Fasteignaskattur íþyngir sem aldrei fyrr

Fasteignaskattur íþyngir sem aldrei fyrr

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ skrifar eftirfarandi grein sem birtist í Morgunblaðinu 4. júlí sl.:

Tekjur sveitarfélagana af fasteignaskatti hafa aukist gífurlega á undanförnum árum, langt umfram almenna verðlagsþróun og hafa sveitarfélögin aldrei haft jafn miklar tekjur af þessum skatti og nú. Á meðan árleg hækkun almenns verðlags undanfarin ár hefur verið á bilinu 2-3 % hefur skattheimta í formi fasteignaskatts á sama tíma aukist um 14-18% á ári. Ástæðan er einfaldlega breytt aðferð við útreikning skattsins sem Þjóðskrá tók upp árið 2015.

Erlendur samanburður

Það er ekki aðeins að fasteignaskattur sé hár í sögulegu samhengi heldur einnig í alþjóðlegum samanburði. Samanburður við hin ríki Norðurlandanna sýnir að fasteignaeigendur hér á landi greiddu 1,5% af vergri landsframleiðslu í fasteignaskatt 2016, sem er nær tvöfalt hærra hlutfall en í hinum Norðurlandaríkjunum. Þó að markaðsverðmæti húsnæðis sé stofn til útreiknings fasteignaskatts þar eins og hér, er ástæða fyrir minni skattheimtu í þessu formi þar sú, að bæði er skattprósentan mun lægri í öllum hinum Norðurlandaríkjunum og síðan ræður markaðsverðið ekki eingöngu stofni skattsins eins og hér á landi. Sérstök varúðarregla, sem notuð er í öllum hinum ríkjum Norðurlandanna, kemur í veg fyrir að markaðsverðmæti húsnæðis sé alfarið notað sem skattstofn. Hámarksálagning fasteignaskatts af atvinnuhúsnæði er 1,65% hér á landi. Í hinum Norðurlandaríkjunum er þetta hlutfall á bilinu 0,5-1,0% og getur aldrei orðið hærra en 80% af markaðsvirði viðkomandi eignar.

Leggst þyngst á atvinnuhúsnæði

Þrátt fyrir að verðmæti atvinnuhúsnæðis sé einungis um 20% af heildarverðmæti alls húsnæðis í landinu, skilar fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði sveitarfélögunum 55% þeirra tekna sem innheimtar eru í formi fasteignaskatts. Reikna má með að tekjur sveitarfélagana í landinu af fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði hafi numið um 23 milljörðum króna árið 2018 og hafi hækkað um 2,3 milljarða króna á milli ára, hjá stærstu sveitarfélögunum.

Reykjavíkurborg er sér á báti

Stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavíkurborg, er sér á báti í samanburði við önnur sveitarfélög þegar kemur að innheimtu fasteignaskatts. Þar sem meirihluti alls atvinnuhúsnæðis á landinu er staðsettur í höfuðborginni, rennur meirihluti alls fasteignaskatts af atvinnuhúsnæði til borgarsjóðs Reykjavíkur. Tekjur borgarinnar af skattinum jukust um 1,5 milljarða frá 2018 til 2019. Borgin heldur áfram hæstu álagningarprósentu fasteignaskatts fyrir árið 2019, öfugt við ýmis nágrannasveitarfélög. Eins og ljóst má vera hefur hin mikla hækkun leitt til þess að skatturinn vegur sífellt þyngra í rekstri heimila og fyrirtækja. Óhjákvæmilega hefur þessi þróun leitt til hærra leiguverðs atvinnuhúsnæðis og þar með til víxlverkunar hækkandi fasteignamats og leiguverðs. Með þessu áframhaldi mun aðdráttarafl höfuðborgarinnar sem atvinnusvæðis minnka og þau fyrirtæki sem þess eiga kost munu leita annað með atvinnurekstur sinn.

