Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Erlendir ferðamenn keyptu dagvöru fyrir 1,4 milljarða í júlí

Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta í júlí síðastliðnum 31,4 milljörðum króna samanborið við 24 milljarða í sama mánuði 2015. Um er að ræða ríflega 31% aukningu milli ára.  Kortavelta erlendra ferðamanna í júlí er sú mesta í einum mánuði frá upphafi en fyrra met var sett í júní síðastliðnum þegar erlendir ferðamenn greiddu vörur og þjónustu fyrir um 26 milljarða króna með kortum sínum.

Líkt og undanfarna mánuði var vöxtur í öllum útgjaldaliðum. Myndarlegur vöxtur var í dagvöruverslun í júlí en ferðamenn greiddu 1.357 milljónir til dagvöruverslana í mánuðinum eða 45,6% meira en í júlí í fyrra. Ef litið er á erlenda greiðslukortaveltu til verslunar í heild þá var hún rúmir 4,7 milljarðar í júní, 25% meiri en í júlí 2015.

  • Facebook
  • Twitter
  • Gmail
  • LinkedIn

Velta í ferðaþjónustu sem býður skipulegar ferðir innanlands eykst stöðugt og var 43% meiri í júlí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Er þar um að ræða ferðaþjónustu á borð við hvalaskoðun, gönguferðir, rútuferðir, hálendisferðir o.s.frv.

Enn er mikill vöxtur í farþegaflutningum með flugi en erlend kortavelta í þeim flokki jókst um 61,1% frá júlí 2015 og var rúmir þrír milljarðar í júlí síðastliðnum. Vöxtur í kortaveltu vegna kaupa erlendra ferðamanna á flugferðum nú er þó nokkuð minni en undanfarna átta mánuði en flugferðir eru jafnan keyptar nokkuð fram í tímann og nú líður senn að enda háannatíma ferðaþjónustu.

Eins og áður sagði jókst kortavelta erlendra ferðamanna í öllum flokkum í júlí en sem dæmi greiddu erlendir ferðamenn 30,8% meira fyrir gistiþjónustu samanborið við sama mánuð í fyrra, alls 6,2 milljarða, 29,5% meira á veitingastöðum eða 3,5 milljarða og 2,8 milljarða fyrir bílaleigubíla, 36% meira en í júlí 2015. Þá má nefna að menningartengd ferðaþjónusta jókst um 39% í mánuðinum miðað við júlí í fyrra.
Í júlí komu um 236 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 30,6% fleiri en í sama mánuði í fyrra.

Kortavelta eftir þjóðernum

  • Facebook
  • Twitter
  • Gmail
  • LinkedIn

Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með  greiðslukorti sínu fyrir 133 þús. kr. í júní, eða um 4% minna en í maí. Það er álíka upphæð og í sama mánuði í fyrra.
Líkt og síðustu mánuði keyptu ferðamenn frá Sviss að jafnaði fyrir hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum eða 191 þús. kr. á hvern ferðamann. Norðmenn eru í öðru sæti með 176 þús. kr. á hvern ferðamann. Rússar koma þar næst með 157 þús. kr. Athygli vekur að meðaleyðsla ferðamanna frá öðrum löndum er 172 þús. kr. á hvern ferðamann.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.

Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.

Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

www.rsv.is

Exit mobile version