Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Orkukreppan í Evrópu leikur fyrirtæki í verslun grátt.

Orkukreppan í Evrópu leikur fyrirtæki í verslun grátt.

Orkukreppan sem nú gengur yfir í Evrópu, hefur þegar kveikt á aðvörunarbjöllum hjá fyrirtækjum í verslun, bæði í smásölu og heildsölu. Að mati EuroCommerce, Evrópusamtaka verslunarinnar, mun fjöldi fyrirtækja í greininni stefna í alvarlega rekstrarerfiðleika af völdum orkukreppunnar, komi ekki til opinber aðstoð í einhverri mynd. EuroCommece vekur sérstaka athygli á að í húfi sé framtíð þeirra 5 milljóna fyrirtækja sem starfandi eru í smásölu og heildsölu í álfunni. Þessi fyrirtæki hafa um 26 milljónir starfsmanna, en verslunin er sú atvinnugrein sem veitir flestu fólki vinnu í Evrópu. Um 12% vinnuafls í álfunni starfa við verslun.

Í könnun sem EuroCommerce gerði meðal aðildarfyrirtækja sinna kemur fram að orkukostnaður verslunarfyrirtækja hefur í sumum löndum fjórfaldast á stuttum tíma, eða frá því að stríð braust út í Úkraínu í febrúar s.l. Að mati samtakanna er mikilvægt að veita fyrirtækjum í verslun aðstoð á sama hátt og fyrirtækjum í ýmsum öðrum atvinnugreinum, sem þegar hefur verið veitt umtalsverð opinber aðstoð í einstökum aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Ákall EuroCommerce til framkvæmdastjórnarinnar og stjórnvalda í einstökum aðildarríkjum, er því að komið verði til móts við fyrirtæki í verslun á þessum sérstöku tímum. Samtökin leggja áherslu á að þar verði um tímabundna aðgerð að ræða, sem gangi til baka þegar orkumarkaðurinn hefur náð jafnvægi á ný. Samtökin daga sérstaklega fram mikilvægi verslunarinnar sem tengiliðarins milli framleiðenda og neytenda, þannig að ef vegið verður að rekstrargrunvelli fyrirtækja í verslun, muni slíkt hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir afkomu heimilanna.

Sú staða staða sem er uppi í orkumálum í Evrópu varpar skýru ljósi á þá öfundsverðu stöðu sem við Íslendingar erum í að þessu leyti.

Nánar má sjá umfjöllun EuroCommerce á meðfylgjandi tengli:https://www.eurocommerce.eu/2022/09/retail-and-wholesale-and-the-energy-crisis-an-urgent-need-for-support/ 

Exit mobile version