Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

SVÞ óskar eftir upplýsingum frá félagsmönnum sem mætti nýta við vinnu við einföldun regluverks

Um þessar mundir stendur yfir vinna í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem miðar að einföldun regluverks. Verkefnið verður unnið í nokkrum áföngum.

Fyrsti áfangi verkefnisins er tvíþættur:

  1. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra birti drög að lagafrumvarpi á samráðsgátt stjórnvalda, Ísland.is., þar sem lagt er felldar verði niður nokkrar leyfisveitingar og skráningar sem ekki er talið nauðsynlegt að séu í lögum, sjá nánar: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1514
  2. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur kynnt áform um að fella brott 1.090 reglugerðir á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar, sjá nánar: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2019/10/21/Vel-yfir-thusund-reglugerdir-felldar-brott/

Vegna undirbúnings næsta áfanga hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kallað eftir virkri aðkomu atvinnulífsins. Óskað hefur verið eftir því að SVÞ sýni frumkvæði og sendi ráðuneytinu tillögur að frekari breytingum eða eftir atvikum afnámi reglna sem hafa stjórnsýslubyrði í för með sér.

Til að nauðsynleg yfirsýn starfsmanna SVÞ verði tryggð þurfa aðildarfyrirtækin að koma að verkefninu með virkum hætti.

SVÞ óska eftir því að aðildarfyrirtæki sendi samtökunum reynslusögur og ábendingar sem t.d. geta snúið að:

  1. Erfiðleikum við að nálgast hjá stjórnvöldum upplýsingar um laga- og framkvæmdarlega umgjörð starfsemi.
  2. Erfiðleikum eða flækjum í tengslum við öflun starfsleyfis.
  3. Örðugleikum sem kunna að hafa komið upp í samskiptum við eftirlitsstofnanir eða fyrirtæki í eigu hins opinbera.
  4. Mikilli vinnu við öflun gagna og upplýsinga vegna umsókna um leyfi eða annars sem snertir samskipti við opinbera aðila.
  5. Síendurtekinni vinnu við að afla og afhenda opinberum aðilum sömu upplýsingarnar.
  6. Eftirliti sem er þannig háttað að fleiri en ein eftirlitsstofnun virðast hafa eftirlit með sömu þáttum starfsemi.
  7. Flækjum sem komið hafa fram í því að eftirlitsstjórnvöld á sama sviði gera ólíkar eða ósamræmdar kröfur.

Tíminn er ekki að vinna með SVÞ en samtökin hafa aðeins eina viku til að koma tillögum sínum á framfæri við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Allar upplýsingar og ábendingar aðildarfyrirtækja verða hins vegar afar vel þegnar og munu nýtast í næstu áföngum, jafnvel þó að þær berist ekki í tæka tíð. Allt sem þið sendið okkur mun gagnast og allt verður tekið til skoðunar, hversu smávægilegt sem þið teljið það vera.

Vinsamlegast sendið upplýsingar og ábendingar varðandi málið á lögfræðing samtakanna, Benedikt S. Benediktsson á benedikt(hjá)svth.is

Exit mobile version