29/04/2025 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, vekur athygli á áformum stjórnvalda um auknar álögur á fyrirtæki og einstaklinga í tengslum við vegamál. Í nýrri grein á Vísi bendir hann á mikilvægi þess að tryggja að nýir skattar renni raunverulega til uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins.
„Það er ekki ósanngjörn krafa að nægilegu fjármagni sé á hverjum tíma veitt í vegamál,“ segir Benedikt og undirstrikar að góð vegamannvirki séu lykilforsenda verðmætasköpunar og hagkvæmrar nýtingar framleiðsluþátta.
Benedikt gagnrýnir einnig skort á gagnsæi í skattlagningu og bendir á að stjórnvöld hafi ekki alltaf tryggt að tekjur af ökutækjum og eldsneyti fari beint í vegamál. Hann kallar eftir ábyrgð og skýrleika í fjármálum ríkisins til að endurheimta traust almennings og atvinnulífsins.
Grein Benedikts má lesa í heild sinni á Vísi: Smelltu HÉR!
23/12/2024 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Viðskiptablaðið birti 21.desember sl. grein eftir Kristinn Má Reynisson, lögfræðing SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu:
Þegar stjórnvöld vita betur
Þegar stjórnvöld eru innt eftir því hvers vegna matvælaverð er hærra á Íslandi en á víðast hvar á meginlandi Evrópu, ætti svarið að vera einfalt. Ísland er fámenn eyja á norðurhjara veraldar. Punktur! Ekkert annað ætti að geta útskýrt stöðuna. Við nánari skoðun kemur því miður í ljós að aðkoma stjórnvalda er meðal ástæðna fyrir þessum verðmun.
Virk samkeppni virkar
Eitt öflugasta verkfærið sem stjórnvöld hafa til að bæta hag neytenda er að tryggja virka samkeppni. Í virku samkeppnisumhverfi hagnast neytendur, því þeir geta valið hagstæðustu tilboðin, út frá verði og gæðum.
Framleiðendur keppast þá við að framleiða vöru eða þjónustu sem hefur ákjósanlegustu samsetningu verðs og gæða í augum neytenda. Sé samkeppni ekki til staðar, er hætt er við því að verð og gæði endi hins vegar í því sem hentar framleiðandanum best. Þetta er í hugum flestra nokkuð auðskilið. Og þess vegna er samkeppnislöggjöfinni ætlað að standa vörð um samkeppni, ekki einstaka samkeppnisaðila.
„Við nánari skoðun kemur því miður í ljós að aðkoma stjórnvalda er meðal ástæðna fyrir þessum verðmun.“ ~ Kristinn Már Reynisson
Hver kýs hærra matvælaverð?
Með því að leggja tolla á innflutta matvöru hamla stjórnvöld virkri samkeppni á grundvelli verðs og gæða. Sú afleiðing, að verð til neytenda hækki, er ekki hliðarvirkni af tollafyrirkomulagi, heldur bókstaflega tilgangur tolla.
„Með tollum á innflutta matvöru halda stjórnvöld því matvælaverði á Íslandi viljandi hærra en þörf krefur.“
Ólíklegt hlýtur að teljast að kjósendur í nýafstöðnum Alþingiskosningum hafi greitt hærra matvælaverði sitt atkvæði og því verður að spyrja hvers vegna stjórnvöld ættu að kjósa hærra matvælaverð til hins almenna borgara.
Alþjóðleg viðskipti eru forsenda lífsgæða á Íslandi
Þrátt fyrir að tollar hækki verð til neytenda á Íslandi eiga tollar sína fylgismenn. Sú afstaða er m.a. varin með þeim rökum að án verndartolla leggist íslensk framleiðsla af. Þetta útskýrir þó illa hvers vegna verndartollar eru á vörum sem ekki eru framleiddar á Íslandi. Eða hvers vegna íslensk framleiðsla hefur ekki hafist á vörum sem njóta nú þegar tollverndar. Líkast til er það vegna þess að tollar eru klunnalegt verkfæri sem getur aðeins hækkað verð, meðan hvatar til framleiðslu eru vandmeðfarnari nákvæmnistól.
