Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Útvistun verkefna er sjálfsagður kostur

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Morgunblaðið, 2. júlí:

Það er almennt talið góð leið til árangurs í rekstri að einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni. Þetta á við um allan rekstur hvort sem hann er á vegum hins opinbera og einkafyrirtækja. Það getur t.d. ekki talist kjarnastarfsemi sveitarfélaga að annast þrif á húsnæði í eigu viðkomandi sveitarfélags. Sama lögmál gildir um starfsemi einkafyrirtækja, enda fela þau flest sérhæfðum fyrirtækjum að annast slíkt fyrir sig, m.ö.o þau útvista þrifunum.

Þetta fyrirkomulag er eiginlega svo sjálfsagt að það ætti ekki að þurfa að nefna það. Enda gera flestir atvinnurekendur sér grein fyrir að það felst í því veruleg hagræðing að kaupa þjónustu af aðilum sem hafa sérhæft sig á tilteknum sviðum. Gildir þar einu hvort um er að ræða starfsemi á borð við þrif, bókhald,  hugbúnaðarþjónustu, vöruflutninga eða starfsmannaráðningar.

Það er nú samt einhvern veginn þannig að pólitísk umræða um þessi mál nær aldrei neinu flugi. Þeir sem aðhyllast ríkisumsvif eru vafalaus mjög sáttir við það. Á hinn bóginn hlýtur það að umhugsunarefni fyrir alla þá sem draga vilja úr umsvifum hins opinbera, hversu hægt miðar. Það virðist alls ekki eftirsóknarvert að setja þessi mál á oddinn í pólitískri umræðu, sem leiðir til þess að allar breytingar á þessu sviði gerast á hraða snigilsins.

Í þessu sambandi er ástæða til að rifja upp að árið 2006 höfðu þáverandi stjórnvöld uppi háleitar hugmyndir um útvistun verkefna frá hinu opinbera til einkaaðila. Þar voru sett metnaðarfull markmið. Síðan eru liðin fjórtán ár. Á þessum árum hefur það helst gerst að umsvif hins opinbera hafa aukist verulega  og meiri tregða en nokkru sinni fyrr er á að fela einkafyrirtækjum verkefni sem eru betur komin þar en hjá hinu opinbera.

Innan Samtaka verslunar og þjónustu er fjöldinn allur af fyrirtækjum sem eru sérhæfð á þeim sviðum sem hér um ræðir. Þessi fyrirtæki eru meira en tilbúin til að taka þessi verkefni að sér, sannfærð um að í felist veruleg hagræðing og góð nýting á almannafé. Nú styttist óðum í næstu alþingiskosningar. Þá gefst þeim stjórnmálamönnum sem draga vilja úr opinberum umsvifum enn eitt tækifærið til að sýna hvað í þeim býr með því að setja raunhæf markmið um tilfærslu verkefna frá hinu opinbera til einkafyrirtækja.

 

 

Exit mobile version