Glundroði stjórnvalda í loftlagsmálum

Glundroði stjórnvalda í loftlagsmálum

Heimsmet í hættu.

Stjórnvöld virðast ekki vita í hvorn fótinn þau eiga að stíga þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Glundroði ríkir.

Stjórnvöld hafa undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um samdrátt losunar á beinni ábyrgð Íslands sem nemur um 29% árið 2030 miðað við stöðuna árið 2005. Þau hafa sett sér enn metnaðarfyllri markmið í samvinnu við Evrópusambandið og Noreg um 55% samdrátt sama ár og stefna að heimsmeti með því að Ísland verði fyrsta jarðefnaeldsneytislausa land heims árið 2040. Ef illa tekst til blasa við allt að 10 milljarða kr. ríkisútgjöld á ári vegna kaupa á losunarheimildum eða innflutningur á rándýrum íblöndunarefnum sem margfalda gjaldeyrisútstreymi.

Árið 2022 átti 33% af losun koltvísýrings á beinni ábyrgð Íslands uppruna sinn að rekja til vegasamgangna. Í þeim flokki hefur losun aukist með auknum efnahagsumsvifum. Í vegasamgöngum liggja þó mestu tækifærin til losunarsamdráttar þar sem nýting hreinorkutækni er þar lengst komin. Til að ná settum markmiðum hafa stjórnvöld m.a. ráðist í aðgerðir sem eiga að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum.

Aðgerðir hafa skilað árangri.

Frá því skattívilnanir litu fyrst dagsins ljós árið 2012 hefur hlutdeild hreinorkuökutækja í árlegum nýskráningum vaxið og nemur það sem af er líðandi ári ríflega 40%. Ökutækjafloti Íslendinga er hins vegar stór en við lok árs 2022 voru hér 278.528 ökutæki í umferð. Við búum í stóru landi undir skilyrðum vaxandi efnahagsumsvifa. Umsvif iðnaðar og ferðaþjónustu hafa m.a. leitt til gríðarlegrar fólksfjölgunar.

Þrátt fyrir ágætan árangur erum við enn langt frá fullum orkuskiptum. Hreinorkuökutæki voru aðeins 18.054 í lok árs 2022 eða 6,5% af heildarfjöldanum. Því er ljóst að það þarf að gera enn betur. Búast má við að ökutækjaflotinn í landinu nemi 328 þúsund ökutækjum árið 2030 og hreinorkubílar verði aðeins um 104 þúsund talsins eða 32%. Líklegt er að losun frá vegasamgöngum nemi þá 893 þúsund tCO2íg (koltvísýringsígildi) og verði í raun 15% meiri en árið 2005 en ekki 55% minni.

Á stuttum tíma hafa stjórnvöld gripið til eftirfarandi aðgerða:

  • Tekið hefur verið upp lágmarksvörugjald á hreinorkubíla og sparneytna bíla og þar með hefur dregið úr verðmun slíkra bíla og eyðslufrekra bíla.
  • Fjárhæð virðisaukaskattsívilnunar hreinorkuökutækja hefur lækkað og verður hún alfarið lögð af um næstu áramót.
  • Lágmarks bifreiðagjald var tvöfaldað um síðustu áramót og losunarmörk gjaldtökunnar hækkuð og því hefur dregið hlutfallslega úr mun á rekstrarkostnaði hreinorkubifreiða og eyðslugrannra bifreiða annars vegar og eyðslufrekra jarðefnaeldsneytisbifreiða hins vegar.
  • Sérstakt úrvinnslugjald er lagt á drifrafhlöður á hreinorkuökutækja við nýskráningu.
  • Tilkynnt hefur verið um upptöku notkunargjalds m.a. á hreinorkubíla þannig að dragi úr mun á rekstrarkostnaði þeirra og jarðefnaeldsneytisbíla.
  • Tilkynnt hefur verið að til standi að gera frekari breytingar á skattlagningu eldsneytis sem gætu lækkað útsöluverð jarðefnaeldsneytis með þeim afleiðingum að dragi enn frekar úr mun á rekstrarkostnaði hreinorkubíla og jarðefnaeldsneytisbíla.

Stefnubreyting?

Samkvæmt umfjöllun í frumvarpi til fjárlaga 2024 mun ný gerð stuðnings vegna kaupa á hreinorkubílum taka gildi um næstu áramót. Orkusjóður mun úthluta fjárstyrkjum. Samhliða er ætlunin að draga umfang stuðningsins saman um sem nemur meira en 35% á nafnverði milli áranna 2023 og 2024 ef miðað er við umfang ívilnunar í virðisaukaskattskerfinu sem mun falla niður. Útfærsla nýja stuðningsins liggur enn ekki fyrir en ljóst er að fjármála- og efnahagsráðherra fellir breytinguna í flokk aðhaldsaðgerða sem ætlað er að vinna gegn verðbólgu.