Þá ber einnig að hafa í huga að frá því Ísland byggðist, hefur lykillinn að velsæld falist í viðskiptum við útlönd. Vissulega er Ísland og íslensk efnahagslögsaga gríðarlega rík af auðlindum. En þessar auðlindir eru hins vegar ekki mjög fjölbreyttar. Þess vegna hafa Íslendingar ávallt verið og munu líkast til ávallt verða, háðir því að flytja út eigin framleiðslu, sem gerir kleift að kaupa fjölbreyttari framleiðslu hvaðanæva að úr heiminum.
Virk samkeppni um að selja íslenska vöru út og erlenda vöru til Íslands ætti því að vera keppikefli íslenskra stjórnvalda, sem umhugað er um velsæld almennings.
Hræðsluáróður um að Ísland þurfi að vera sjálfbært um allar lífsins nauðsynjar, og að án tolla á innfluttan varning verði því markmiði stefnt í hættu, stenst ekki skoðun. Sér í lagi vegna þess að hversu óraunhæft slíkt markmið er. Til að taka slíkan áróður trúanlegan þarf því að horfa frekar valkvætt bæði á Íslandsöguna og meginkenningar hagfræðinnar.
Þegar horft er til þess að það er íslenskur almenningur sem á endanum fjármagnar tolla á matvöru, hlýtur að mega krefja stjórnvöld um útskýringar á því hvers vegna hefðbundnar hagfræðikenningar um hagkvæmni og virka samkeppni skuli ekki eiga við um matarinnkaup almennings.
Gegn betri vitund
Því miður er ástæðan fyrir því að matvælaverð er hærra á Íslandi en á meginlandi Evrópu, ekki aðeins sú að við búum á fámennri eyju á norðurhjara veraldar, heldur er skýringa einnig að leita hjá stjórnvöldum og þeirri meðvituðu ákvörðun að nýta ekki til fulls það augljósa verkfæri sem virk samkeppni er. Stjórnvöld ættu að vita betur.
Sjá grein á VB.is HÉR!
25/10/2024 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Umhverfismál
Nýtt kílómetragjald þrengir að grænum skrefum fyrirtækja og heimila, þrátt fyrir yfirlýst loftslagsmarkmið stjórnvalda
Í nýju frumvarpi um kílómetragjald er stefnt að því að allir notendur vegakerfisins leggi til jafns í ríkissjóð eftir því sem þeir aka. Þótt markmið frumvarpsins sé að tryggja sanngirni, mun nýtt gjald sennilega auka kostnað grænni samgangna og í raun refsa þeim sem hafa þegar fjárfest í umhverfisvænum ökutækjum. Þeir sem áður treystu á fyrri hvata stjórnvalda til að skipta yfir í rafmagns- eða sparneytna bíla standa nú frammi fyrir verulega auknum álögum, á meðan kostnaður við rekstur eyðslufrekari ökutækja lækkar. Á sama tíma munu hækkanir einnig falla á ýmsar atvinnugreinar utan vegakerfisins, sem í ljósi aukins skattburðar gætu átt í erfiðleikum með að halda uppi sömu samkeppnisstöðu og lífskjörum.
Morgunblaðið birtir í dag grein frá Maríu Jónu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins og Benedikt S. Benediktssyni, framkvæmdastjória SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu undir fyrirsögninni;
UM FARNA KÍLÓMETRA Í ÓHAMINGJUSÖMU HJÓNABANDI
Næsta skref í nýju tekjuöflunarkerfi fyrir ökutæki og eldsneyti var lagt fram á Alþingi þann 22. október af fjármála- og efnahagsráðherra, í formi lagafrumvarps um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja. Eigendur raf- og tengiltvinnbíla þekkja fyrsta skrefið. Markmiðið, samkvæmt frumvarpshöfundi, er að allir sem nota vegakerfið greiði gjald í samræmi við notkunina, innan sama kerfis.
Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti
Þrátt fyrir ætlað sanngirnimarkmið frumvarpsins mun það hafa verulegar afleiðingar og margir munu finna fyrir ójafnri ábyrgð.
