Site icon SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu

Þegar kjörbúð lokar – versnar staða samfélaga

SVÞ kallar eftir breytingum á rekstrarumhverfi verslana í landsbyggðunum 

Lokun verslunarinnar Hamonu á Þingeyri er meira en hefðbundin fækkun búða. Lífsgæði íbúa við Dýrafjörð skerðast.
Íbúar þurfa nú að aka 48 kílómetra í næstu verslun, fjarlægð sem er löng og oft erfið í vetrarfærð.  

„Þegar verslun lokar í litlu byggðarlagi skerðist ekki bara aðgengi að vörum – heldur kemur það niður að þjónustu, mannlífi og samfélagslegum gæðum“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, sem birti grein sem á Vísi í dag. 

Verslun sem samfélagsleg lífæð 

Hamona var ekki einungis dagvöruverslun heldur einnig afhendingastaður fyrir ÁTVR.   Sex aðrar verslanir víða um land, svo sem í Gunnubúð á Raufarhöfn og Jónsabúð á Grenivík eru einnig afhendingastaðir ÁTVR. Þessar verslanir halda uppi þjónustu sem er nauðsynleg til að byggðir dafni.  Samkvæmt áætlunum SVÞ nam framlegð ÁTVR af sölu til íbúa Þingeyrar árið 2024 nær sexfaldri afkomu Hamonu árið 2022.  Þessi ávinningur féll Hamonu hinsvegar ekki í skaut. 

„Þetta eru fjárhæðir sem skipta sköpum í rekstri smærri verslana – fjárhæðir sem gætu jafnvel stuðlað að því að til staðar verði sæmilegar forsendur til heilsársreksturs.“ segir Benedikt. 

Tími til að endurskoða leikreglurnar 

SVÞ hafa lengi talað fyrir breytingum á fyrirkomulagi smásölu áfengis og leggja áherslu samkeppnishæfni.

„Við þurfum að skoða hvort núverandi fyrirkomulag þjónar landsbyggðinni eins og það á að gera,“ segir Benedikt. „Ef við viljum tryggja byggðafestu og mannlíf, þurfum við að huga að því hvernig við dreifum verðmætunum – ekki bara vörunum.“ 

Tilvist verslunar er nánast forsenda byggðar á hverjum stað. Því er mikið undir að smærri verslanir fái svigrúm til að auka tekjur, þróa þjónustu og bæta rekstrarskilyrði.
Grein Benedikts S. Benediktssonar í heild má lesa á Vísi: Smelltu HÉR! 

Exit mobile version