Tvístígandi stjórnvöld hafa misst móðinn og hafa þau áhyggjur af dvínandi skatttekjum af ökutækjum og eldsneyti. Staðan hefur hins vegar verið fyrirséð allt frá þeim tíma þegar ákveðið var að beita efnahagslegum hvötum skattkerfisins til að vinna að orkuskipta- og loftslagsmarkmiðum. Hinar nýtilkomnu áhyggjur ríkisstjórnarinnar hafa leitt hana inn á ranga braut viðbragða sem draga úr virkni eigin aðgerða og hægja hraða orkuskipta. Fyrir vikið mun Ísland fjarlægjast sett markmið.

Einstaklingar og fyrirtæki eru um þessar mundir að velta fyrir sér hvernig sé skynsamlegt að haga sér við fjárfestingu í ökutækjum á næsta og þar næsta ári. Hvaða bíla geta söluaðilar boðið upp á? Hvað munu bílar kosta? Hvað mun kosta að reka bíla? Er e.t.v. skynsamlegra að fjárfesta í bíl sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti þar til framtíðin verður skýrari? Þetta eru stórar spurningar en svörin fá í þeirri óvissu sem nú er uppi. Undirbúningur fjárlaga hefst að jafnaði að vori og því hlýtur að vera unnt að gera þá kröfu að stjórnvöld skipuleggi sig, vandi undirbúning og kynningu, svo fyrirsjáanleiki verði tryggður.

Einfalt að snúa blaðinu við.

Stjórnvöld geta með einföldum hætti snúið við blaðinu og stutt við eigin markmið í loftslagsmálum næstu fimm árin með eftirfarandi aðgerðum og það án aukinna útgjalda á heildina litið.

  • Fellt niður lágmarksvörugjald af hreinorkubílum sem lagt var á um áramót en í staðinn lækkað losunarviðmið og gjaldþyngd vörugjalds af bílum sem ganga að hluta eða öllu leiti fyrir jarðefnaeldsneyti.
  • Aukið fjárhagslegt umfang stuðnings í gegnum Orkusjóð vegna kaupa á hreinorkubílum á árunum 2024 og 2025 en dregið á móti úr umfanginu sem aukningunni nemur árin 2027 og 2028.
  • Innleitt aðgerðir til hröðunar orkuskipta í vegasamgöngum sem vinnuhópur Samtaka atvinnulífsins, Samtaka verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandsins og Samtaka ferðaþjónustunnar skilaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í júní síðastliðnum í tengslum við loftslagsvegvísa atvinnulífsins.
  • Frestað upptöku notkunargjalds á hreinorkubíla a.m.k. til ársins 2025. Þar með gefst betri tími til undirbúnings og upptöku gjaldanna á alla ökutækjaflokka eftir vandlega greiningu og tímanlega kynningu fyrir almenningi og fyrirtæki.

Orkuskiptin eru eitt stærsta og mikilvægasta verkefni síðari tíma og þau er mikilvægt að taka föstum tökum. Glundroði getur reynst sandur í vél þeirra. Öllu skiptir að undirbúningur og framkvæmd aðgerða helgist af jafn miklum metnaði og markmiðin sem að er stefnt. Þær séu í samhengi, fyrirsjáanlegar, hagkvæmar, samvirkar og mælanlegar.

Höfundar: Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu og Egill Jóhannsson, stjórnarmaður í Bílgreinasambandinu og SVÞ.

__________________________________________________________________
Sjá grein í Morgunblaðinu hér fyrir neðan:

Morgunblaðið 4.nóvember 2023 Umhverfismál

 

 

 

Rýnt í leiguverð |  Visir.is

Rýnt í leiguverð | Visir.is

Visir.is birtir í dag, 17.maí 2023,  grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.