Stjórnvöld grípi inn í

Stjórnvöld verða að grípa hér inn í. Það er ekki með nokkru móti hægt að una við að breytt aðferð Þjóðskrár við útreikning fasteignaskatts hafi leitt af sér þá gífurlegu skattahækkun sem hér er lýst. Fasteignaeigendur, bæði að íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði, hljóta að gera þessa kröfu og stjórnvöld hafa í hendi sér aðferðina við að tryggja að skipan þessara mála komist í ásættanlegt horf.

Drögum úr sykurneyslu – en án ríkisafskipta

Drögum úr sykurneyslu – en án ríkisafskipta

Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Morgunblaðinu 28. júní sl.

Enn á ný hafa hugmyndir um upptöku sykurskatts skotið upp kollinum. Þar með gengur aftur gamall draugur sem flestir töldu að hefði verið kveðinn niður fyrir fullt og allt. En lengi er von á einum enda er hið pólitíska umhverfi frjór jarðvegur fyrir allar hugmyndir um öflun meiri ríkistekna í formi skattheimtu.

Og sagan endurtekur sig eins og sagt er því þetta form skattheimtu er ekki nýtt af nálinni. Í stjórnartíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, 2009–2013, var skattur í formi vörugjalds lagður á sykur og sykraðar vörur. Árangur þeirrar skattheimtu reyndist hins vegar dapur. Skattheimtan var afar flókin í framkvæmd, hún var dýr fyrir fyrirtæki og hið opinbera og skilaði hlutfallslega litlum tekjum í ríkissjóð. Samkvæmt könnun Rannsóknarseturs verslunarinnar hafði skatturinn lítil sem engin áhrif á neysluhegðun fólks. Niðurstaðan var sú að næsta ríkisstjórn sem við tók beitti sér fyrir afnámi sykurskattsins, m.a. á grundvelli tillagna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og á það féllst Alþingi.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá árum sykurskattsins. Til þess ber að líta að neysluhegðun fólks hefur tekið stórstígum breytingum á undanförnum árum. Miðlægar upplýsingar um neyslu og innihaldsefni matvæla eru orðnar gamlar og gefa alls ekki rétta mynd neyslumynstri dagsins í dag. Ef litið er til nágrannaríkja okkar gefur t.d. nýleg könnun sem gerð var á neysluhegðun Svía þá mynd að ótrúlegar breytingar hafi orðið á hegðuninni sl. áratug.

Vöruframboð innlendrar verslunar ræðst óhjákvæmilega af eftirspurn. Hver hillumetri er verslunum afar verðmætur og staðsetning vöru skiptir máli. Í því ljósi er matvöruverslunin stöðugt vakandi fyrir nýbreytni og breytingum á áherslum neytenda. Síðustu ár hefur þróun í matvöruverslun tekið æ ríkara mið af breyttum áherslum og hegðun neytenda. Ört stækkandi hluti neytenda leggur áherslu á að neyta hollrar fæðu og sá hópur sneiðir kerfisbundið hjá sykruðum og fituríkum matvælum. Viðbrögð verslunarinnar endurspeglast í þeim stórkostlegu breytingum sem hafa orðið í vöruframsetningu þar sem nú er lögð mikil áhersla á að hafa hollustuvörur eins og ávexti, grænmeti o.fl. sem mest áberandi. Að sama skapi hefur framsetning sælgætis og sykraðra drykkja færst á síður áberandi staði. Ástæðan er í meginatriðum sú að neytendur vita hvað þeir vilja, hafa skýra hugmynd um afleiðingar neyslu matvæla og velja því hollustu.

Stjórnmálamenn hafa lengi haft ríka tilhneigingu til að hafa vit fyrir fólki. Öflun ríkistekna með aðferðum sem hafa jákvæðan blæ er vinsæl um þessar mundir. Í þetta skiptið á skatturinn að bæta hressa og kæta og að jafnvel gefa hraustlegt og gott útlit. En ríkiskassinn má hins vegar fitna á kostnað neytenda!

