Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

SVÞ telja breytingar á búvörusamningum ganga of skammt

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 30.8.2016
Atvinnuveganefnd Alþingis hefur afgreitt nefndarálit vegna búvörusamninga. SVÞ hafa verið gagnrýnin á umrædda samninga, t.d. varðandi fjárskuldbindingar vegna þeirra, tímalengd þeirra og að ekki eru lagðar til breytingar á öðrum tengdum málefnum s.s. framkvæmd úthlutunar á tollkvótum á landbúnaðarvörum. Í umsögn sinni um málið bentu SVÞ á að með þeim skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur undirgengist með undirritun samninganna sé vegið verulega að fjárstjórnarvaldi Alþingis, stjórnarskránni, fjárlögum, fjáraukalögum og lögum um opinber fjármál. Þá gagnrýndu SVÞ framkvæmd varðandi úthlutun á tollkvótum á landbúnaðarvörum, þ.e. þá skyldu að leggja útboðsgjöld á kvótanna sem óneitanlega leiða til hækkunar á innlendu verði á þessum vörum, og lögðu samtökin til breytingu á núverandi fyrirkomulagi.

Nú liggur fyrir að atvinnuveganefnd Alþingis hefur lagt til m.a. þær breytingar að fram fari endurskoðun á samningunum eftir 3 ár í stað 10 ára  og að heimilaður verði án tolla innflutningur á tilteknu magni á svokölluðum upprunaostum, þ.e. ostum sem ekki eru framleiddir hér á landi.

SVÞ telja jákvætt að loksins hafi náðst fram eitt af baráttumálum samtakanna sem er tollfrjáls innflutningur á ostum sem hingað til hafa borið háan verndartoll. Hins vegar er það magn osta lítill hluti af innlendum ostamarkaði, eða alls um 3-5%, og mun því ekki hafa áhrif á markað sem ber öll merki einokunar. Þá er einnig jákvætt að lagt er til nýtt endurskoðunarákvæði varðandi gildistíma búvörusamninga sem þó felur ekki í sér styttingu á samningum eða niðurfellingu þeirra. Þá harma SVÞ að atvinnuveganefnd Alþingis hafi ekki tekið til skoðunar breytingar á úthlutun á tollkvótum með hliðsjón af innsendum tillögum samtakanna. Er því enn viðhaldið óréttlátri og íþyngjandi skattheimtu við úthlutun tollkvóta sem óhjákvæmilega felur í sér viðbótarkostnað fyrir neytendur. Þá hefur ekki verið litið til þess að tollkvótarnir taka ekki tillit til verulegrar aukningar ferðamanna sem hefur aukið verulega á eftirspurn eftir matvælum sem innlend framleiðsla hefur á engan hátt náð að anna.

Loks átelja SVÞ að tollur á tilteknar innfluttar vörur verði leiðréttur einhliða án frekari skoðunar á öðrum tollnúmerum sem sömu sjónarmið gilda um. Því harma SVÞ að ekki hafi verið stigið skref í átt að auknu frjálsræði og samkeppni í framleiðslu og innflutningi á alifugla- og svínakjöti og með því að lækka tolla á þessum afurðum. SVÞ telja að fyrirliggjandi samningar og tillögur atvinnuveganefndar um breytingar þar á sýni að lítill vilji virðist vera hjá stjórnvöldum að auka samkeppni í landbúnaði og þá trú að aukin samkeppni muni leiða af sér betri vörur, lægra verð og bættan rekstur fyrirtækja í landbúnaði. Því skora SVÞ á stjórnvöld að leggja til frekari breytingar á þessum málaflokki og þ.m.t. að taka til endurskoðunar núverandi framkvæmd við úthlutun á tollkvótum fyrir landbúnaðarvörum.

Fréttatilkynning á PDF sniði.

Exit mobile version