Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Aukin sala áfengis þrátt fyrir verðhækkun

Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar var áfengisverslun kröftug í janúar. Velta áfengisverslunar var 11,6% meiri en á sama tíma í fyrra á breytilegu verðlagi. Verð áfengis hækkaði um 1% í janúar frá fyrri mánuði en um 0,8% borið saman við fyrra ár. Breytt fyrirkomulag við skattheimtu áfengis tók gildi um áramótin þegar áfengi fór í neðra þrep virðisaukaskatts en áfengisgjald hækkaði á móti, er tilgangur breytinganna að auka skilvirkni skattheimtunnar. Einn fylgifiskur breytinganna er að ódýrt áfengi hækkar hlutfallslega í verði á móti dýru áfengi en breytingarnar fela í sér að áfengislítrar eru skattlagðir af meiri þunga en útsöluverð.
Verslun með föt og skó var í minna lagi í janúar samanborið við janúar 2015 en fataverslun dróst saman um 2,3% og skóverslun minnkaði um 8,3%. Um áramótin voru tollar af fatnaði felldir niður en þess gætti þó ekki í verðlagi fatnaðar í janúar enda eldri vörur jafnan seldar á janúarútsölum. Verðlag á fatnaði hækkaði um 0,7% frá janúar í fyrra en lækkaði um 12,7% frá desember síðastliðnum vegna útsala.

Húsgagnaverslun í janúar var 31% meiri en í sama mánuði í fyrra og hefur vaxið stöðugt undanfarna mánuði. Þannig hefur velta síðustu sex mánaða verið 20,6% meiri en á sama tímabili 12 mánuðum fyrr. Verð húsgagna hefur farið lækkandi og var 5,2% lægra í janúar samanborið við janúar í fyrra en það þýðir ásamt veltuaukningunni magnvöxt um 38% frá janúar í fyrra.
Dagvöruverslun jókst um 3,7% í janúar frá fyrra ári á breytilegu verðlagi en 3,1% ef leiðrétt er fyrir verðlagsþróun. Verðlag dagvöru hækkaði um 0,9% frá fyrra ári en nú er rúmt ár liðið frá því að neðra þrep VSK hækkaði úr 7% í 11% samhliða niðurfellingu sykurskattsins. Er verðsamanburðurinn nú því raunhæfari á milli ára þar sem kerfisbreytingin í ársbyrjun 2015 fellur utan tímabilsins.
Eftir mikinn vöxt í veltu raftækja undanfarið hægðist nokkuð á vexti í verslun með farsíma og lítil (brún) raftæki í janúar borið saman við fyrra ár. Þannig var velta með farsíma 6,7% lægri í janúar en í sama mánuði í fyrra og velta með lítil raftæki 6,1% lægri en í janúar 2015. Velta með stærri (hvít) raftæki jókst í janúar um 12,3% frá sama mánuði í fyrra og velta með tölvur jókst um 19,5% í janúar eftir hægan vöxt undangenginna mánaða.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 3,7% á breytilegu verðlagi í janúar miðað við sama mánuð í fyrra og um 2,8% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í janúar um 3,1% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 0,9% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í janúar 0,5% hærra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 11,6% í janúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 10,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengis á föstu verðlagi í janúar um 11,7% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,8% hærra í janúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Fataverslun dróst saman um 2,3% í janúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 2,8% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 0,7% hærra í janúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar minnkaði um 8,3% í janúar á breytilegu verðlagi og minnkaði um 6,4% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um 5,6% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í janúar um 2,0% frá janúar í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 31% meiri í janúar en í sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 38% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 23,9% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 10% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 5,2% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í janúar um 12,1% á breytilegu verðlagi og um 14,8% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 2,3% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan.

Velta í sölu á tölvum jókst um 19,5% í janúar á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala minnkaði um 6,1%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 6,7% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 12,3% á milli ára. Verð á raftækjum fer almennt lækkandi. Þannig var verð á stórum raftækjum 11,6% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan og á litlum raftækjum var verðið 1,1% lægra.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Slóð inn á vef RSV.

Exit mobile version