Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Erum fjær loftlagsmarkmiðum en við vorum 2005

Stjórnvöld vinna á móti loftlagsáætlun

Tekjuöflun stjórnvalda af bílum vinnur beinlínis gegn markmiðum sömu stjórnvalda um orkuskiptin og samdrátt í losun koltvísýrings segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, og stjórnarmaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu í nýjasta hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.   

Egill segir meðal annars;

„Það er svo áhugavert að stefnumótun stjórnvalda er skýr. Þau eru með lögbundin markmið um að draga úr losun í samgöngum. Þetta er alþjóðleg skuldbinding og Guðlaugur Þór var að borga 350 milljónir í losunarheimildir vegna þess að við uppfylltum ekki skilyrðin. Ofan á þetta bætist markmið um 55 prósent lækkun losunar frá 2005 í stjórnarsáttmála og í samvinnu við Evrópusambandið og Noreg.

Stefnumótunin er skýr en framkvæmdin er eitthvað skrítin. Það er þessi barátta milli tekjuöflunar ríkissjóðs og orkuskipta. Tekjuöflunin vinnur þvert gegn markmiðum orkuskiptanna,“ segir Egill.

„Þetta er sama ríkisstjórnin og þetta er alveg óskiljanlegt. Skilaboðin til bílgreinarinnar og kaupenda eru mjög misvísandi og fólk verður óneitanlega tvístígandi. Nú er að falla niður ívilnun upp á 1.320 þúsund um áramótin en á móti kemur kílómetragjaldið. Fólk veit ekki alveg hvað það á að gera. Það situr við eldhúsborðið og reynir að setja þetta upp í excel en það er ekki hægt að setja upp í excel þegar það vantar allar forsendur.

Við erum með stóráætlunina sem er að 2030 stefna stjórnvöld á að minnka losun koltvísýrings um 55 prósent miðað við árið 2005. Við vorum að losa 3,1 milljón tonna árið 2005 fyrir Ísland í heild, það sem er á beinni ábyrgð Íslands. Þá er ég ekki að tala um flugið og álverin sem eru í sérkerfi. Þetta eru þrjú kerfi og við erum með landnotkunina í þriðja kerfinu.“

Egill segir að á síðasta ári hafi bílar verið með 33 prósent af losuninni en stærsti hlutinn af losuninni er einmitt frá vegasamgöngum Þar af leiðandi liggi mestu tækifærin þar. Þarna sé líka auðveldast að sækja tækifærin vegna þess að tæknin er komin og síðan er búið að vera ívilnanakerfi til að hjálpa. Miklu fleiri aðgerðir þurfi samt..

„Ég fór fyrir vinnuhóp hjá Samtökum atvinnulífsins sem var að vinna með umhverfis- og loftslagsráðherra í því sem kallað er Loftslagsvegvísar atvinnulífsins. Hver atvinnugrein var tekin fyrir og við vorum að vinna með vegasamgöngur.

Við skiluðum af okkur í júlí til umhverfisráðherra 82 blaðsíðna skýrslu þar sem við greindum vegasamgöngur alveg í döðlur; hvað þær eru að losa, hvað það er mikið af bílum í landinu, hvað keyra þeir mikið, hvað brenna þeir miklu af eldsneyti, hvað nota þeir mikla raforku núna og hvað árið 2030, og fórum í gegnum þetta allt.

Ef við heimfærum stóra markmiðið á vegasamgöngur þá er þetta 55 prósent. Við losuðum 775 þúsund tonn árið 2005. Árið 2022 losuðum við 860 þúsund tonn þannig að þetta var upp einhver 11-12 prósent. Svo reiknuðum við okkur niður með tvær sviðsmyndir til ársins 2030. Þá þurfum við að vera niður um 55 prósent, eða niður í 350 þúsund tonn.

Í sviðsmynd eitt, sem við teljum vera raunhæfari sviðsmyndina, verður losunin 2030 12-15 prósentum meiri en árið 2005 en ekki 55 prósent minni.“

SMELLTU HÉR fyrir nánari upplýsingar og hlusta á þáttinn.

Mynd frá DV.is

Exit mobile version