Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifar á visir.is þann 7. október:
Netviðskipti, hið nýja form viðskipta, vex hröðum skrefum hvarvetna í heiminum. Við Íslendingar förum ekki varhluta af þessari þróun, enn sífellt stærri hluti íslenskra neytenda kýs að gera viðskipti sín með þessum hætti. Í þessum viðskiptum er heimurinn allur eitt markaðssvæði, þar sem stór og þekkt alþjóðleg fyrirtæki á borð við Amazon og Alibaba, ná síaukinni markaðshlutdeild. Að sama skapi eiga þau fyrirtæki sem einkum starfa á heimamarkaði, undir högg að sækja í samkeppninni við hina stóru alþjóðlegu risa. Sú samkeppni mun að öllum líkindum aukast verulega á komandi árum.
Margir hafa áhyggjur af þessari þróun og óttast að hið mikla samkeppnisforskot sem hin stóru alþjóðlegu fyrirtæki hafa náð, komi til með að raska eðlilegri samkeppni. Slíkt muni á endanum koma niður á neytendum og eru það vissulega skiljanlegar áhyggjur.
Það eru lítil sem engin takmörk á því hvaða vöru eða þjónustu hægt er að eiga viðskipti með á netinu. Hin vinsæla neysluvara, áfengi, er hér engin undantekning og fer sá hópur fólks sífellt stækkandi sem gerir innkaup sín á áfengi með þessum hætti.
Samkeppnisstaða þeirra sem vilja selja íslenskum neytendum áfengi á netinu getur engan veginn talist jöfn. Eins og staðan er núna, er það einungis ríkisfyrirtækið Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins af innlendum fyrirtækjum, sem hefur heimild til slíks. Fyrir utan ÁTVR eru það erlendar netverslanir sem einar hafa möguleika á að selja íslenskum neytendum áfengi með þessum hætti. Dómsmálaráðherra hefur nú boðað að hún muni leggja fram frumvarp seinna í vetur, sem breyta mun þessu kerfi á þann veg, að innlendar netverslanir hafi heimild til netsölu með áfengi til jafns við erlendar. Sú breyting mun væntanlega bæta samkeppnisstöðu innlendrar netverslunar að einhverju marki.
Það voru nokkrir sem stigu fram og lýstu andstöðu sinni við þessar breytingar af ótta við skaðvænlegar afleiðingar þeirra fyrir lýðheilsu þjóðarinnar. Erfitt er að koma auga á rökin fyrir slíku, þar sem hugsanleg áhrif á lýðheilsu yrðu þau sömu, hvort sem áfengið væri keypt í netverslun ÁTVR eða sambærilegri innlendri verslun sem ekki væri rekin af hinu opinbera.