Þar segir m.a.:
Umræða um leiguverð á íbúðarmarkaði hefur verið nokkuð hávær að undanförnu. Í þeirri umræðu hefur verið fullyrt að verðhækkanir á þessum markaði hafi verið úr öllu hófi og ekki í samræmi við almenna verðlagsþróun í landinu. Af þeirri ástæðu er rétt að staldra við og benda á nokkur einföld atriði:

  • a. Húsnæðiskostnaður hefur ávallt verið stærsti útgjaldaliður hverrar fjölskyldu, hvort sem fólk býr í eigin húsnæði eða er á leigumarkaði. Þannig hefur það ávallt verið og verður að öllum líkindum áfram.
  • b. Á tímabilinu frá desember 2019 til mars 2023 lækkaði leiguverð á höfuðborgarsvæðinu um 4,8% á föstu verðlagi á meðan kaupverð á íbúðarhúsnæði hækkaði um 22,4% á sama tíma. Ef horft er á þróunina út frá breytingu á launavístölu á sama tímabili á hækkaði launavísistalan um 31,2%, eða um tæplega 7% á föstu verðlagi. Leiguverð sem hlutfall af launum lækkaði því um 11 % á tímabilinu.
  • c. Fært yfir á mannamál merkir þetta að húsaleigan er hlutfallslega lág í samanburði við verð á fasteignum og fjármagnskostnað. Telja verður meiri líkur en minni á að húsaleigan aðlagist að einhverju leyti þegar horft er til þess að íbúafjölgun hér á landi hefur verið meiri undanfarna mánuði en nokkru sinni fyrr á svo skömmum tíma og framboð á leiguhúsnæði er augljóslega ekki í takt við þarfir markaðarins. Hér mun lögmálið um framboð og eftirspurn einfaldlega ráða þróuninni.
  • d. Könnun sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur gert bendir eindregið til þess að stærri hluti leigjenda sé ánægðari með stöðu sína en oft áður, enda liggur það fyrir að útgjöld vegna húsaleigu hafa verið svipað hlutfall ráðstöfunartekna allan undangenginn áratug.
  • e. Samkvæmt lífskjarakönnun Hagstofu Íslands töldu 13,8% heimila á leigumarkaði sig búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað árið 2022 í samanburði við 25,4% árið 2015. Þessi niðurstaða bendir eindregið til þess að fólk hafi það almennt betra á leigumarkaði en oft áður.

Sú lýsing á ástandinu á leigumarkaði fyrir íbúðarhúsnæði sem birst hefur að undanförnu er því ekki í samræmi við þann raunveruleika sem opinber gögn segja til um. Hér gildir því hið sígilda að yfirveguð umræða, byggð á staðreyndum máls, er líklegust til að leiða umræðuna inn á réttar brautir.

SMELLTU HÉR til að lesa greinina inná Visir.is

Um gróða dagvöruverslana | Visir.is

Um gróða dagvöruverslana | Visir.is

Visir birtir í dag grein frá Andrési Magnússyni, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu undir fyrirsögninni: ‘Um gróða dagvöruverslana’.

Umræðan um ofurgróða fyrirtækja í dagvöruverslun er ekki ný af nálinni. Sú umræða hefur sprottið upp með reglubundnum hætti svo lengi sem undirritaður hefur fylgst með, sem er orðinn drjúgur tími. Ýmsir hafa þar lagt orð í belg, en fullyrða má að sá aðili sem hefur haft sig mest frammi á þessu sviði er verðlagseftirlit ASÍ. Nýlega var það t.d. fullyrt þar á bæ að dagvöruverslanir hefðu undanfarið, og í ríkara mæli en áður, velt verðhækkunum frá birgjum yfir á neytendur. Ekki var að sjá að þessi staðhæfing væri sérstaklega rökstutt.

Eins og öllum er kunnugt þá hafa verðhækkanir frá birgjum, bæði vegna innfluttrar vöru og innlendrar, verið nær fordæmalausar undanfarna mánuði. Ástæður þess ættu öllum að vera kunnar, en bæði heimsfaraldur og stríðsátök í Evrópu hafa haft veruleg áhrif á framleiðslu- og flutningskostnað um allan heim, með tilheyrandi áhrifum á vöruverð.

Fyrir nokkru birti Samkeppniseftirlitið sk. framlegðargreiningu fyrir nokkra lykilmarkaði á smásölustigi. Einn þessara markaða var dagvöruverslun. Meðal þeirra fullyrðinga sem eftirlitið setur þar fram er að álagning í smásölu á Íslandi sé há í alþjóðlegum samanburði. Þessi fullyrðing er ein af fjölmörgum ágöllum sem hagsmunaaðilar hafa gert athugasemdir við enda á hún ekki við rök að styðjast. Það er beinlínis ekkert í greiningu eftirlitsins sem styður þessa staðhæfingu. Hvorki framlegðar- né hagnaðarhlutfall fyrirtækja á þessum markaði hefur aukist undanfarin ár. Velta fyrirtækja í þessum greinum jókst mikið á meðan heimsfaraldurinn gekk yfir en álagning jókst hins vegar ekki.

