Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Niðurfelling bensíngjalda og olíugjalds um áramótin. Hver verða áhrifin? 

Nýtt kílómetragjald Hvað segir samþykkt frumvarpsins um mögulega þróun eldsneytisverðs

Niðurfelling bensíngjalda og olíugjalds um áramótin. Hver verða áhrifin? 

Þegar lög um kílómetragjald á ökutæki taka gildi um áramótin munu almennt og sérstakt vörugjald af bensíni (bensíngjöld) ásamt olíugjaldi falla brott. Á móti mun kolefnisgjald hækka um 30–32% (án virðisaukaskatts).  

Einstaklingar og fyrirtæki hafa velt fyrir sér hvaða áhrif gjaldabreytingarnar hafa á útsöluverð á dælu. Einfalda svarið er að áhrifin ráðast ekki aðeins af gjaldabreytingunum sjálfum heldur fleiri þáttum, þ. á m. því hversu hátt hlutfall bílaeldsneytis er blandað endurnýjanlegu eldsneyti.  

Á vefsíðunni vegirokkarallra.is sem er haldið úti af stjórnvöldum kemur t.d. eftirfarandi fram í svari við spurningunni hvort breytingarnar hafi áhrif á dæluverð bensíns og dísilolíu: „Olíu- og bensíngjöld munu falla niður og dæluverð mun lækka til samræmis. Uppfært kolefnisgjald verður hærra en áður og vegur því á móti lækkuninni. Hversu mikil lækkunin verður ræðst af hlutfalli vistvænna íblöndunarefna í eldsneyti. Hluti þessara íblöndunarefna af hverjum lítra hefur hvorki borið kolefnisgjald né olíu- eða bensíngjöld.“ 

Af hverju skiptir íblöndun máli? 

Það sem margir átta sig ekki á er að þegar bensín eða dísilolía er keypt á dælu er ekki afhent 100% jarðefnaeldsneyti. Í meira en áratug hefur söluaðilum eldsneytis verið gert að blanda bílaeldsneyti öðrum efnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og því er bílaeldsneyti á dælu ávallt blandað öðrum efnum. 

Söluaðilum eldsneytis er skylt samkvæmt lögum að tryggja að minnst 5% af heildarorkugildi eldsneytis í vegasamgöngum sé endurnýjanlegt eldsneyti.  

Skattar sem falla brott leggjast ekki á íblöndunarefni 

Bensíngjöld og olíugjald, sem falla niður um áramótin, eru ekki lögð á íblandaða hluta eldsneytis heldur aðeins þann hluta sem telst hreint jarðefnaeldsneyti þ.e. hreint bensín og hreina dísilolíu.  

Það þýðir að ef lítri af bensíni á dælu inniheldur 10% íblöndun þá er aðeins 90% af lítranum jarðefnaeldsneyti og því leggst niðurfelling bensíngjalda aðeins á 90% lítrans en ekki allan lítrann. Þannig mun skattalækkunin á eldsneyti verða í hlutfalli við hversu stór hluti eldsneytis er hreint jarðefnaeldsneyti.  

Dæmi um áhrif breytinganna á dæluverð 

Samkvæmt vefnum GSM bensín nam lægsta bensínverðið hinn 19. desember 2025 279,7 kr./lítra. Bensíngjöld og kolefnisgjald (með virðisaukaskatti) nema samanlagt 134,9 kr./lítra en hlutur þeirra í lítraverði breytist eftir því hversu mikil íblöndun er í eldsneytinu. Um áramótin falla bensíngjöld brott og þá stendur eftir kolefnisgjald að fjárhæð 30,1 kr./lítra (með virðisaukaskatti).  

Miðað við þessar forsendur, bensínverð 279,7 kr./lítra og skattlagningu annars vegar í dag og hins vegar eftir áramót má áætla að bensínverð geti lækkað um 89,1–104,8 kr./lítra miðað við íblöndun á bilinu 0–15%. Þess ber að geta að samkvæmt upplýsingum frá Umhverfis- og orkustofnun nam íblöndun í bensíni um 10% að meðaltali á tímabilinu janúar til október 2025.  

  • Facebook
  • Twitter
  • Gmail
  • LinkedIn
   

Samkvæmt vefnum GSM bensín nam lægsta dísilverðið hinn 19. desember 292,7 kr./lítra. Olíugjald og kolefnisgjald (með virðisaukaskatti) nema samanlagt 122,4 kr./lítra en hlutur þeirra í lítraverði breytist eftir því hversu mikil íblöndun er í eldsneytinu. Um áramótin fellur olíugjald brott og eftir stendur kolefnisgjald að fjárhæð 35,1 kr./lítra (með virðisaukaskatti).  

Miðað við þessar forsendur, dísilverð sem nemur 292,7 kr./lítra og skattlagningu annars vegar í dag og hins vegar eftir áramót má áætla að dísilverð geti lækkað um 74,2–87,3 kr./lítra miðað við íblöndun á bilinu 0–15%. Þess ber að geta að samkvæmt upplýsingum frá Umhverfis- og orkustofnun nam íblöndun í dísilolíu í vegasamgöngum um 8% að meðaltali á tímabilinu janúar til október 2025.   

  • Facebook
  • Twitter
  • Gmail
  • LinkedIn

  

Tekið skal fram að hér er um dæmi að ræða. Við útreikninganna er eingöngu tekið mið af breytingum á skattlagningu en ýmsir aðrir þættir á borð við innkaupsverð á eldsneyti og íblöndunarefnum hafa einnig veruleg áhrif á lítraverð. Þá skal ítrekað að verðlagning á bensín og dísilolíu er á endanum ávallt ákvörðuð af söluaðilum, slík ákvarðanataka er á þeirra ábyrgð enda um viðskiptalegar ákvarðanir að ræða. 

 

Exit mobile version