Á næsta ári munu:
1. Eigendur rafmagnsfólksbíla greiða um 12% hærra kílómetragjald en á þessu ári.
2. Eigendur smábíla sem eyða 5 lítrum af bensíni á hundraðið greiða 19,2% meira en á þessu ári.
3. Eigendur jeppa og annarra stærri fólksbíla sem eyða 15 lítrum á hundraðið greiða 7% minna en á þessu ári.
4. Eigendur eyðslufrekra vöruflutningabíla greiða 8,9% minna en á þessu ári.
5. Eigendur hreinorku vöruflutningabíla greiða 3,1% meira en á þessu ári.
Samkvæmt frumvarpshöfundi er markmiðið að tryggja að allir greiði sanngjarnt gjald fyrir notkun vegakerfisins. Sanngirni er honum augljóslega ofarlega í huga. Hins vegar sýna áhrifin, sem rakin hafa verið, að þeir sem hafa fjárfest í grænni tækni munu bera þyngri byrðar á meðan þeir sem nýta eyðslufrekari ökutæki hagnast.
„Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang“
Í aðdraganda hjúskapar síðustu ríkisstjórnar var gerður kaupmáli sem frumvarpið vísar til. Samkvæmt skoðanakönnunum voru skilnaðarbörnin, þegnarnir, því fegnir að því sambandi lyki. Ekkert barnanna átti hins vegar von á að fá reikning fyrir búskiptunum.
Fyrirsögnin hér að ofan er tekin úr kaupmálanum en óhætt er að segja að efni hans endurspeglaði bjartsýni. „Markmiðið er að bæta lífskjör þeirra sem verst standa og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Áfram verður unnið að því að breytingar á sköttum og gjöldum styðji við loftslagsmarkmið.“
Um síðustu áramót tóku gildi lagabreytingar sem urðu þess valdandi að dýrara varð að fjárfesta í fólksbifreið sem eyðir litlu eða engu. Á sama tíma var eignarhald bifreiðanna gert óhagstæðara með hækkun bifreiðagjalds og upptöku kílómetragjalds.
Lagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir er ætlað að bæta ríkinu tekjumissi vegna ökutækja og það mun að óbreyttu raungerast. Í þeim efnum er markmiðið að tekjurnar nemi rúmum 102 milljörðum kr. árið 2029, sé tekið mið af spá Hagstofunnar um þróun landsframleiðslu. Til samanburðar námu tekjurnar tæpum 52 milljörðum kr. árið 2023.
Markviss skot geiga síður
Með frumvarpinu er ætlunin að afnema aðra eldsneytisskatta en kolefnisgjald sem hækka mun 100%. Kílómetragjaldið á að stoppa í gatið sem myndast og rúmlega það. Hugmyndafræðin er sú að allir ökutækjaeigendur sem teljast hafa sambærileg áhrif á vegakerfið greiði það sama.
„Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang“ sagði ríkisstjórnin.
Afleiðingar frumvarpsins, sem voru raktar hér að framan, bera þess ekki vott að loftslagsmál séu lengur í forgangi. Ekki er lengur gert ráð fyrir að skattar á eigendur ökutækja styðji loftslagsmarkmið. Sjálfur vegurinn er mönnum hins vegar ofarlega í huga og það á að sækja meira skattfé í hann og ríkissjóð en hliðaráhrifin eru orðin aukaatriði.
Hliðaráhrifin
Eins og glögglega má sjá af framangreindri upptalningu afleiðinga mun frumvarpið veikja hvata til orkuskipta í samgöngum. Núverandi kerfi hefur veitt talsverða hvata til einstaklinga og fyrirtækja sem hafa aðlagað sig bæði með kaupum á eyðslugrönnum og umhverfisvænum ökutækjum sem eyða engu eða litlu jarðefnaeldsneyti. Með þessu frumvarpi, ásamt skattabreytingum síðasta árs, birtist sú mynd að þessi aðlögun hafi frekar verið eins og að taka lán og nú sé gjalddagi kominn. Þeir sem hafa fylgt hvötum standa nú frammi fyrir auknum kostnaði, sem birtist hver á fætur öðrum.
