Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

„Ef þú kaupir rusl endar það sem rusl“Kastljós fjallar um áhrif erlendra netverslana á samfélagið

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ í Kastljósþætti 13.janúar 2025

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ í Kastljósþætti 13.janúar 2025

Í nýlegum þætti Kastljóss var fjallað um áhrif erlendra netverslana á borð við Temu og Shein þar sem Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ talaði um um neytendahegðun, umhverfisáhrif og þá ábyrgð sem fylgir því að velja hvar og hvernig við verslum.

Af hverju ættu neytendur að hugsa sig tvisvar?

  1. Ódýrt á kostnað gæða: Netverslanir á borð við Temu og Shein bjóða vörur á mjög lágu verði, en oft á kostnað gæðastjórnunar og öryggisstaðla sem Evrópusambandið gerir kröfu um.
  2. Hætta á skaðlegum efnum: Rannsóknir hafa sýnt að margar vörur frá þessum síðum innihalda efni sem eru bæði hormónatruflandi og krabbameinsvaldandi, og geta haft skaðleg áhrif á börn og fullorðna.
  3. Skammlíf vara veldur sorpvanda: Lítil ending vara leiðir til aukins rusls, sem eykur álag á endurvinnslustöðvar og umhverfið. Eða eins og fulltrúi Rauða krossins benti skýrt á í Kastljós þættinum þegar hún sagði „Þegar þú kaupir rusl, endar það sem rusl.“

Samfélagsleg ábyrgð neytenda

Í þættinum var lögð áhersla á mikilvægi ábyrgðrar neyslu. Fjallað var um hvernig ódýrar vörur frá erlendum netverslunum, á borð við Temu og Shein, hafa oft falinn kostnað. Starfsfólk í framleiðslunni býr við ómannúðlegar aðstæður og umhverfið ber þungann af mengun og sóun.

Neytendur eru hvattir til að hugsa „Hver borgar raunverulega verðið?“ Meðvitund um uppruna og áhrif vara er lykillinn að því að gera upplýstari val sem styðja við samfélagslega og umhverfislega ábyrgð.

Þegar við verslum við erlenda netverslun, renna skattar og gjöld til að styrkja innviði þess lands – heilbrigðisþjónustu, samgöngur og menntakerfi viðkomandi ríkis. Hins vegar, þegar við styðjum íslenskar verslanir, hjálpum við til við að byggja upp okkar eigin innviði hér á landi, þar á meðal íslenska heilbrigðiskerfið, vegakerfið og skólana okkar. Neytendur hafa því raunverulegt vald með veskinu sínu til að ákveða hvaða kerfi og samfélag þeir vilja styðja við með sínum kaupum.

Þáttinn má sjá í heild sinni á RÚV vefnum.

Að velja upplýst og ábyrgt er fyrsta skrefið til að draga úr neikvæðum áhrifum.  

Exit mobile version