Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu mótmæla órökstuddum ummælum formanns Neytendasamtakanna.

Fréttatilkynning SVÞ 23.8.2024

SVÞ – Mótmælir ummælum formanns Neytendasamtakanna
Fréttatilkynning 23.ágúst 2024

Í gær lét formaður Neytendasamtakanna efnislega í ljós í viðtali að hann teldi samkeppnisaðila á dagvörumarkaði hafa haft með sér það sem hann kallaði „nokkurs konar þögult samkomulag um að hafa þetta eins og þetta er“.

Framangreind ummæli formannsins verða ekki skilin á annan hátt en að hann telji ráðandi fyrirtæki á dagvörumarkaði hafa átt með sér ígildi samráðs eða samstilltra aðgerða sem fara í bága við bannákvæði 10. gr. samkeppnislaga.

SVÞ mótmæla framangreindum ummælum formanns Neytendasamtakanna. Formaðurinn færði hvorki nokkur rök máli sínu til stuðnings né gerði tilraun til að útskýra mál sitt nánar. Ummælin eru haldlaus. Til að mynda gefa afkomutölur fyrirtækja á dagvörumarkaði hið gagnstæða til kynna.

Í huga SVÞ er alvarlegt að formaður neytendasamtaka skuli hafa látið ummælin falla. Í þeim felst nokkuð harkaleg ásökun sem SVÞ fá ekki séð að eigi við nokkur rök að styðjast.

Aukin samkeppni er af hinu góða. Fyrirsvarsmenn fyrirtækja á dagvörumarkaði hafa í viðtölum fagnað innkomu Prís á markaðinn. SVÞ fagna innkomunni sömuleiðis. Aukin verðsamkeppni kemur neytendum ekki aðeins til góða heldur getur aukin samkeppni hvatt keppinauta á dagvörumarkaði til hagræðingar og nýsköpunar og þannig aukið skilvirkni markaðarins.

Nánari upplýsingar veitir:
Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ
Sími: 864 9136

 

Exit mobile version