Umbreyting í smásölu – störf hverfa og ný verða til

Umbreyting í smásölu – störf hverfa og ný verða til

Ingvar Freyr Ingvarsson, aðalhagfræðingur SVÞ, skrifar í Viðskiptablaðið 29. maí sl.:

Umhverfi þeirra sem vinna við smásölu breytist hratt um þessar mundir. Á sama tíma og hlutfall atvinnulausra lækkar í Bandaríkjunum og störfum fjölgar á heildina litið í apríl um rúmlega fjórðung úr milljón fækkar störfum í smásölu þó velta hafi aukist.

Upplýsingar um þróun starfa í Bandaríkjum gefa glögga mynd af þeirri hröðu þróun sem á sér stað um þessar mundir í verslun og þjónustu. Grunngerð verslunarinnar er að breytast, m.a. vegna aukinnar netverslunar og annarra tengdra tæknibreytinga. Unnt er að greina áhrif bandarísku uppsveiflunnar á marga mismunandi vegu eftir því hvaða atvinnugrein á í hlut en upplýsingar um hlutfall atvinnulausra eftir atvinnugreinum gefa ágæta vísbendingu um hvert stefnir í þeim efnum.

Þegar heildarsamhengið er skoðað virðast þau störf sem skapast samfara aukinni smásöluverslun vegna góðs efnahagsástands einkum hafa orðið til í starfsemi sem flokkast undir vöruflutninga og vörugeymslu. Þetta bendir til þess að smásölustarfsemi sé í auknum mæli að færast yfir á netið og að stórir smásöluaðilar hafi í auknum mæli beint sjónum að rekstri vörugeymslu- og dreifingarmiðstöðva í stað hefðbundinna smásöluverslana. Þeir geta þannig jafnvel sleppt því að reka hefðbundnar sölubúðir. Afleiðingin er sú, að í stað þess að aukin umsvif í smásölu komi fram í auknum umsvifum í hefðbundnum verslunum, aukast vöruflutningar og umsvif í vörugeymslum (tiltektir og frágangur sendinga) í takt við stóraukin umsvif netverslananna.

Það er eðlilegt að undrun séu fyrstu viðbrögð margra við þessari þróun. Það er jafnframt eðlilegt að þeir sem þekkja vel til hefðbundins verslunarreksturs spyrji hvort þróunin sé alfarið af hinu góða. Þegar litið er til framþróunar í atvinnugreinum og þeirra áhrifa sem slíkar breytingar hafa á þjóðfélög og efnahagslíf virðast kostir netbundinnar verslunar yfirgnæfandi. Leiguverð vörugeymslu er mun lægra en leiguverð verslunarhúsnæðis í miðborgum eða í verslunarkjörnum. Auðveldara er að nýta sjálfvirkni í netbundinni verslun en í hefðbundinni verslun. Ný framleiðslutækni eykur jafnan framleiðni vinnuaflsins og aukin sjálfvirkni í framleiðslu getur lækkað kostnað fyrirtækja og þar með verðlag. Samhliða þessu verða oft til ný störf ásamt tilfærslu á vinnuafli milli atvinnugreina.

