Barnavagnar, barnaleikföng og snuð eru dæmi um vörur sem bera núna tolla sem falla niður.
Frá og með 1. janúar 2017 hafa allir tollar verið felldir niður hér á landi nema af hluta af matvöru. Þetta verður mikil kjarabót eins og hefur sýnt sig við niðurfellingu á almennum vörugjöldum 1. janúar 2015 og síðan niðurfellingu á tollum á fötum og skóm 1. janúar 2016.
Skilar niðurfellingin sér til neytenda?
Þrátt fyrir gagnrýnisraddir um annað þá hefur niðurfelling tolla og vörugjalda skilað sér til neytenda eins og efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins hefur ítrekað sýnt fram á með tölulegum gögnum. Þetta getur hinn almenni neytandi einfaldlega sannreynt með því að skoða breytingu á vísitölu þessara vara. Neytendur finna þetta einnig á verulegri verðlækkun á þeim vörum sem áður báru þessi gjöld s.s. eldavélum, sjónvörpum, salernum og bílavarahlutum. Einnig hafa föt og skór lækkað töluvert. Þetta hefur haft góð áhrif á þróun verðlags sem kemur öllum til góða.
Það skal þó tekið fram að tollar höfðu þegar verið felldir niður af vörum sem komu frá aðildarríkjum Evrópusambandsins og ríkjum sem gerðir hafa verið fríverslunarsamningar við, s.s. Kína, og báru því um 40% af innfluttum fötum og skóm engan toll þegar tollar voru felldir niður af þessum vörum um síðustu áramót. Niðurfelling á almennum vörugjöldum og tollum hefur ekki eingöngu haft áhrif á verð á tilteknum vörum til neytenda heldur einnig mjög jákvæð áhrif á vísitöluna eins og áður sagði og þar með á verðtryggð lán landsmanna. Því er hagur neytenda af tollaniðurfellingu ekki eingöngu mældur í lægra vöruverði.
Fyrir hverja er niðurfelling tolla og vörugjalda?
Niðurfelling tolla og vörugjalda gagnast fyrst og fremst neytendum og þá ekki síst þeim tekjulægri. Hin þjóðhagslegu áhrif hafa einnig verið jákvæð. Þannig hefur innlend verslun aukist í kjölfar þessara breytinga, skattgreiðslur fyrirtækjanna hækkað og störfum í verslun fjölgað. Sjálfsagt hefur þetta líka haft þau áhrif að þekktar erlendar verslunarkeðjur horfa nú í auknum mæli til Íslands sem ákjósanlegs vettvangs fyrir starfsemi sína. Samtök verslunar og þjónustu hafa lagt áherslu á mikilvægi þess fyrir íslenskt samfélag að sem stærstur hluti verslunar landsmanna fari fram hér á landi, slíkt eykur vöruframboð og hefur jákvæð áhrif á vöruverð. Þannig verði tryggt að íslensk verslun starfi á samkeppnislegum grunni gagnvart erlendri verslun og að opinber álagning hér á landi raski ekki þeirri samkeppni.
Hvaða breytingar verða 1. janúar 2017?
Nú standa einungis eftir tollar á aðrar vörur sem og tollar af hluta af matvörum. Dæmi um vörur sem tollar verða felldir niður af næstu áramót eru barnavagnar, leikföng, reiðtygi, ýmsar hreinlætisvörur, heimilisvörur og húsgögn. Þessar breytingar eru enn ein kjarabótin fyrir heimilin sem skilar sé í lækkun á vöruverði og hefur því áhrif til lækkunar verðbólgu og kaupmáttaraukningu fyrir heimilin.
Samtök verslunar og þjónustu fagna þessum breytingum og eru verslunarmenn þegar farnir að undirbúa sig undir þær.
Birt á visir.is 25. okt. 2016
Höfundar: Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ og Margrét Sanders formaður SVÞ