Hvar: Hyl, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 105 Reykjavík
Hvenær: Þriðjudaginn 9. apríl kl. 8:30-10:00
Stafræn umbreyting, „digitalization“, fjórða iðnbyltingin… eins og Greg Williams, aðalritstjóri WIRED sagði á opinni ráðstefnu SVÞ nýlega, „það er alveg sama í hvaða bransa þú ert – í dag eru öll fyrirtæki tæknifyrirtæki“. Stafrænar breytingar eru að hafa áhrif alls staðar og fyrirtæki einfaldlega verða að taka þátt, ellegar heltast úr lestinni. En það er ekki nóg bara að kaupa tólin, tækin og forritin. Til að tækin og tólin nýtist fyrirtækinu til framdráttar þarf árangursríka innleiðingu og gagngera naflaskoðun og umbreytingu á menningu fyrirtækisins.
Helga Jóhanna Oddsdóttir og Tómas Ingason munu í erindum sínum fjalla um þær áskoranir sem stjórnendur standa frammi fyrir við þróun og innleiðingu stafrænna lausna og áhrifa þeirra á menningu fyrirtækja.
Helga Jóhanna Oddsdóttir er framkvæmdastjóri og meðeigandi Strategic Leadership á Íslandi. Strategic Leadership sérhæfir sig í þróun meðvitaðra og stefnumiðaðra leiðtoga um allan heim og hefur starfað lengi með stórfyrirtækjum á borð við BMW, Roche, Arion banka, VÍS ofl. Helga hefur á undanförnum árum komið að fjölmörgum verkefnum er lúta að þróun menningar innan fyrirtækja sem eru á stafrænni vegferð og mun deila reynslu sinni og innsýn í þær áskoranir sem stjórnendur standa frammi fyrir. Helga er með M.Sc. í stjórnun og stefnumótun frá H.Í. og B.Sc. í viðskiptafræði frá sama skóla. Þá lauk hún markþjálfunarnámi frá Háskólanum í Reykjavík vorið 2012.
Tómas Ingason er framkvæmdastjóri Stafrænnar þróunar og upplýsingatækni hjá Icelandair. Hann var framkvæmdastjóri viðskiptasviðs WOW air á árinu 2018 og forstöðumaður stafrænnar framtíðar hjá Arion banka á árunum 2016 til 2018. Hann starfaði einnig hjá WOW air á árinu 2014 sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunarsviðs. Fyrir þann tíma starfaði hann sem stjórnunarráðgjafi hjá Bain & Company í Kaupmannahöfn og hjá Icelandair þar sem hann var forstöðumaður tekjustýringar og verðlagningar um árabil. Tómas er með MBA gráðu frá MIT Sloan School of Management í Boston, MSc. gráðu í verkfræði frá MIT með áherslu á flugrekstur og aðfangakeðjur og BS-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.