Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

RSV | Áreiðanleiki gagna og mikilvægi samstarfs við færsluhirða: Áskoranir og ný þróun

RSV Veltan Haust 2024

Aukinn fjöldi færsluhirða kallar á nýjar áskoranir

Rannsóknasetrur verslunarinnar (RSV) sendi í dag frá sér fréttatilkynningu þar sem kemur ma. fram að RSV leggur mikla áherslu á áreiðanleika gagna við öflun upplýsinga fyrir Veltuna, sem er eitt af mikilvægustu verkefnum setursins. Söfnun gagna byggir á sjálfviljugri þátttöku færsluhirða sem starfa á íslenskum markaði, þar sem RSV hefur engan lagalegan rétt til að krefja þá um upplýsingar. Í gegnum árin hefur setrið byggt upp gott samstarf við þessi fyrirtæki, sem hefur skilað mikilvægu gagnasafni fyrir íslenskt viðskiptalíf.

Þróun síðustu missera hefur þó kallað á nýjar áskoranir. Fjöldi færsluhirða hefur aukist verulega og verið hefur unnið hörðum höndum að því að kortleggja þessa aðila og fá þá til samstarfs. Því miður hefur sú vinna ekki gengið eins vel og vonir stóðu til. Þó íslenskir aðilar hafi verið opnir fyrir samtali, hefur reynst erfiðara að sannfæra erlenda færsluhirða um að afhenda gögn. Samræming á tölum RSV við Seðlabanka Íslands (SÍ) hefur sýnt fylgni, en erfiðleikar við að ná öllum aðilum hafa gert það nær ómögulegt að áætla heildarstærð markaðarins.

Greiðslumiðlunarfyrirtæki hafa þróast hratt með nýrri tækni, breyttum neytendavenjum og aukinni samkeppni. Þessi þróun, ásamt alþjóðavæðingu greiðslulausna, hefur leitt til þess að fyrirtæki geta náð til nýrra markaða með minna flækjustigi. Á sama tíma hefur þessi þróun gert það erfiðara fyrir RSV að tryggja heildstæð gögn.

Í byrjun sumars hættu gögn að berast frá einum af stærri færsluhirðunum hér á landi, sem leiddi til verulegra skekkja þegar gögnin voru borin saman við tölur Seðlabankans. Af þessum sökum var tímabundið gert hlé á birtingu gagna hjá RSV þar til hægt er að ná utan um alla færsluhirða á Íslandi. Stjórn RSV hefur sent beiðni til Seðlabankans um gögn beint frá þeim til að tryggja enn frekar áreiðanleika gagna og er von á svari fljótlega.

RSV leggur mikla áherslu á trúverðugleika gagna og hefur verið að vinna að breytingum á þessu ári til að styrkja áreiðanleika þeirra enn frekar. Það er nauðsynlegt að Ísland sé í takt við aðrar Evrópuþjóðir hvað varðar söfnun, greiningu og birtingu gagna um stóra útgjaldaliði í hagkerfinu, þar sem gott aðgengi að áreiðanlegum upplýsingum er lykilatriði.

Kíkið HÉR til að skoða Veltuna hjá RSV.

Exit mobile version