2018 – Þróun matvöruverðs

Exit mobile version