Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Uppbygging hleðsluinnviða fyrir atvinnubíla verður að vera markviss

Hleðsluinnviðir fyrir rafknúna fólksbíla eru komnir á nokkuð góðan stað og er ekkert því til fyrirstöðu að ferðast um allt landið á rafmagnsbíl. Hins
vegar vantar innviði fyrir stærri rafknúin ökutæki og mikilvægt að byggja innviðina upp með markvissum hætti
ef orkuskipti atvinnubílaflotans eiga að geta orðið að veruleika.Þetta segir María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, en í síðustu viku stóðu
samtökin fyrir málstofu þar sem þessi mál voru tekin til umfjöllunar og leitað lausna. „Í dag eru rafknúnir fólksbílar
á Íslandi orðnir um 30.000 talsins, en uppbygging innviða fyrir þá hefur að mestu verið handahófskennd þar sem bæði einstaklingar og fyrirtæki
hafa verið að þreifa sig áfram,“ segir María Jóna. „Þegar kemur að stærri ökutækjum getum við ekki treyst á svona „náttúrulega“ uppbyggingu.
Það þarf að leggja góðan grunn og vanda til verka, kortleggja hvar best er að staðsetja hleðslustöðvar, og tryggja að við hlustum á sjónarmið
þeirra sem munu nota stöðvarnar.Mikilvægt er að stjórnvöld stýri því verkefni í nánu samstarfi við atvinnulíf og aðra hagaðila.“ Stór ökutæki sem þurfa
mjög gott aðgengi Meðal þess sem þarf að hafa í huga, að sögn Maríu Jónu, er að ólíkar gerðir rafknúinna atvinnubíla hafa ólíkar
innviðaþarfir. „Rafknúnir vöruflutningabílar munu t.d. ekki endilega deila hleðslustöðvum með rafknúnum
strætisvögnum eða fólksbílum. Það er ekki rekstrarlega arðbært að taka ökutækin úr umferð og láta þau fara út af leið til að hlaða og vegna stærðar
sinnar þurfa þau mjög gott aðgengi,“ útskýrir María Jóna. María Jóna segir að orkuskipti atvinnubifreiða feli í sér mikil tækifæri; íslenska raforkan sé hagkvæmur kostur, og viðskiptavinir geri sífellt
ríkari kröfur um að fyrirtæki lágmarki kolefnisspor sitt. „Rafknúnir vinnubílar eru stór fjárfesting og fyrirtækin eru meira hikandi við að stíga fyrstu skrefin nema innviðir og stuðningur við kaup og rekstur ökutækjanna sé tryggður. Það þarf fyrirsjáanleika í þeim efnum til nokkurra ára í senn.“ Er ljóst að koma þarf upp hentugum hleðslustöðvum víða: „Á málstofunni var vitnað í erlendar rannsóknir
sem sýna hvar rafknúnir flutningabílar komast í hleðslu en í dag eru þessi ökutæki hlaðin á heimastöð í 40% tilvika, á hvíldarstöð í 40% tilvika og í 20% tilvika þegar verið er að afferma og ferma ökutækið,“ útskýrir María Jóna.
Ný Evrópureglugerð kveður á um að á meginæðum þjóðvegakerfisins sé æskilegt að hafa hleðslustöðvar með 60 km millibili, báðum megin við veginn. María Jóna segir íslenskar aðstæður ekki endilega kalla á að byggja
slíkt kerfi upp beggja vegna vegakerfisins og sennilegt að stjórnvöld byrji á að koma upp stöðvum með 100 km millibili. „En til að tryggja að uppbyggingin verði rétt þarf að hlusta á sérfræðingana – ökumennina sjálfa
– sem þekkja aðstæðurnar best.“ Styrkjakerfið verður að vera skilvirkt Þá segir María Jóna að til að orkuskiptin nái fram að ganga þurfi stjórnvöld einnig að koma til móts við fyrirtæki með styrkjum því rétt
eins og með fólksbíla í upphafi rafbíla ökutæki allt að tvöfalt til þrefalt dýrari en sambærileg ökutæki sem knúin eru jarðefnaeldsneyti. „Orkusjóður er byrjaður að úthluta styrkjum vegna kaupa rafknúinna atvinnubifreiða,
en ferlið þarf að vera gagnsærra og skilvirkara. Í ár var auglýstur umsóknarfrestur 11. júní en úthlutun átti sér ekki stað fyrr en 20. september. Fjórir mánuðir eru langur tími og hægir á allri ákvarðanatöku um fjárfestingakaup.“
Stjórnvöld þurfa að grípa til aðgerða strax þar sem málin þróast hratt, að sögn Maríu Jónu. „Í maí á þessu ári tók gildi í Evrópu reglugerð sem herðir á CO2-losunarstöðlum fyrir nýjar þungaflutningabifreiðar.
Umfang reglugerðarinnar hefur verið útvíkkað og nær nú til þungra og meðalstórra vörubíla, strætisvagna, hópferðabíla og eftirvagna. Samkvæmt reglugerðinni þurfa strætisvagnar að vera án útblásturs árið
2035. Einnig verða framleiðendur að ná 15% samdrætti í losun árið 2025 og 45% samdrætti árið 2030 miðað við núverandi ár.“

Morgunblaðið mánudagur 18. nóvember 2024

Exit mobile version