Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Óljóst með greiðslur sveitarfélaga til sjálfstætt starfandi leikskóla á höfuðborgarsvæðinu

Eftirfarandi fréttatilkynning var send út á alla helstu miðla þann 29. apríl:

Samtök sjálfstætt starfandi skóla hvetja sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu til þess að standa með sjálfstætt starfandi leikskólum og foreldrum

Sjálfstætt starfandi leikskólar á höfuðborgarsvæðinu munu fresta því tímabundið að senda greiðsluseðla til foreldra fyrir leikskólagjöldum.   

Í fréttatilkynningu frá Samtökum sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) þann 24. mars s.l. er lagt til að gjöld fyrir þjónustu verði leiðrétt í samræmi við hlutfall skerðingar vistunartíma í samkomubanni síðustu vikna, þ.e.  þjónustugjöld leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila.  

Ekki liggur þó fyrir hvort né hvernig sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu munu mæta sjálfstætt starfandi leikskólum. Því verða gjöld af foreldrum ekki innheimt fyrr en það liggur fyrir. 

Samtök sjálfstæðra skóla harma þá óvissu sem sveitarfélögin leggja á rekstraraðila sjálfstætt starfandi leikskóla með þessu.  

Það er ljóst að ef framlag til leikskóla skerðist getur það haft gríðarlegar afleiðingar fyrir rekstur skólanna. Samningar við sveitarfélögin eru skýrir en til að uppfylla lögbundið starf þá er samið um heildargreiðslu með hverju barni.  

Öll sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins ásamt Hafnarfirði hafa mætt sjálfstætt starfandi leikskólum vegna skerts hlutar foreldra í leikskólagjöldum enda er rekstrarkostnaður skólanna óbreyttur.   

Samtök sjálfstætt starfandi skóla hvetja sveitarfélögin til þess að halda áfram því mikilvæga og góða samstarfi sem verið hefur um fjölbreytt leikskólastarf og jafnræði foreldra óháð rekstrarformi leikskólanna. 

 

Uppfært í lok maí: Sveitarfélögin hafa samþykkt að mæta tekjufalli leikskóla vegna skertra foreldragjalda.

Exit mobile version