Nú hafa þrjú stærstu fyrirtækin á dagvörumarkaði nýlega birt uppgjör sín. Ekkert í þeim uppgjörum styður fullyrðingar ASÍ og Samkeppniseftirlitsins. Þvert á móti hafa fyrirtæki á þessum markaði tekið á sig framlegðarskerðingu og með því móti lagt sitt af mörkum til að vinna bug á verðbólgunni sem er hinn sameiginlegi óvinur atvinnulífs og heimila.

SMELLIÐ HÉR til að nálgast greinina á Visir.is

Strengjum áramótaheit

Strengjum áramótaheit

Grein er birtist í Morgunblaðinu 7.janúar 2023 frá formanni SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

Strengjum áramótaheit 2023

Strengjum áramótaheit

Flestum líður best í stöðugu ástandi og bera jólahefðir þess merki. Við endurtökum leikinn ár eftir ár, sama steikin, sömu jólalögin og sama fjölskyldan safnast saman í jólaboðum. Við horfum á sömu kvikmyndirnar og meðtökum sama boðskapinn. Jafnvel á Tene snæddu íslenskir ferðamenn skötu og jólahangikjöt. Svo sprengjum við okkur leið út úr árinu og inn í nýtt ár, byrjum að nýju eftir að hafa rifjað upp liðið ár undir leiðsögn höfunda áramótaskaups og fréttaannála.

Eins og flestir standa atvinnurekendur á tímamótum um áramót. Rekstrarári lýkur og nýtt tekur við. Ársreikningur mun endurspegla athafnir fyrra árs en áætlunum er ætlað að skapa vissan fyrirsjáanleika um gerðir þess næsta. Liðnu ári er ekki unnt að breyta, atburðir þess eru orðnir að reynslu. Nú þarf að huga að því hvernig næsta ár mun þróast.

2022 ár árskorana fyrir fyrirtæki landsins.

Árið 2022 var fyrirtækjum ár áskorana. Snemma árs losnuðu allir sem betur fer undan beinum áhrifum sóttvarnarráðstafana, samkomutakmarkana og jafnvel lokana. Óbeinu áhrifin sitja þó í mörgum tilvikum eftir í formi hás innkaupsverðs vara og jafnvel birgðaskorti. Það bættist í safn áskorana þegar stríðsrekstur Rússa hófst í Úkraínu. Enn hækkaði innkaupsverð og í mörgum tilvikum þurfti að leita á ný mið við öflun vara. Það brotnuðu keðjulásar í virðiskeðju heimshagkerfisins. Allir sitja uppi með þá staðreynd að verðbólgudraugurinn er genginn aftur.

Það er verkefni ríkisstjórnar, Alþingis og sveitarfélaga að stýra þjóðarskútunni í átt að lygnari sjó og verkefni seðlabankans að lægja öldur peningamála. Í ýmsu tilliti tryggðu stjórnvöld að skipið hélt vel vatni þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst. Fyrirtækjum í nauð voru sendar líflínur sem drógu úr neikvæðum áhrifum á launþega. Á heildina litið tókst fyrirtækjum í verslun og þjónustu vel til, almenningi og öðrum fyrirtækjum til heilla. Breyttar áherslur neytenda urðu þess valdandi að hlutur stafrænnar verslunar og þjónustu hefur aukist og samfara hafa skapast tækifæri til hagræðingar og frekari breytinga. Ætla má að reynslan hafi gert fyrirtækin betur í stakk búin til að takast á við breytingar en áður. Við erum komin í var undir Grænuhlíð og þó dregið hafi úr storminum eru veðurhorfur hið minnsta óljósar.

Kjarasamningar á óvissutíma.

Í ljósi óvissu varð gildistími gerðra kjarasamninga frekar stuttur og því munu viðræður um það sem við tekur hefjast á árinu. Á sama tíma eru hagvaxtar- og verðbólguhorfur í Evrópu dökkar og á heimsvísu útlit fyrir að verulega hægi á vexti. Hækkandi orkuverð og hækkandi vextir geta dregið hratt úr erlendri neyslu og fjárfestingu. Ferðamönnum er tekið að fjölga að nýju en ferðaþjónustan er enn að rétta úr kútnum. Við fyrirtækjum í þeim geira blasa þau verkefni að bæta skuldastöðu og efla eigið fé til rekstrar og uppbyggingar. Við fyrirtækjum í verslun og þjónustu blasa fordæmalausar og kostnaðarsamar breytingar í ljósi tækniþróunar, áherslna á sjálfbærni og þörf á að efla þekkingu starfsfólks. Forsendur verðmætasköpunar eru í ýmsu tilliti brothættar.