Umfjöllun frumvarpsins beinist nær öll að umferð á vegum. Þess er hins vegar lítt getið að áhrifin verði víðtækari en svo að aðeins notkun veganna sé undir. Tvöföldun kolefnisgjalds lendir á þeim sem ekki nota vegi í sinni starfsemi. Eigendur báta, þeir sem hita hús með olíu, iðnaðurinn, landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn og eigendur staðbundinna tækja á borð við ljósavélar taka á sig verulega hækkun álaga. Ef fram fer sem horfir munu álögur á strandsiglingar hækka á sama tíma og Vegagerðin er að skoða hvernig þá megi efla eftir skipun hins nýfráskilda innviðaráðherra.
Úr hvaða veski?
En hver mun greiða? Atvinnulífið, svaraði nýskilinn innviðaráðherrann. Flestir gera sér grein fyrir að svarið er ekki einlægt því skattar rata í verðlag vöru og þjónustu. Þeir sem hafa fjárfest í eyðslugrannri bifreið munu greiða og þá helst þeir sem fara þurfa langan veg. Sama á við um þá sem þurfa á vöruflutningi að halda og þá helst þeir sem reka starfsemi langt frá vörudreifingarmiðstöðvum og verslunum. Eigendur smábáta munu greiða, bændur munu greiða, iðnaðurinn mun greiða o.fl.
Á endanum munu tveir hópar fá reikninginn, annars vegar neytendur, líklega fá neytendur á landsbyggðinni hann hæstan, og hins vegar viðskiptavinir útflutningsfyrirtækjanna. Verði staða útflutningsfyrirtækjanna slík að þau geti ekki hækkað verð munu þau sitja uppi með reikninginn með mögulegum áhrifum í heimabyggð.
Tækifæri til úrbóta
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu og Bílgreinasambandið hafa þegar komið á framfæri ábendingum um hvernig megi milda áhrif frumvarpsins og munu halda því áfram. Fróðlegt verður að sjá hvort þingmenn í kosningaham muni gefa sér tíma til að leggja við hlustir.
Höfundar: María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins og Benedikt S. Benediktsson framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
_____________________

09/07/2024 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Visir.is birtir í dag grein eftir Benedikt S. Benediktsson, lögfræðing SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu undir fyrirsögninni; ‘Um traust og vantraust’
Um traust og vantraust
Traust er ein meginundirstaða viðskipta. Alþingi hefur í ýmsu tilliti stutt við bak einstaklinga og ýmissa hópa til að stuðla að jafnri stöðu í viðskiptum. Til grundvallar liggur sú hugmynd að jöfn staða stuðli að trausti og tilvist trausts liðki fyrir viðskiptum. Viðskipti eru meðal forsendna þróunar, framleiðni, nýsköpunar, tæknibreytinga o.fl.
Slíkar hugmyndir liggja að baki fjölmörgum lagabálkum sem lúta að samningum. Neytanda sem kaupir vöru í netverslun er samkvæmt lögum heimilt að skila henni allt að 14 dögum eftir pöntun enda hefur hann ekki fengið tækifæri til að sjá hana berum augum. Af svipuðum meiði er í samkeppnislögum lagt bann við ýmiskonar samstarfi fyrirtækja enda geta áhrif þess á neytendur verið alvarleg og þeim algerlega á huldu. Allir þekkja alvarlegar afleiðingar brota gegn því banni og því skapar bannið traust.
