Hinn 27. nóvember sl. staðfestu Evrópuþingið og ráðið tilskipun (EU) 2019/2161 sem inniheldur breytingar á Evrópulöggjöf og á að bæta framfylgd aðildarríkjanna á ákvæðum um neytendavernd. Ákvæði tilskipunarinnar snúa m.a. að viðurlögum við brotum á evrópskri neytendalöggjöf og ýmsum þáttum sem snerta netverslun bæði innan einstakra ríkja og milli ríkja á EES-svæðinu.
Athygli vekur að í 2. gr. tilskipunarinnar er að finna ákvæði sem gæti með óbeinum hætti dregið úr svigrúmi verslunarmanna til að bjóða afslætti. Efnislega er í ákvæðinu kveðið á um þá meginreglu að í auglýsingum um tilboð eða afslætti skuli koma fram á hvaða verði varan hefur áður verið seld. Það verð sem þannig á að tilgreina sem fyrra verð er lægsta útsöluverð síðustu 30 daga.
Í Danmörku hafa fjölmiðlar og verslunarmenn velt því fyrir sér hvort slík regla muni takmarka eða jafnvel útrýma möguleikum verslunarinnar til þess að bjóða vörur á tilboði eða afsláttum í desember í ljósi sérstakra tilboðsdaga í nóvember, t.d. „Black-Friday“ eða „Singles-day“. Tilskipunin kemur til framkvæmda í ríkjum ESB hinn 28. maí 2022 en upptaka hennar í EES-samninginn er enn á skoðunarstigi á EES-EFTA ríkjunum.