Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Sala húsgagna eykst um þriðjung

Samkvæmt samantekt Rannsóknaseturs verslunarinna mublera landsmenn hjá sér heimilin sem aldrei fyrr. Í ágúst síðastliðnum var velta í húsgagnasölu 36% meiri en í sama mánuði í fyrra.  Síðastliðna sex mánuði hefur sala húsgagna verið að jafnaði um þriðjungi meiri en á sama tíma og í fyrra. Þó viðskipti með húsgögn hafi ekki náð sömu hæðum og var fyrir hrun hefur þessi tegund verslunar verulega rétt úr kútnum að undanförnu. Sala húsgagna var í ágúst síðastliðnum 66% meiri að magni til (á föstu verðlagi) en í ágúst 2010.  Hins vegar þegar húsgagnasala er borin saman við ágúst 2007 sést að salan þá var 29% meiri en hún var í ágúst síðastliðnum. Ef fram heldur sem horfir verður húsgagnasala orðin meiri eftir ár en hún var fyrir hrun.

Aukinn ferðamannastraumur hefur jákvæð áhrif á sölu húsgagna. Þó vissulega séu erlendir ferðamenn ekki tíðir viðskiptavinir húsgagnaverslana þá krefst umbúnaður ferðaþjónustuaðila mikilla fjárfestinga. Reglulega þarf að endurnýja húsgögn og húsbúnað á hótelum, heimagististöðum og í gistihúsum. Húsgagnaverslanir njóta góðs af því.

Sala í stærsta vöruflokk smásöluverslunar, sem er matur og drykkjavörur, eykst áfram hratt. Í ágúst síðastliðnum var 8,4% meiri sala en í ágúst í fyrra, sem er álíka vöxtur og hefur verið undanfarna mánuði. Að öllu jöfnu eru ekki miklar sveiflur í veltu í flokki dagvöruverslana og því er þessi vöxtur nokkuð mikill þegar horft er yfir lengra tímabil.

Byggingavöruverslun blómstrar nú sem aldrei fyrr, og kemur sjálfsagt fæstum á óvart. Í síðasta mánuði var næstum 20% meiri velta en í sama mánuði í fyrra. Í þeim tölum er bæði sala vegna nýbygginga og endurnýjunar á húsnæði.
Heldur meiri sala var í raftækjum, tölvum og snjallsímum í ágúst síðastliðnum en 12 mánuðum áður. Í ágúst eru venjulega útsölur á raftækjum. Sú vörutegund sem mestar sveiflur urðu í, í þessum vöruflokki, voru tölvur. Líklega hefur upphaf skólaársins í ágúst, og endurnýjun á tölvum þess vegna, haft þar mest áhrif.

Litlar breytingar voru á veltu fata- og skóverslana í ágúst. Verðlag hefur þó lækkað töluvert í samanburði við ágúst í fyrra sem ræðst fyrst og fremst af afnámi 15% tolla á fatnað um síðustu áramót.

Verðlag hefur almennt lítið breyst í smásöluverslunum. Verð á dagvöru og áfengi hefur hækkað um 0,8% á síðustu tólf mánuðum, verð á fötum lækkaði á sama tímabili um 6,2% og verð á húsgögnum hækkaði um 2%.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 8,4% á breytilegu verðlagi í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,6% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í ágúst um 8,1% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 0,8% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í ágúst 0,4% hærra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 18,6% á breytilegu verðlagi í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 17,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í ágúst um 18% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,8% hærra í ágúst síðastliðnum og 0,1% hærra en í mánuðinum á undan.

Fataverslun jókst um 0,3% í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 6,9% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 6,2% lægra í ágúst síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar minnkaði um 0,8% í ágúst á breytilegu verðlagi og minnkaði um 4,8% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um -4,9% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í ágúst um 4,2% frá ágúst í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 35,7% meiri í ágúst en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 33,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 33,5% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 7,2% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 2% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í ágúst um 19,6% í ágúst á breytilegu verðlagi og jókst um 18,9% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,6% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.

Velta í sölu á tölvum jókst í ágúst um 9,4% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 4,5%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 6,5% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 6,2% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.

Exit mobile version