Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Morgunblaðið:
Samtök verslunar og þjónustu hafa undanfarin misseri lagt mikla áherslu á mikilvægi menntunar í því skyni að efla veg þeirra starfa sem unnin eru í verslunar– og þjónustufyrirtækjum. Menntun hefur gríðarlega miklu hlutverki að gegna þegar horft er til þeirra öru breytinga sem eru nú að eiga sér stað í öllum störfum, ekki síst störfum í verslun og þjónustu. Hin stafræna bylting hefur þegar haft umtalsverð áhrif á störf í þessum atvinnugreinum og þau áhrif munu aðeins aukast á næstu árum.
Ný námslína við Verzlunarskóla Íslands, unnin í samstarfi við SVÞ, er því mikið fagnaðarefni. Markmið námsins er að koma til móts við nýjar þarfir fyrirtækja í verslun og þjónustu. Þarfir sem lúta með beinum hætti að þeirri stafrænu byltingu sem er að eiga sér stað. Netverslun og -þjónusta eykst hröðum skrefum og upp er að vaxa kynslóð sem mun sækja meirihluta sinnar verslunar og þjónustu á netið. Í kjölfarið tekur umhverfi starfsfólks stórstígum breytingum og því skiptir öllu máli að sú hæfni sem nýr veruleiki krefst sé byggð upp með góðri menntun.
Þessari áskorun hafa SVÞ ákveðið að mæta með samstarfi við Verzlunarskóla Íslands. Nú í haust bauðst nýnemum að hefja nám á nýrri stafrænni viðskiptalínu. Eftirspurn eftir náminu fór fram úr björtustu vonum og komust mun færri að en vildu. Verslunar- og þjónustufyrirtæki munu gegna lykilhlutverki við framkvæmd og þróun námsins, annars vegar með því að miðla af eigin reynslu við innleiðingu stafrænna lausna innan fyrirtækjanna og hins vegar með því að vera leiðbeinendur og bjóða upp á vinnustaðanám fyrir ungmenni á þessari nýju námslínu við Verzlunarskólann.
Það eru mikil tímamót, nú þegar fyrsti nemendahópurinn leggur af stað í þessa vegferð. SVÞ væntir mikils af samstarfinu við Verzlunarskólann og munu vinna ötullega með skólanum að þróun námsins. Það er trú samtakanna að námið muni skila af sér öflugu fólki sem verður í stakk búið til takast á við krefjandi viðfangsefni í nýju og breyttu starfsumhverfi verslunar- og þjónustufyrirtækja.