Það ríkti mikil gleði og kátína á glæsilegri ráðstefnu SSSK 3. mars sl. í Hörpunni. Yfirskrift ráðstefnunnar sem haldin var í fullum sal Norðurljósa var „SKÖPUM FRAMTÍÐINA – Nýjasta tækni og vísindi“
Áslaug Hulda Jónsdóttir formaður samtakanna ávarpaði ráðstefnugesti og og nefndi mikilvægi þess að við höfum ólíka og fjölbreytta valkosti í skólastarfi.
Að loknu ávarpi formanns steig í pontu forsetafrú Íslands Eliza Reid, sem heillaði ráðstefnugesti með alúðlegri framkomu og persónutöfrum.
Fyrirlestra fluttu Kristján Ómar Björnsson, heilsustjóri NÚ með fyrirlestur undir yfirskriftinni „Stofnaðu skóla! Áhugasviðstengdir grunnskólar. Er það framtíðin?, Ingvi Hrannar Ómarsson, verkefnastjóri í nýsköpun, skóla- og tækniþróun í grunnskólum í Skagafirði með fyrirlestur undir yfirskriftinni „Framtíðin þeirra“, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og eigandi Köru Connect og Tröppu ehf. var með fyrirlestur undir yfirskriftinni „Netfæddir nemendur“. Síðust tók til máls Anna Steinsen stofnandi og eigandi KVAN og jógakennari með erindi sem var með yfirskriftina „Lykill að hamingju barna er að þjálfa samskipti og styrkleika“
Miklar og góðar undirtektir voru við erindum allra fyrirlesara. Milli atriða voru ráðstefnugestir þjálfaðir í keðjusöng og tilheyrandi klappi og hreyfingu undir leiðsögn Nönnu Hlífar Ingvadótturfrá Landakotsskóla. Skemmtu allir sér mjög vel í þessu atriði sem var óvænt og skemmtilegt.
Ráðstefnan fór fram undir styrkri stjórn Ingibjargar Jóhannsdóttur skólastjóra Landakotsskóla.
Að lokinni ráðstefnu var boðið upp á léttar veitingar í Björtuloftum.