Þrátt fyrir þá óvissu sem verið hefur í Bretlandi vegna BREXIT hefur eftirspurn eftir vinnuafli aukist í Bretlandi að undanförnu. Atvinnustig þar er nú afar hátt í sögulegu samhengi. Samkvæmt gögnum frá systursamtökum SVÞ í Bretlandi (British Retail Consortium/BRC) fækkaði störfum í smásölu hins vegar á fjórða ársfjórðungi 2018 og fyrsta ársfjórðungi 2019. Er þá byggt á upplýsingum frá aðildarfyrirtækjum BRC sem saman telja rúman fimmtung af veltu á breskum smásölumarkaði. Tölurnar endurspegla leitni niður á við í smásölu sem einnig má sjá í gögnum bresku hagstofunnar. Eins og í Bandaríkjunum er atvinnuþróun í breskri smásöluverslun önnur en í hagkerfinu í heild en um þessar mundir er atvinnuþátttaka með því mesta sem um getur. Ástæðan virðist vera sú að smásölugeirinn þar er að ganga í gegnum sömu breytingar og í Bandaríkjunum. Ljóst er að ráðast þarf í fjárfestingar til að ná árangri á tímum umbreytinga en hætt er við að hiks gæti þar sem útlit er fyrir kostnaðarútlát vegna óvissu sem ríkir um stefnumörkun stjórnvalda.

Nýir möguleikar

Einhverjum kann að þykja sú þróun sem nú á sér stað í Bretlandi og Bandaríkjunum varhugaverð. Það er hins vegar vafasamt að horfast ekki í augu við framtíðina, láta skeika að sköpuðu, því eins og rakið hefur verið geta breytingar orðið á grunngerð þjóðarbúskaparins samfara tæknivæðingu og mörg störf tapast í einni atvinnugrein/geira á stuttum tíma. Sterkar vísbendingar eru hins vegar uppi um að á sama tíma opnist möguleikar á fjölgun starfa annarsstaðar í hagkerfinu. Það er því full ástæða til að gæta varúðar og undirbúa hraða aðlögun að breytingum og nýjum tækifærum sem skapast. Breytingar í rekstrarumhverfi verslunar og þjónustu kalla m.a. á nýja hugsun og breytt vinnubrögð innan menntakerfisins svo búa megi starfsfólk framtíðarinnar undir nýjan veruleika.

Þegar áætlanir eru gerðar og ákvarðanir teknar um framkvæmdir þurfa atvinnurekendur að velja milli fleiri eða færri möguleika við notkun á því fjármagni sem er fyrir hendi á hverjum tíma. Jafnan verður margt útundan og annað dregst úr hömlu. Við áætlunargerð þarf ekki aðeins að velja verkefni heldur einnig að ákveða tímasetningu og staðsetningu á markaði. Staðsetning á markaði skiptir oft ekki minna máli en tímasetningar og jafnvel ákvarðanataka um hvort ráðist er í aðgerð eður ei. SVÞ leggja áherslu á mikilvægi þess að fagfólk í verslun og þjónustu verði sem best í stakk búið til að aðlagast fyrirsjáanlegum breytingum og  geti nýtt sér tækifæri í heimi stafrænna lausna. Slíkur undirbúningur þarf að eiga sér stað í frum- og endurmenntun sem standi öllum landsmönnum til boða.

Nám á framhaldsskólastigi

Mjór er mikils vísir segir máltækið en næstkomandi haust hefst kennsla á nýrri stafrænni viðskiptalínu á framhaldsskólastigi í Verzlunarskóla Íslands. Línan er svar við örum breytingum á vinnumarkaði og þá sérstaklega í starfsumhverfi verslunar og þjónustu. Námslínan brýtur blað í sögu Verzlunarskólans þar sem vinnustaðanám í stafrænni verslun og þjónustu er hluti af náminu. Þannig tengir námið nemendur við atvinnulífið með beinum hætti og veitir þeim innsýn í starfsumhverfið en heldur einnig að þeim þeirri hröðu þróun sem á sér stað í verslun og þjónustu um þessar mundir. Með hvata að og aðkomu að undirbúningi þessa náms leggur SVÞ sitt lóð á vogarskálarnar til að mæta breyttum veruleika í íslenskri smásölu.