Vonir um bjarta framtíð munu aðeins raungerast ef allir leggja sitt af mörkum. Sjaldan hefur þörf fyrir ábyrgt mat seðlabankans verið sterkari. Undir þessum kringumstæðum þurfa ríkisstjórnin, Alþingi og sveitarfélög í sameiningu að tryggja skynsamlegar forsendur til skemmri og lengri tíma. Í því samhengi eru jákvæð áhrif á hagkerfið lykilorðin. Fjárfesting þarf að styðja hagræðingu og verðmætasköpun og endurskoðun tekjuöflunar þarf að tryggja eðlilega þátttöku í kostnaði. Til að mynda þarf að huga betur að orkuskiptum í landi hagstæðs orkuverðs og á tímum umbreytinga er endurskoðun forsendna fasteignaskatts, tekjustofns sveitarfélaga, afar brýn. Þá gegna aðilar vinnumarkaðarins vissulega afar mikilvægu hlutverki. Þeir þurfa m.a. að tryggja að til staðar séu forsendur til hagræðingar í rekstri svo atvinnurekendum verði betur fært að mæta hækkandi rekstrarkostnaði án víðtækra áhrifa á verðlag. Í sama skyni þurfa neytendur að sýna því skilning að samhengi er milli kostnaðar sem hlýst af háu þjónustustigi og verðlagningar vöru og þjónustu.

Búum afkomendum okkar stöðugt efnahagslíf.

Ekki eru alltaf jólin en jólatíðin kemur sem betur fer alltaf aftur. Þess á milli sköpum við ró með efnahagsástandi sem gerir okkur fært að takast á við mögulegar áskoranir. Við skulum saman strengja þess heit að búa afkomendum okkar stöðugt efnahagslíf og von um góða framtíð.

Höf. Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.

Orkukreppan í Evrópu leikur fyrirtæki í verslun grátt.

Orkukreppan í Evrópu leikur fyrirtæki í verslun grátt.

Orkukreppan sem nú gengur yfir í Evrópu, hefur þegar kveikt á aðvörunarbjöllum hjá fyrirtækjum í verslun, bæði í smásölu og heildsölu. Að mati EuroCommerce, Evrópusamtaka verslunarinnar, mun fjöldi fyrirtækja í greininni stefna í alvarlega rekstrarerfiðleika af völdum orkukreppunnar, komi ekki til opinber aðstoð í einhverri mynd. EuroCommece vekur sérstaka athygli á að í húfi sé framtíð þeirra 5 milljóna fyrirtækja sem starfandi eru í smásölu og heildsölu í álfunni. Þessi fyrirtæki hafa um 26 milljónir starfsmanna, en verslunin er sú atvinnugrein sem veitir flestu fólki vinnu í Evrópu. Um 12% vinnuafls í álfunni starfa við verslun.

Í könnun sem EuroCommerce gerði meðal aðildarfyrirtækja sinna kemur fram að orkukostnaður verslunarfyrirtækja hefur í sumum löndum fjórfaldast á stuttum tíma, eða frá því að stríð braust út í Úkraínu í febrúar s.l. Að mati samtakanna er mikilvægt að veita fyrirtækjum í verslun aðstoð á sama hátt og fyrirtækjum í ýmsum öðrum atvinnugreinum, sem þegar hefur verið veitt umtalsverð opinber aðstoð í einstökum aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Ákall EuroCommerce til framkvæmdastjórnarinnar og stjórnvalda í einstökum aðildarríkjum, er því að komið verði til móts við fyrirtæki í verslun á þessum sérstöku tímum. Samtökin leggja áherslu á að þar verði um tímabundna aðgerð að ræða, sem gangi til baka þegar orkumarkaðurinn hefur náð jafnvægi á ný. Samtökin daga sérstaklega fram mikilvægi verslunarinnar sem tengiliðarins milli framleiðenda og neytenda, þannig að ef vegið verður að rekstrargrunvelli fyrirtækja í verslun, muni slíkt hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir afkomu heimilanna.

Sú staða staða sem er uppi í orkumálum í Evrópu varpar skýru ljósi á þá öfundsverðu stöðu sem við Íslendingar erum í að þessu leyti.

Nánar má sjá umfjöllun EuroCommerce á meðfylgjandi tengli:https://www.eurocommerce.eu/2022/09/retail-and-wholesale-and-the-energy-crisis-an-urgent-need-for-support/