Ölgerðin, sem hefur verið í framvarðarsveit íslenskra fyrirtækja á sviði sjálfbærni tekur nú enn eitt skrefið í átt að minnka kolefnisspor sitt.
Mbl.is fjallar um markmið Ölgerðarinnar en þar kemur m.a. fram að Ölgerðin hefur mælt og fylgst náið með losun frá öllum rekstri frá árinu 2015 og hefur á þeim tíma minnkað kolefnisspor sitt um 65%. Fyrirtækið gengur nú enn lengra og hefur lagt í umtalsverða vinnu við að ná utan um kolefnisspor virðiskeðjunnar út frá vísindalegum viðmiðum Science Based Targets.
Niðurstaðan er sú að eigin rekstur Ölgerðarinnar leiðir af sér undir 10% af áhrifum en yfir 90% verða til í aðfangakeðjunni sjálfri. Þannig má nefna að um 35% af kolefnissporinu sem mælist er vegna framleiðslu á umbúðum.
Vilja sína öðrum fyrirtækjum gott fordæmi
„Það er mikilvægt að fyrirtæki komi að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við höfum sett okkur þessi markmið og nú er ekki aftur snúið. Þessu verður náð m.a. með orkuskiptum sem er nú þegar hafið og með því að setja allan kraft í það að bæta ferla fyrirtækisins út frá hringrásahagkerfinu, frá hráefnum og umbúðum til endurvinnslu. Við viljum sína öðrum fyrirtækjum gott fordæmi en Ísland mun aldrei ná loftslagsmarkmiðum sínum nema að fyrirtækin taki þátt,“ er haft eftir Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra Ölgerðarinnar
Mynd: MBL.is