Einkarekstur eða ríkisrekstur

Einkarekstur eða ríkisrekstur

Eftirfarandi grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ um hlutverk einkarekstrar og ríkisrekstrar birtist í Fréttablaðinu og á Vísi í vikunni:

Í blönduðum hagkerfum gegnir hið opinbera jafnan tvenns konar hlutverki. Annars vegar hlutverki reglusetjara, sem einnig hlutast til um að einkageirinn fari eftir settum leikreglum, og hins vegar nokkurs konar stuðningshlutverki, þ.e. þegar það fæst við mótun stefnu og aðgerða sem tryggja eiga þróun innviða sem stuðla að hagvexti og heilbrigðri auðlindanýtingu. Einkageirinn stendur aftur á móti að jafnaði undir meginhluta hagvaxtar. Í því ljósi sætir almennur atvinnurekstur á vegum hins opinbera stöðugri gagnrýni, enda þurfa óvenjulegar aðstæður að vera uppi til þess að réttlætanlegt geti talist að opinberir aðilar standi í slíkri starfsemi. Megin­ástæðan er sú að einkaframtakið er jafnan mun betur búið til að takast á við hefðbundinn atvinnurekstur óháð atvinnugreinum.

Þeir hvatar sem eru til staðar í umhverfi einkarekstrar stuðla almennt að skynsamlegri nýtingu fjármuna enda stýrir eftirspurn því hvort vara eða þjónusta stendur til boða, í hvaða mæli og undir hvaða kringumstæðum. Til að setja umfjöllunina í samhengi má sem dæmi benda á að Raftækjasala ríkisins var aflögð fyrir mörgum áratugum og einnig einkasala ríkisins á eldspýtum. Nær aldarfjórðungur er síðan Lyfjaverslun ríkisins var komið í hendur einkaaðila og Bifreiðaeftirlit ríkisins var lagt af og starfsemin gefin frjáls að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þeir sem muna þá tíma þegar starfsemi þessara opinberu stofnana og fyrirtækja var „í blóma“, geta fæstir hugsað sér að starfsemi þeirra verði endurreist. Reynslan sýnir að starfsemin er mun betur komin í höndum einkaaðila.

 

Aukin umsvif hins opinbera

 

Í þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, er gengið út frá því að rekstrar- og heildarafkoma opinberra fyrirtækja aukist umfram væntar breytingar á verðlagi. Hafa verður í huga að frá efnahagshruninu hefur verið lögð áhersla á afkomubata hjá þessum fyrirtækjum, þó að árangurinn hafi ekki alltaf verið augljós. Myndin sem upp er dregin vekur nokkurn ugg því af henni má draga þá ályktun að ekki sé inni í myndinni að draga úr umsvifum hins opinbera í starfsemi sem einkageirinn gæti að mörgu leyti annast. Í því ljósi er fyrir löngu orðið tímabært að ráðist verði í heildarúttekt á þeim atvinnurekstri sem ríkið stendur ennþá fyrir. Í slíkri úttekt þyrfti fyrst og fremst að draga fram hvaða rök mæla með ríkisrekstri, þar sem hann er ennþá stundaður. Í þessu sambandi benda samtökin sérstaklega á rekstur ÁTVR, sem annast smásölu ríkisins á áfengi og framleiðslu neftóbaks og rekstur Fríhafnarinnar ehf., sem er dótturfélag Isavia ohf., og stundar verslunarrekstur með snyrtivörur, sælgæti, ferðamannanauðsynjar, áfengi og tóbak í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Starfsemi þessara fyrirtækja sætir reglulega gagnrýni, ekki síst vegna þeirrar einokunarstöðu sem þau njóta í skjóli ríkisvaldsins. Hér er rétt að minna á þau dæmi sem nefnd voru í upphafi, sem eru öll dæmi um einokunarrekstur sem hið opinbera stundaði, en ákvað góðu heilli að hverfa frá.