Að efla traust
Árið 2021 heimilaði Samkeppniseftirlitið þremur fyrirtækjum á sviði kjötafurða að sameinast þrátt fyrir að slíkt samstarf væri í raun bannað í ljósi neikvæðra áhrifa á samkeppni og þar með á neytendur og bændur. Málinu lauk með sátt, hið sameinaða fyrirtæki skuldbatt sig til að takast á hendur skilyrði sem áttu að tryggja að dregið yrði úr áhrifunum. Í fyrsta lagi skuldbatt fyrirtækið sig til að standa ekki í vegi fyrir því að bændur færðu viðskipti sín annað eftir sameininguna. Í öðru lagi skuldbatt það sig til að aðgreina slátrun og vinnslu í eigin bókhaldi og lúta skorðum og reglum við verðlagningu á slátrun, sögun og annarri nánar skilgreindri þjónustu í tiltekinn tíma. Í þriðja lagi skuldbatt fyrirtækið sig til að selja frá sér eignarhluti í samkeppnisaðilum. Í fjórða lagi skuldbatt það sig til að eiga áfram, um tiltekinn tíma, viðskipti við fyrirtæki sem voru því mjög háð þannig að þau dyttu ekki af markaði vegna samrunans. Í fimmta og síðasta lagi skuldbatt fyrirtækið sig til að setja sér samkeppnisstefnu, tryggja að unnið væri eftir sáttinni og m.a. að haldin yrði skrá um samskipti við samkeppnisaðila. Orðin „gagnsæi“ og „afltakmörkun“ eru e.t.v. ágæt til að lýsa skilyrðunum. Brot gegn sátt hefur afleiðingar.
Annars konar traust
Eins og þekkt er tók Alþingi sérstakt skref fyrir skemmstu. Orð stjórnmálamanna bera með sér að tilteknum fyrirtækjum sé frekar treystandi en öðrum. Nýfengið traust Alþingis endurspeglaðist í breytingum sem gerðar voru á búvörulögum, að frumkvæði meiri hluta atvinnuveganefndar, sem hafa það m.a. í för með sér að skilyrði á borð við þau sem Samkeppniseftirlitið setti árið 2021 þurfa ekki að vera uppfyllt lengur. Það var niðurstaða hagsmunamats Alþingis að traust til eigenda fyrirtækjanna væri svo ríkt að óþarft væri að gæta að stöðu bænda og neytenda, óþarft væri að tryggja gagnsæi og afltakmarkanir væru óþarfar.
Um helgina voru fluttar fréttir af kaupum KS á Kjarnafæði Norðlenska. Af ummælum sem fallið hafa má draga þá ályktun að traust Alþingis hafi í raun ráðið niðurstöðunni. Samþjöppun er leyfileg og markaðsafl sameinaðs fyrirtækis eykst. Stjórnmálamenn og talsmenn bænda virðast í ýmsu tilliti enn sannfærðir, leyfa sér að treysta því að stöðu bænda verði ekki ógnað og að ekki verði gengið á stöðu neytenda. Hryggilegast er að það gætti sameiginlegs skilnings á hagræðingarþörf í framleiðslu nautgripa- og lambakjöts og að stöðu bænda þyrfti að bæta. Það var viðfangsefni lagafrumvarps matvælaráðherra sem Alþingi breytti með þeim hætti að stuðningurinn sem til stóð að veita endaði hjá viðsemjendum þeirra. Þá hefur engin vakið máls á vanda framleiðslu svína- og kjúklingakjöts eða eggja. Afurðastöðvum í þeim bransa treysti Alþingi á sama hátt og öðrum.
Vantraust?
Ekki fyrr en eftir u.þ.b. þrjú ár mun matvælaráðherra flytja Alþingi skýrslu og segja frá hvernig til tókst, upplýsa hvort fyrirtækjunum hafi í raun og veru verið treystandi. Í millitíðinni er Samkeppniseftirlitinu ætlað að passa upp á að fyrirtækin sem Alþingi treysti safni afurðum frá öllum bændum á sama verði, selji þær öðrum fyrirtækjum á sömu viðskiptakjörum og tengdum fyrirtækjum, hamli því ekki að bændur fari með viðskipti sín annað og haldi úti þjónustuúrvali við bændur um afmarkaða þætti. Á þeim tíma má beinlínis gera má ráð fyrir að mun fleiri fyrirtæki muni hefja samstarf, sameinast og efla afl sitt í ljósi þess trausts sem Alþingi hefur sýnt þeim enda mega þau óáreitt bergja af þeim brunni. Afleiðingar yfirsjóna verða engar.
