Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Sauðfjárbændur og samkeppnin

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13.04.18.

Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda sem haldinn var fyrir nokkru var vandi greinarinnar mjög til umræðu. Ætti það ekki að koma neinum á óvart enda hefur þessi vandi verið til umræðu í einhverri mynd, svo lengi sem undirritaður hefur fylgst með. Á undanförnum árum og áratugum er búið að verja gífurlegum fjárhæðum af opinberu fé í tilraunum til að leysa vandann, bæði með beinum og óbeinum framlögum, m.a. með fjárframlögum til að leita nýrra markaða fyrir íslenskar sauðfjárafurðir. Þrátt fyrir öll þessi opinberu inngrip, er staða íslenskra sauðfjárbúa nú verri en nokkru sinni fyrr. Afurðastöðvarnar, sem eru að mestu í eigu bænda, hafa s.l. tvö ár tilkynnt eigendum sínum um verulega lækkun á afurðaverði. Skýringar sem gefnar hafa verið eru tímabundnir erfiðleikar á erlendum mörkuðum. Enn var því seilst í vasa skattgreiðenda s.l. haust þegar 665 milljónum króna var úthlutað til að leysa hinn tímabundna vanda. Svo vísað sé til mats sauðfjárbænda sjálfra er staðan í greininni sú að búin teljast vart rekstrarhæf.

Erfitt er að sjá hvernig vandi greinarinnar geti verið tímabundinn. Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Sláturfélags Suðurlands er framleiðsla á kindakjöti um 50% umfram innanlandsmarkað. Útflutningur, án opinbers stuðnings, mun í fyrirsjáanlegri framtíð ekki geta skilað þeim tekjum sem réttlætt geta útflutning. Hann skilar afurðastöðvunum 30 – 50% lægra verði en innanlandsmarkaður.

Þrátt fyrir að afurðastöðvar séu flestar í eigu bænda dró formaður Landssamtaka sauðfjárbænda upp þá mynd af stöðunni, að bændur væru valdalausir í verðlagsmálum sínum og vandi þeirra lægi fyrst og fremst í „fákeppni í smásölunni“. Sala og markaðssetning sauðfjárafurða á innanlandsmarkaði er í höndum afurðastöðvanna. Afurðastöðvarnar eru í sömu stöðu og aðrir birgjar á markaði, hvort sem þeir heita heildsalar eða iðnrekendur, afurðir þeirra er í samkeppni við aðrar vörur um hylli neytenda. Sú spurning er óneitanlega áleitin hvort afurðastöðvarnar hafi sinnt þörfum viðskiptavina sinna vel, t.d. varðandi vöruþróun.

Vandi sauðfjárbænda hefur ekkert með aðstæður á smásölumarkaði að gera. Vandi sauðfjárbænda er einfaldlega sá að þeir framleiða langt umfram það sem markaðurinn hefur þörf fyrir. Fyrsta verkefnið til lausnar á vanda greinarinnar hlýtur því að vera að aðlaga framleiðsluna að þörfum markaðarins og að sinna betur þörfum viðskiptavina sinna.

 

Exit mobile version