 

Þörf á allsherjarendurskoðun

 

Það eru fleiri svið þar sem full ástæða er fyrir hið opinbera að skoða með það að leiðarljósi að koma auga á hagræðingartækifæri sem felast í yfirfærslu starfsemi til einkaaðila. Að mati SVÞ er af nógu að taka í þeim efnum, en þar kemur starfsemi eftirlitsgeirans fyrst upp í hugann en hana mætti í mörgum tilvikum færa í í hendur faggiltra fyrirtækja, sem vinna eftir ströngu og faglegu evrópsku regluverki. Eins og fyrr var nefnt ákváðu stjórnvöld að færa bifreiðaskoðun frá hinu opinbera til einkaaðila fyrir rúmlega tuttugu árum. Reynslan af þeirri breytingu er nær undantekningarlaust góð. Því má spyrja hvort ekki sé ástæða til að feta þá slóð áfram. Í ljósi reynslunnar er rökrétt ályktun að það geti verið afar góður kostur.

SVÞ vilja því beina þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda að hefja allsherjarendurskoðun á þeim atvinnurekstri sem enn er stundaður af hinu opinbera. Samtökin vilja í því sambandi benda á, hvort auðveldasta leiðin til að ná markmiðum um bætta afkomu í opinberum rekstri, sé ekki einfaldlega að færa hann yfir til einkaaðila.

 

 

 

Samstarf um orku- og loftslagsmál er nauðsyn

Samstarf um orku- og loftslagsmál er nauðsyn

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 8. maí sl. Greinin er eftir Eyjólf Árna Rafnsson formann Samtaka atvinnulífsins, Bjarnheiði Hallsdóttur formann Samtaka ferðaþjónustunnar, Guðrúnu Hafsteinsdóttur formann Samtaka iðnaðarins, Helga Bjarnason formann Samtaka fjármálafyrirtækja, Helga Jóhannesson formann Samtaka orku- og veitufyrirtækja, Jens Garðar Helgason formann Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Jón Ólaf Halldórsson formann Samtaka verslunar og þjónustu og Magnús Þór Ásmundsson formann Samtaka álfyrirtækja.

EES-samningurinn er eitt stærsta hagsmunamál íslensks atvinnulífs og hornsteinn að bættum lífskjörum almennings. Efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar byggist á viðskiptafrelsi sem er grundvallað á EES-samningnum. EES-samstarfið hefur fært Íslendingum mikinn ábata á liðnum aldarfjórðungi, lífskjör hafa batnað og atvinnulífið eflst.

Farsælt EES samstarf, sem nú fagnar 25 ára afmæli, tryggir með fjórfrelsinu frjálsa för fólks, vöru, þjónustu og fjármagns um alla Evrópu. Þetta er afar mikilvægt og ekki síst fámennum löndum eins og Ísland sannarlega er.

EES-samstarfið nær ekki til nýtingar auðlinda eins og sést af því að það eru Norðmenn sjálfir sem ákveða hvernig nýta skuli olíu- eða gaslindirnar þar. Það eru Finnar og Svíar sem ákveða hvernig skuli höggva skóga hjá sér. Og það eru Íslendingar sem ákveða hvort eða hvernig nýta eigi jarðhitann, vatnsaflið eða vindinn sem stöðugt blæs. Þessar ákvarðanir eru ekki teknar af Evrópusambandinu.

Samstarfið nær hins vegar til þess að vörur sem eru á markaði þurfa að uppfylla ákveðnar kröfur um orkunýtingu og tæknilega staðla á hverju sviði fyrir sig. Gert er ráð fyrir að samkeppni ríki á sem flestum sviðum þar á meðal um orkusölu enda sé það fyrst og fremst til hagsbóta fyrir neytendur.

Smám saman hafa kröfur aukist um betri nýtingu orku, aukna notkun endurnýjanlegra orkulinda og um orkusparnað. Jafnt og þétt verða loftslagsmál og orkumál samofnari enda er notkun jarðefnaeldsneytis meginorsök þeirra loftslagsbreytinga sem við verðum að takast á við.