Að rúmlega þremur árum liðnum verður fyrst hægt að sjá hvernig ógagnsæið og aflaukningin nýttist fyrirtækjunum, hvort traustið var þess virði. Á þeim tímapunkti verður okkur fyrst fært að átta okkur á hvort og hvernig þau huguðu að stöðu bænda og neytenda og gengu ekki á stöðu samkeppnisaðila. Þá fyrst er okkur ætlað að ræða hvers vegna fyrirtækjunum var treyst og þá fyrst ræðum við mögulega um fyrirtækið eitt, kjötafurðastöð Íslands.
Á tímum vantrausts
Samkeppniseftirlitið hefur verið vængstíft m.t.t. háttsemi tiltekinna fyrirtækja og við það munum við því miður búa næstu árin. Undir þeim kringumstæðum getum við annað hvort látið þetta yfir okkur ganga eða gripið til eigin aðgerða.
Verkefnið er að veita aðhald sem jafnast á við það sem Samkeppnieftirlitið getur ekki veitt lengur. Verslunin og samkeppnisaðilar verða að beita sér og tjá sig og neytendur líka, m.a. með buddunni. Bændur verða að gæta sín og vera tilbúnir til viðspyrnu. Að óbreyttu mun engin annar gæta þess að ábati hagræðis rati til neytenda og bænda en ekki eitthvert annað.
Greinin inn á visir.is
06/02/2024 | Fréttir, Greinar, Verslun
Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) birtir í dag niðurstöður netverslunar fyrir árið 2023. Þar kemur m.a. fram að Íslendingar versluðu mest í erlendri netverslun frá Kína eða fyrir rúmlega 6 milljarða króna árið 2023 en við Íslendingar versluðum fyrir 27,4 milljarða króna í erlendri netverslun árið 2023. Í öðru sæti eru Bandaríkin með 4,2 milljarða króna en Bretland situr í þriðja sæti með 3,2 milljarða króna. Þýskaland og Holland fylgja svo fast á eftir. Hollendingar slá Víetnam úr fimmta sæti frá árinu 2022 en innflutningur frá Hollandi tvöfaldaðist milli ára. Kína sat einnig á toppnum fyrir árið 2022 með 6,2 milljarða króna af 23,9 milljörðum sem fóru í erlenda netverslun.
Innlend netverslun hækkar um 20,8% á milli ára
Innlend netverslun fyrir árið 2023 nam 50,4 milljörðum króna og hækkar um 20,8% á milli ára á meðan erlend netverslun nemur 27,4 milljörðum króna og hækkar um 14,6% á milli ára. Verslun á netinu í dagvöruverslunum innanlands hefur aukist um 48,7% á milli ára og má telja að landsmenn hafi verið duglegir að nýta sér tækni dagvöruverslana á árinu sem leið.
SMELLTU HÉR fyrir greinina inná RSV.
12/12/2023 | Fréttir, Greinar, Verslun
Kortavelta Íslendinga í nóvember fór uppí 91,64 milljarða króna, sem er hækkun um 5,6% á ári samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknasetri verslunarinnar [RSV].
Erlend kortavelta nemur 17,15 milljörðum króna og hækkar um 3,7% á ári.
RSV bendir einnig á í tilkynningu sinni að;
- Netverslun Íslendinga eykst um 15,1% á s.l. 12 mánuðum og er 18 milljarðar króna í nóvember mánuði.
- Kortaverslun í dagvöruverslunin blómstrar líka í nóvember á 23,2 milljörðum krónum, sem er hækkun um 17,2% á ári.
- Fataverslunin nýtir einnig vel af sér, með 4,07 milljörðum króna kortaveltu í nóvember, sem er hækka um 8,8% á ári.
Rannsóknasetur verslunarinnar RSV birtir reglulega kortaveltugögn á Veltunni, www.veltan.is.
Kortaveltan er sundurliðuð eftir þjóðerni og tegundum verslana og þjónustu auk þess sem netverslun er sundurgreind frá verslun í búðum og kortavelta erlendra ferðamanna er skoðuð sérstaklega.
Síða 1 af 1612345...10...»Síðasta »