Íslendingar hafa sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og eru í samstarfi við Evrópulöndin um sameiginlegar skuldbindingar gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Hagsmunir Íslands af þessu samstarfi eru mjög miklir og þátttaka í viðskiptakerfi Evrópu með losunarheimildir tryggir jafna samkeppnisstöðu orkufreks iðnaðar og fleiri fyrirtækja hér á landi og annars staðar á EES-svæðinu.

Löggjöf um orku- og loftslagsmál mun halda áfram að þróast og auk löggjafar sem nú er til meðhöndlunar á Alþingi (þriðji orkupakkinn) eru á döfinni enn frekari breytingar á lögum og reglum sem þessu sviði tengjast. Íslensk raforkulög taka þegar mið af því að Íslendingar hafa  innleitt fyrsta og annan orkupakka ESB og hefur sú ákvörðun reynst farsæl hingað til.

Það er mikilvægt fyrir hagsmuni Íslands, atvinnulífsins og fólksins í landinu að halda áfram samstarfinu við ESB um orku- og loftslagsmál með innleiðingu 3. orkupakkans. Alþjóðleg samvinna á þessu sviði mun auðvelda viðureignina við loftslagsbreytingar og gagnast ekki einungis okkar kynslóð heldur börnum okkar og barnabörnum.

Lambakjötsskortur á Íslandi

Lambakjötsskortur á Íslandi

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifar í Morgunblaðið 4. maí sl. 

Það er skortur á lambakjöti á Íslandi, svo undarlega sem það kann að hljóma. Engu að síður er þetta staðreynd. Ekki svo að skilja að ástæðan fyrir þessum „vanda“ sé sú að ekki séu nægar birgðir lambakjöts í landinu. Vandinn er nefnilega af annarri tegund, en samt heimatilbúinn.

Lambakjöt er nokkuð eftirsótt vara, ekki síst lambahryggurinn, en það er sú afurð lambsins sem lang mest spurn er eftir meðal neytenda. Hingað til hefur innanlandsframleiðslan dugað vel til að sinna innlendri eftirspurn árið um kring. Nokkrar afurðastöðvar fluttu hins vegar umtalsverðan hluta af lambahryggjum sem féll til við sláturtíð 2018 úr landi, bæði ferska og frosna, á verði sem er langt undir því verði sem innlendri verslun stendur til boða. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni var meðal skilaverð á frosnu hryggjunum 879 kr/kg, en örlítið hærra á þeim fersku. Það verð sem versluninni hefur staðið til boða var þá, a.m.k. tvöfallt þetta verð. Nú er svo komið að skortur er á innlendum lambahryggjum, þegar fjórir mánuðir eru þar til sláturtíð hefst á ný. Á sama tíma hafa afurðastöðvar ýmist boðað verulega verðhækkun á þeim hryggjum sem á annað borð eru til, skömmtun, að viðskiptin verði skilyrt eða einfaldlega að pöntunum sé hafnað. Það skal tekið fram að flestar afurðarstöðvar hér á landi eru í eigu bænda, ekki síst sauðfjárbænda.

Einstök aðildarfyrirtæki SVÞ hafa þegar sent beiðni til atvinnu- og nýsköðunarráðuneytisins, þar sem óskað er eftir því að tollfrjáls innflutningur á lambahryggjum verði heimilaður, til þess að unnt verði að anna eftirspurn neytenda eftir vörunni og koma í veg fyrir umtalsverða verðhækkun á lambakótilettum í sumar. Það verður fróðlegt að sjá viðbrögð ráðuneytisins við þessari sjálfsögðu ósk. Í því svari munu birtast viðhorf stjórnvalda í kjölfar nýgerðra kjarasamninga, til þess hvort vegi þyngra heildarhagsmunir íslenskra neytenda eða sérhagsmunir afurðarstöðva, sem notað hafa skattfé til þess að niðurgreiða lambakjöt til erlendra neytenda og ætla síðan að hækka verð á íslenska neytendur vegna heimatilbúins skorts.